06. janúar 2025

Andmælaréttur ekki virtur

Allt of oft hnjóta stjórnvöld um sömu hindranirnar í stjórnsýslu sinni og það þrátt fyrir að umboðsmaður hafi ítrekað bent á fótakeflið. 

Á slíkt reyndi nýverið í ráðningarmáli þegar umsækjandi um kennarastarf í framhaldsskóla kvartaði undan því að honum hefði ekki verið veitt tækifæri til að bregðast við umsögnum sem aflað var um hann í ráðningarferlinu. Taldi skólameistari að það hefði verið óþarft í ljósi þess að samið hefði verið um starfslok hans við annan framhaldsskóla vegna framgöngu hans í kennslu. Það sem hann hefði um það að segja hefði engu breytt.

Að áliti umboðsmanns átti kvörtun umsækjandans við rök að styðjast. Ekki hefði verið leitað eftir frekari upplýsingum um starfslokin og því yrði ekki séð hvernig skólameistarinn hefði, á þessum grundvelli, getað dregið ályktanir um hæfni umsækjandans í hið auglýsta starf. Hann hefði átt að láta umsækjandann vita af þessum gögnum og gefa honum kost á að tjá sig um þau. Það hefði síðan getað gefið tilefni til að afla frekari upplýsinga.

Mælist umboðsmaður til þess að skólinn taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu en það verði að vera dómstóla að meta réttaráhrif annamarkanna komi til þess.  

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 12436/2023