25. febrúar 2025

Bent á meinbugi á lögum um tekjuskatt

Meinbugir eru á lögum um tekjuskatt að áliti umboðsmanns því ekki er unnt að kæra synjun ríkisskattstjóra, á beiðnum um breytingar á ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu, til yfirskattanefndar.

Reglulega berast kvartanir sem lúta að synjunum ríkisskattstjóra um breytingar á ákvörðun skattstofns eða skattálagningar á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að ekki sé unnt að kæra slíka synjun innan stjórnsýslunnar, hvorki til yfirskatta­nefndar né ráðherra skattamála. Samkvæmt ákvæðinu er eingöngu hægt að kæra breytingar ríkisskattstjóra á fyrri ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu til yfirskattanefndar, að fenginni beiðni skattaðila þess efnis, en ekki synjun hans um slíkar breytingar. Til samanburðar er hægt að kæra ákvörðun ríkisskattstjóra vegna beiðni um leiðréttingu, hvort sem um er að ræða breytingar eða synjun um breytingu, á grundvelli 3. mgr. 101. gr. til yfirskattanefndar. Ekki er ljóst hvaða forsendur liggja til grundvallar þessum greinarmun og bendir umboðsmaður á að þetta sé frávik frá mikilvægri meginreglu stjórnsýsluréttar um að aðili máls geti kært stjórnvaldsákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds.

Í áliti umboðsmanns kemur fram að þau rök sem búi að baki kærurétti til æðra stjórnvalds eigi ekki síður við um þau tilvik þegar slíkri beiðni er hafnað en þegar fallist er á hana, enda sé synjun um breytingu meira íþyngjandi ákvörðun. Engin málefnaleg rök standi til þess að gera þennan greinarmun á réttarstöðu borgaranna að þessu leyti og þar með takmarka réttaröryggi þeirra. Er Alþingi og fjármála- og efnahagsráðherra því bent á að taka afstöðu til þess hvort breyta skuli lögum um tekjuskatt þannig að kæruréttur vegna þessa verði tryggður.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. F83/2018