17. janúar 2025

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk til skoðunar

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu um breytt fyrirkomulag og framkvæmd réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Fyrir tæpu ári hófst athugun umboðsmanns á því hvort þáverandi fyrirkomulag réttindagæslunnar væri í samræmi við efni og markmið laga þar um. Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á svörum ráðuneytisins og þeirra breytinga sem ákveðið var að gera á réttindagæslunni í tengslum við tilkomu Mannréttindastofnunar Íslands, en réttindagæslumenn fatlaðs fólks skulu framvegis starfa innan hennar, telur umboðsmaður ekki lengur þjóna tilgangi að fá svör við þeim spurningum sem upphaflega var beint til ráðuneytisins.

Stofnunin átti að taka til starfa síðustu áramót en gildistöku laga um hana var frestað til 1. maí næstkomandi. Störf réttindagæslumanna voru hins vegar lögð niður um áramótin og upplýsti ráðuneytið að ákveðið hefði verið að ráða tímabundið til starfa sérfræðinga hjá Samskiptastöðinni ehf. til að sinna réttindagæslunni til vors. Nú er óskað eftir upplýsingum og gögnum sem varpað geta ljósi á þá ákvörðun og núverandi fyrirkomulag réttindagæslunnar, svo sem hvort tryggð sé viðhlítandi samfella í þjónustu við fatlað fólk.

  

  

Bréf umboðsmanns til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis

 

Tengd frétt

Ráðuneyti spurt um réttindagæslu fatlaðs fólks