04. febrúar 2025

Brýnt að bregðast skjótt við og skoða hvort réttaröryggi fatlaðs fólks sé nægilega tryggt

Meðferð mála vegna beiðna þeirra sem þjónusta fatlað fólk á heimilum þess og í daglegu lífi, um undanþágur frá banni við að beita fatlað fólk nauðung, dregst í mörgum tilfellum úr hófi. Einhver fjöldi þess býr jafnvel við ólögmæta nauðung í daglegu lífi. Að mati umboðsmanns eru áhöld um hvort núverandi fyrirkomulag í tengslum við beitingu nauðungar gagnvart fötluðu fólki þjóni nægilega hagsmunum þess.

Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns til félags- og vinnumarkaðsráðherra þar sem ítrekuð eru fyrri tilmæli um að skoðað verði hvort réttaröryggi fatlaðs fólks sem sæti nauðung sé nægilega tryggt í lögum og framkvæmd. Í tilefni af athugun umboðsmanns var óskað eftir upplýsingum bæði frá nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Af svörunum var ljóst að afgreiðsla mála getur tekið töluverðan tíma og dæmi var um að ferlið í heild hafi tekið á þriðja ár. Þá megi ætla að vanhöld séu á tilkynningum þegar nauðung er beitt í neyðartilvikum og einnig á að beiðnir um undanþágur frá banni við að beita nauðung séu yfirhöfuð lagðar fram þegar það á við.

Með bréfum til sérfræðiteymisins og undanþágunefndarinnar var komið á  framfæri ábendingum til þeirra vegna málshraða. Þá var frekari ábendingum beint til teymisins, m.a. í tengslum við skráningu mála. Í bréfi sínu til ráðherra benti umboðsmaður á að spurningar hljóti að vakna um hvort núverandi fyrirkomulag sé til þess fallið að þjóna hagsmunum fatlaðs fólks, m.a. með tilliti til skilvirkni og réttaröryggis. Þar sem um væri að ræða grundvallarhagsmuni fatlaðs fólks og hversu brýnt væri að brugðis yrði skjótt við þeirri stöðu sem um væri að ræða var óskað viðbragða frá þessum þremur stjórnvöldunum eigi síðar en 1. júlí 2025.

  

  

Bréf umboðsmanns til félags- og vinnumarkaðsráðherra

Bréf umboðsmanns til nefndar um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar

Bréf umboðsmanns til sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar