02. október 2024

Óskað eftir upplýsingum frá Persónuvernd um kvartanir, afgreiðslutíma og verklag

Undanfarin misseri hafa umboðsmanni borist kvartanir og ábendingar vegna tafa á afgreiðslu mála hjá Persónuvernd. Á vef stofnunarinnar kemur fram að 236 mál séu óafgreidd. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu mála og það verklag sem viðhaft er, svo sem með tilliti til viðmiða um afgreiðslutíma.

Umboðsmaður lauk nýverið máli vegna kvörtunar sem hafði tekið Persónuvernd tæp fjögur ár að afgreiða. Í skýringum stofnunarinnar á töfum við afgreiðslu kvartana hefur verið vísað til mikils málafjölda og anna, að tafirnar stafi af almennum orsökum og séu ekki bundnar við einstök mál.

Lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga var breytt fyrir einu og hálfu ári, m.a. með það að markmiði að afgreiðslutími Persónuverndar styttist. Vill umboðsmaður nú fá að vita um fjölda kvartana undanfarin ár, meðalafgreiðslutíma þeirra og verklag. Jafnframt er beðið um nánari upplýsingar um ástæður þeirra almennu tafa sem stofnunin hefur lýst og áhrif lagabreytinganna á afgreiðslutímann.

  

  

Bréf umboðsmanns til Persónuverndar

Mál nr. 12791/2024