Kristín Benediktsdóttir prófessor við lagadeild Háskóla Íslands var í dag kjörin umboðsmaður Alþingis frá 1. október nk. til næstu fjögurra ára.
Hún tekur við embættinu af Skúla Magnússyni sem hefur gegnt því undanfarin þrjú og hálft ár en hverfur um mánaðamót til starfa hæstaréttardómara. Kristín er fyrsta konan sem kjörin er umboðsmaður Alþingis en forverar hennar í starfi, auk Skúla, eru Tryggvi Gunnarsson og Gaukur Jörundsson. Um leið og forseti Alþingis lýsti kjörinu þakkaði hann Skúla fyrir störf sín undanfarin ár.