Umboðsmaður beinir því til heilbrigðisráðuneytisins að grípa nú þegar til markvissra og raunhæfra aðgerða til að unnt sé að fækka kvörtunarmálum sem bíða afgreiðslu hjá landlækni. Vandinn sé ærinn, hafi verið það um árabil og fari vaxandi. Þýðing lagabreytinga sem taki gildi næsta haust sé óljós og tafarlausra aðgerða þörf.
Athugun umboðsmanns hófst árið 2022 í kjölfar kvörtunar vegna tafa á afgreiðslu máls hjá landlækni. Þær skýringar sem þá fengust frá embættinu voru að vandinn væri almennur, stafaði af miklum málafjölda og skorti á fé til að bæta úr. Á undanförnum árum hefði athygli heilbrigðisráðherra ítrekað verið vakin á stöðunni og jafnframt gripið til aðgerða sem ekki hefðu dugað til. Umboðsmaður beindi því sjónum sínum að viðbrögðum heilbrigðisráðneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess.
Í svörum ráðuneytisins var eitt og annað nefnt til skýringar á stöðunni og bent á ýmislegt sem hefði verið gert til að vinna bug á vandanum. Umboðsmanni sýndist af svörum ráðuneytisins að þau úrræði sem það hefði gripið til hefðu einkum snúist um að tiltekin frumvörp til laga næðu fram að ganga. Ekki yrði séð að neinar aðrar aðgerðir sem talist gætu raunhæfar eða áhrifaríkar til lausnar hefðu komið til álita. Þá væru ekki forsendur til að meta hvaða þýðingu breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu, sem tækju gildi næsta haust, hefðu við að leysa vandann. Ráðuneytið yrði því að bregðast tafarlaust við með öðrum aðgerðum til að fækka þeim málum sem bíða afgreiðslu hjá landlækni.
Í framhaldi af því að heilbrigðisráðherra var sent álitið barst bréf frá ráðuneytinu þar sem komið er á framfæri upplýsingum um frekari aðgerðir þess til að bregðast við stöðu kvörtunarmála hjá embætti landlæknis. Þessar aðgerðir áttu sér stað eftir að ráðuneytið sendi umboðsmanni síðast upplýsingar um viðbrögð þess við stöðu mála og var umboðsmaður ekki upplýstur um þær sérstaklega. Til upplýsingar má nálgast bréf ráðuneytisins hér.
Álit umboðsmanns í máli nr. F124/2022