1. Samskipti umboðsmanns Alþingis og fyrirsvarsmanna stjórnsýslunnar fara fram á þeim grundvelli að lögum samkvæmt er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.
2. Óski fyrirsvarsmaður stjórnvalds eftir að ræða við umboðsmann Alþingis í tilefni af máli sem umboðsmaður hefur til meðferðar eða hefur lokið skal meginreglan vera sú að slíkar umræður fari fram á fundi. Umboðsmaður og fyrirsvarsmaður stjórnvalds ákveða hvor af sinni hálfu hverjir skuli sitja fundinn. Umboðsmaður leitast við að verða við óskum um slíka fundi eins fljótt og kostur er hverju sinni.
3. Telji fyrirsvarsmaður stjórnvalds og/eða umboðsmaður þörf á að ræða niðurstöðu álits eða mál sem umboðsmaður hefur til meðferðar í símtali getur hvor aðili um sig ákveðið, þar með talið í símtalinu, að í stað símtals skuli málið rætt á fundi.
4. Ef fyrirsvarsmaður stjórnvalds óskar eftir að koma á framfæri við umboðsmann Alþingis athugasemdum um störf hans er það ósk umboðsmanns að þær séu sendar honum skriflega.
5. Á fundum sem umboðsmaður Alþingis heldur með fyrirsvarsmönnum stjórnvalda skal færð fundargerð þar sem skráð er tilefni fundar, hverjir sitji hann og hvert sé umræðuefni hans.
6. Samtöl og fundir umboðsmanns Alþingis og fyrirsvarsmanna stjórnvalda fara fram vegna starfs umboðsmanns og eru sem slíkir ekki haldnir í trúnaði. Telji fyrirsvarsmaður stjórnvalds nauðsynlegt að greina umboðsmanni frá einhverju sem stjórnvald óskar eftir að trúnaður gildi um skal almennt setja slíka ósk fram skriflega og tilgreina ástæður.