Hægt er að nálgast eyðublöð fyrir kvörtun og umboð hér á síðunni til útprentunar.

Kvörtun þarf að berast umboðsmanni Alþingis undirrituð af þeim sem ber kvörtunina fram eða af þeim sem fengið hefur umboð til þess.

Senda kvörtun rafrænt

   

Kvörtun

PDF-skjal     Word-skjal 

   

Umboð

PDF-skjal     Word-skjal

   

Leiðbeiningar um útfyllingu

"Kvörtun til umboðsmanns Alþingis"

kvörtun.png

Starfssvið umboðsmanns:

Starfssvið umboðsmanns tekur til stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga. Til umboðsmanns má því kvarta út af hvers konar ákvörðunum, úrlausnum, málsmeðferð og háttsemi ráðuneyta, ríkisstofnana og annarra aðila, sem fást við stjórnsýslu ríkisins. Sama gildir um sveitarstjórnir og aðra aðila, sem fást við stjórnsýslu á vegum sveitarfélaganna. Einnig má kvarta yfir ákvörðunum einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í lögum um umboðsmann Alþingis kemur fram að starfssvið hans taki almennt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Einnig kemur þar fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ágreinings milli einkaaðila.

Almenn skilyrði til að bera fram kvörtun:

Ef kvartað er út af ákvörðunum stjórnvalds og unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til æðra setts stjórnvalds, t.d. ráðuneytis eða sérstakrar úrskurðarnefndar, þá verður sá sem hyggst bera fram kvörtun að skjóta málinu fyrst til þess stjórnvalds sem æðra er áður en hann getur borið fram kvörtun til umboðsmanns. Ef kvartað er yfir einhverju öðru en ákvörðunum, t.d. töfum á afgreiðslu máls eða framkomu starfsmanns stjórnsýslunnar, er unnt að leita beint til umboðsmanns og þarf þá ekki að snúa sér áður til æðra setts stjórnvalds. Kvarta verður til umboðsmanns áður en ár er liðið frá ákvörðun þeirri eða atviki sem er tilefni kvörtunar. Ef um ákvörðun er að ræða sem hefur verið kærð til æðra setts stjórnvalds telst ársfresturinn þó frá þeim tíma er æðra stjórnvald kvað upp úrskurð sinn. Þótt kvörtun komi of seint fram getur það orðið tilefni til þess að umboðsmaður taki tiltekið vandamál til athugunar að eigin frumkvæði. Kvörtun til umboðsmanns skal vera skrifleg og æskilegt er að hún berist á sérstöku eyðublaði sem hér er sýnt. Hægt er að nálgast eyðublaðið hér á heimasíðunni eða á skrifstofu umboðsmanns.

"Upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun"

kvortun2.png

Hverjir geta kvartað:

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem fæst við stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélags, eða einhvers þess einkaaðila sem hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, getur borið fram kvörtun við umboðsmann. Allir einstaklingar, hvort heldur Íslendingar eða útlendingar, geta því kvartað til umboðsmanns og sama gildir um félög og stofnanir einstaklinga. Ekki er nauðsynlegt að lögmaður beri fram kvörtun fyrir hönd þess sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld geta almennt ekki kvartað yfir ákvörðun og athöfnum annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits umboðsmanns á máli. Starfsmenn í þjónustu stjórnvalda geta hins vegar kvartað til umboðsmanns yfir ýmsum ákvörðunum yfirmanna sinna er að þeim beinast, eins og áminningum eða uppsögnum. Í kvörtun skal greina nafn þess sem kvörtun ber fram, heimilisfang hans og kennitölu.

Kvörtun borin fram af öðrum:

Aðeins þeir sem halda því fram að þeir hafi verið beittir rangsleitni af hálfu stjórnvalda geta borið fram kvörtun við umboðsmann. Þeir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta af úrlausn eða athöfn stjórnvalds geta þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði. Ef maður ber fram kvörtun fyrir hönd annars manns skal skriflegt umboð fylgja kvörtun. 

"Upplýsingar um kvörtunarefni"

„Nafn þess aðila, stofnunar eða starfsmanns sem kvörtun beinist að.”

kvortun3.png

Að hverjum getur kvörtun beinst?:

Kvörtun til umboðsmanns getur beinst að hverjum þeim aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns.

Hvað þarf að koma fram?

Hér þarf að koma fram nafn þess sem kvörtun beinist að, svo sem ráðuneytis, stofnunar, nefndar, ráðs eða einkaaðila er fengið hefur að lögum opinbert vald til að taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna.

"Yfir hverju er kvartað (í stuttu máli)?"

kvortun4.png

Yfir hverju er hægt að kvarta?:

Hægt er að kvarta yfir hvers konar ákvörðunum, úrlausnum, málsmeðferð, háttsemi og framkomu af hálfu starfsmanna ráðuneyta, ríkisstofnana og annarra aðila, sem fást við stjórnsýslu.

Hvað þarf að koma fram?:

Hér þarf að koma fram stutt lýsing á þeirri ákvörðun eða athöfn sem er tilefni kvörtunar, t.d. synjun stjórnvalds um tiltekið leyfi eða fyrirgreiðslu.

"Rökstuðningur fyrir kvörtun"

kvortun5.png

Hvað þarf að koma fram?

Hér þurfa að koma fram upplýsingar um það hvers vegna sá er ber fram kvörtun telur að hann hafi verið beittur rangsleitni af hálfu þess aðila sem kvartað er yfir. Ekki er nauðsynlegt að vísa til tiltekinna réttarreglna í því sambandi. Nægjanlegt er að viðkomandi bendi á þá annmarka sem hann telur að hafi verið á málsmeðferð stjórnvalds eða á efni ákvörðunar þess. Ef kvartað er yfir framkomu starfsmanna stjórnsýslunnar þarf að lýsa þeirri framkomu sem er tilefni kvörtunar.

"Hefur áður verið kvartað yfir þeim ákvörðunum eða annarri háttsemi sem lýst er hér að framan?"

kvortun6.png

Hvað þarf að koma fram?

Hér þarf að koma fram hvort áður hafi verið kvartað til umboðsmanns yfir þeirri ákvörðun eða háttsemi sem kvörtun beinist að. Jafnframt er æskilegt að hér komi fram hvort og hvaða leiða hafi verið leitað innan stjórnkerfisins til að rétta hlut þess sem ber fram kvörtun.

"Hefur kvörtunarefnið verið lagt fyrir dómstóla?"

kvortun7.png

Hvað þarf að koma fram?

Hér þarf að koma fram hvort leitað hafi verið til dómstóla vegna þeirrar ákvörðunar eða háttsemi sem er tilefni kvörtunarinnar.

"Skrá yfir skjöl og önnur gögn sem fylgja kvörtun:"

kvortun8.png

Hvað þarf að koma fram?

Nauðsynlegt er að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik fylgi með kvörtun í afriti. Hér þarf að skrá lista yfir þau skjöl og önnur gögn sem fylgja kvörtun.

"Athugasemdir"

kvortun9.png

Hvað þarf að koma fram?

Ef sá sem ber fram kvörtun vill koma að einhverjum frekari athugasemdum gerir hann það hér.

"(Dagsetning) (Undirskrift)"

kvortun10.png

Nauðsynlegt er að kvörtun sé undirrituð af þeim sem hana ber fram eða umboðsmanni hans.