Forvarnir gegn pyndingum

Engan má beita pyndingum né annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einstaklingar sem eru sviptir frelsi sínu eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu að þessu leyti. Aðstæður þeirra hafa í för með sér aukna hættu á slíkri meðferð, m.a. vegna þess að þeir eru ekki sýnilegir í samfélaginu.

Með þingsályktun 19. desember 2015 fól Alþingi ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT). Bókunin var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 2002 og undirrituð af hálfu Íslands 23. september 2003. Í henni er m.a. kveðið á um eftirlit sem komið skal á fót innan hvers aðildarríkis. Forsætisnefnd Alþingis hefur fallist á að umboðsmaður Alþingis gegni þessu hlutverki hér á landi og hefst eftirlit hans á grundvelli bókunarinnar á árinu 2018.

Hlutverk umboðsmanns sem hins innlenda forvarnaraðila er að kanna hvort og hvernig réttindi frelsissviptra einstaklinga eru virt og draga úr líkum á brotum gegn þeim með forvarnarstarfi. Heimsóknir á staði þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða kunna að vera frelsissviptir eru meginþáttur í þessu verkefni. Samskipti við innlenda og alþjóðlega aðila eru einnig mikilvægur þáttur í starfinu.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (OPCAT) var fullgiltur af hálfu Íslands á grundvelli þingsályktunar sem Alþingi samþykkti 22. maí 1996 og er birtur í lagasafninu undir nr. 19/1996.Eftirlitsheimsóknir

Umboðsmaður Alþingis sinnir þegar eftirliti með mörgum þeirra staða sem falla undir OPCAT og er því að einhverju leyti kunnugur starfsemi þeirra. Við meðferð mála sem þá varða getur hann samkvæmt lögum um umboðsmann kallað eftir þeim upplýsingum og skýringum sem hann telur nauðsynlegar til að skoða mál, auk þess sem hann hefur heimild til að heimsækja og skoða starfsstöðvar stjórnvalda. Nú liggur fyrir Alþingi lagafrumvarp um að OPCAT-eftirlitið taki einnig til úrræða á vegum einkaaðila. Athuganir og niðurstöður umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlitsins geta beinst að öðrum þáttum en hingað til hefur reynt á í störfum umboðsmanns, svo sem hvort aðbúnaður eða meðferð séu í samræmi við sjónarmið um mannúð (mannsæmandi aðbúnað) eða mannvirðingu í skilningi OPCAT-samningsins.

Á grundvelli OPCAT hefur umboðsmaður heimild til að heimsækja alla staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Þetta á til að mynda við um fangelsi, lögreglustöðvar, geðdeildir, barnaverndarúrræði, dvalar- og hjúkrunarheimili og úrræði fyrir fatlað fólk. Heimsókn er ekki í öllum tilvikum tilkynnt fyrirfram. Markmið heimsóknanna er m.a. að skoða húsakost og aðbúnað þeirra sem þar dvelja og ræða við fólk á staðnum en sérstök áhersla er lögð á einkaviðtöl við þá sem dvelja á staðnum. Umboðsmaður og starfsfólk hans getur óskað eftir gögnum áður en komið er í heimsókn en einnig að fá að skoða gögn á staðnum. Í því sambandi eiga þau rétt á að fá aðgang að öllum upplýsingum sem varða meðferð frelsissviptra einstaklinga og vistunaraðstæður þeirra sem og aðgang að vistarverum þeirra og annarri aðstöðu.


 

Niðurstöður og tilmæli

Eftir hverja heimsókn skilar umboðsmaður skýrslu með niðurstöðum og auk þess er gerð grein fyrir eftirlitinu í ársskýrslu. Eftir atvikum eru lagðar fram tillögur að aðgerðum til að bæta aðbúnað frelsissviptra og draga úr hættu á að þeir verði fyrir pyndingum eða sæti annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Skýrslur um heimsóknir verða birtar á vef umboðsmanns. Það er hluti af viðleitni umboðsmanns til að veita innsýn í aðstæður frelsissviptra einstaklinga. Aðildarríkjum ber samkvæmt bókuninni að taka við tilmælum og ábendingum eftirlitsaðila um það sem betur má fara, bæði hvað varðar framkvæmd og lagasetningu.

Svo hægt sá að ná markmiðum eftirlits og forvarnarstarfs umboðsmanns Alþingis sem innlends forvarnaraðila á umboðsmaður einnig í umfangsmiklum samskiptum við innlend stjórnvöld, félagasamtök og fjölþjóðlegar mannréttindastofnanir.