OPCAT-eftirlitið beinist að stöðum þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Af því leiðir að umboðsmaður getur heimsótt alla staði þar sem frelsissviptir einstaklingar kunna að dvelja. Þetta geta til dæmis verið fangelsi, lögreglustöðvar, geðdeildir og barnaverndarúrræði.

heimsoknir_1@72x.png

Umboðsmaður tilkynnir ekki í öllum tilvikum komu sína fyrirfram. Mismunandi starfsemi og ólíkar aðstæður á stöðum sem falla undir eftirlitið geta jafnframt kallað á að fulltrúar umboðsmanns komi á mismunandi tímum sólarhrings. Heimsóknirnar geta tekið mislangan tíma og jafnvel staðið yfir í nokkra daga.

Markmið heimsóknanna er m.a. að skoða húsakost og aðbúnað þeirra sem þar dvelja og ræða við fólk á staðnum. Rætt er við stjórnendur og starfsfólk en sérstök áhersla er lögð á einkaviðtöl við þá sem dvelja á staðnum. Ef tilefni þykir til er einnig rætt við aðra, svo sem aðstandendur eða fulltrúa félagasamtaka. Umboðsmaður getur óskað eftir gögnum áður en komið er í heimsókn en einnig að fá að skoða gögn á staðnum. Í því sambandi á hann rétt á að fá aðgang að öllum upplýsingum sem varða meðferð frelsissviptra einstaklinga og vistunaraðstæður þeirra sem og aðgang að vistarverum þeirra og annarri aðstöðu.

Heimsóknir umboðsmanns beinast almennt að því að skoða aðstæður þeirra sem þar dvelja og þá einkum:

  • Aðbúnað á staðnum, t.d. húsakost, fæði og hreinlæti.
  • Samskipti við aðra sem dvelja á staðnum og starfsfólk en einnig aðra utan dvalarstaðar.
  • Verklag sem tengist hvers konar öryggisráðstöfunum eða þvingunum en einnig skráningu og meðferð gagna um slík atriði.
  • Heilsufar og aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki ásamt kunnáttu þess, reynslu og viðveru.
  • Virkni í vinnu, námi, meðferð og tómstundum.