Hafi umboðsmaður að frumathugun lokinni ákveðið að rannsaka mál nánar er honum heimilt að ljúka málinu með eftirfarandi hætti:
a) Umboðsmaður getur í fyrsta lagi látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds þess sem í hlut á, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 og 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988.
b) Í öðru lagi getur máli lokið með því að umboðsmaður lætur í ljós skoðun sína á því, hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða góða stjórnsýsluhætti. Ef því er að skipta getur hann látið í ljós þá skoðun að stjórnvald hafi við mat sem er í valdi þess brotið bersýnilega gegn kröfum um sanngirni eða góða stjórnsýsluhætti.
Í álitsgerð umboðsmanns geta falist tilmæli, gagnrýni, ráð eða leiðbeiningar, allt eftir því hvað við á hverju sinni.
Umboðsmaður skal gera viðeigandi yfirvöldum viðvart, ef hann telur að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum lögum samkvæmt, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 og 2. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988. Umboðsmaður hefur ekki vald til að fyrirskipa að mál sé höfðað til að koma fram viðurlögum á hendur starfsmönnum í stjórnsýslunni vegna brota í starfi. Hann getur hins vegar vakið athygli ríkissaksóknara á slíku máli. Umboðsmanni er og heimilt að senda Alþingi og viðkomandi ráðuneyti eða sveitarstjórn sérstaka tilkynningu, ef í ljós koma stórvægileg mistök eða afbrot stjórnvalds, sbr. 10. og 12. gr. laga nr. 85/1997.
c) Ef kvörtun varðar ágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr getur umboðsmaður í þriðja lagi lokið máli með ábendingu um það, sbr. c-lið 10. gr. laga nr. 85/1997. Í þessu ákvæði kemur fram þýðingarmikil ráðagerð um að viss verkaskipting sé milli umboðsmanns og dómstóla, en regla þessi er meðal annars á því byggð að dómstólar séu betur til þess fallnir en umboðsmaður að útkljá vissar deilur, auk þess sem oft sé rétt að dómstólar skeri úr réttarágreiningi um grundvallaratriði. Ef þannig er t.d. um að ræða ágreining, þar sem fyrst og fremst reynir á skýringu samninga og reglur einkaréttar, er heppilegra að slík mál séu rekin fyrir dómstólum. Sérstaklega á það við, ef nauðsyn er umfangsmikillar gagnaöflunar, svo sem skýrslna vitna og matsgerða eða annarra sérfræðiálita, eins og oft er í málum til heimtu skaðabóta vegna skaðaverka utan samninga.
d) Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar, d-lið 10. gr. laga nr. 85/1997. Tekið skal fram að þessi heimild fyrir umboðsmann til að leggja til að veitt verði gjafsókn á aðeins við í þeim málum sem hann hefur tekið til efnismeðferðar. Ekki er því hægt að leita til umboðsmanns til þess eins að fá hann til að mæla með að aðila verði veitt gjafsókn í dómsmáli sem viðkomandi áformar að höfða.