Skoða þarf hvort sú réttarvernd sem leiðir af stjórnarskrá, um fullt verð fyrir eign sem tekin hefur verið eignarnámi, sé tryggð með fullnægjandi hætti í lögum um framkvæmd eignarnáms. Alþingi og dómsmálaráðherra er bent á þetta í áliti vegna kvörtunar yfir úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta og þeim kostnaði sem féll á eignarnámsþola í málinu.
Nefndin taldi að kostnaður af vinnu lögmanns, vegna stjórnsýslukæru á ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám, teldist ekki til kostnaðar við rekstur matsmálsins þótt ekki væri útilokað að slíkt gæti átt við í einhverjum tilfellum. Þrátt fyrir að umboðsmaður óskaði ítrekað eftir skýrum svörum um hvað hefði legið þessu til grundvallar varð nefndin ekki við því. Hvorki voru því færð fullnægjandi rök fyrir þeim meginsjónarmiðum sem voru ráðandi við mat á því hvort eignarnema, þ.e. þeim sem neytir eignarnámsheimildar, yrði gert að greiða kostnaðinn sem hlotist hafði af stjórnsýslukærunni né hvort sá kostnaður teldist málefnalegur og hæfilegur. Enn fremur var rökstuðningur nefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni ekki í samræmi við kröfur stjórnsýslulaga.
Mæltist umboðsmaður til að málið yrði tekið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og þá leyst úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Jafnframt vakti hann athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á að réttur eignarnámsþola, til að fá þann kostnað bættan sem hann kynni að þurfa að leggja út fyrir vegna ákvörðunar um eignarnám og aðgerða í aðdraganda þess, væri óskýr.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11782/2023