09. janúar 2024

Kvörtunum og frumkvæðismálum fjölgar milli ára

Kvartanir til umboðsmanns hafa aðeins einu sinni verið fleiri en á síðasta ári en þá bárust 548 kvartanir sem er fjölgun um tæplega 4% milli ára. Árið 2022 voru þær 528 og metárið 2021 voru kvartanirnar 570. Þá voru 20 mál tekin til skoðunar að eigin frumkvæði í fyrra og 18 slíkum málum lokið, til samanburðar við 18 hafin mál og 14 lokið árið 2022. Farið var í sjö heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits embættisins en árið 2021 voru heimsóknirnar fjórar og sex í fyrra.  Þá voru gefnar út fjórar skýrslur á liðnu ári vegna OPCAT-eftirlitsins og tvær eru væntanlegar innan tíðar. Auk þessa sinnti umboðsmaður fjölda annarra erinda af ýmsum toga, s.s. ábendingum, fyrirspurnum og fundarbeiðnum, en ekki er haldin sérstök tölfræði um þau.

Umboðsmaður skilaði 17 álitum í 18 málum þar sem í einu tilfelli voru tvö mál sameinuð í eitt. Þetta er umtalsverð fækkun frá undanförnum tveimur árum þegar þau voru um 60 hvort ár. Þótt engin einhlít skýring sé á þessari fækkun má benda á að samkvæmt bráðabirgðatölum var nálega 23% mála á árinu lokið að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalda en árið 2022 voru það 13%. Eitt dæmi um þetta var ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta að rukka handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða fyrir afnot af bílastæðahúsum borgarinnar.

Einnig ber að hafa í huga að í lokabréfi umboðsmanns kann að vera finna ýmsar athugasemdir og ábendingar til stjórnvalda þótt þær séu ekki settar fram í formlegu áliti. Dæmi um þetta er bréf umboðsmanns til forsætisráðherra vegna reglna um rafvarnarvopn. Þá eru álit umboðsmanns mis umfangsmikil eftir eðli málsins hverju sinni. Dæmi um nokkuð ítarlegt álit var umfjöllun um hæfi fjármála- og efnahagsráðherra vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. Á árinu fór jafnframt mikil vinna í athugun á kvörtun Hvals hf. vegna útgáfu reglugerðar um frestun tímabils til veiða á langreyðum. Því máli lauk með áliti skömmu eftir áramót.

  

Kvartanir

Kvartanirnar dreifðust nokkuð jafnt yfir mánuði ársins. Flestar bárust í mars og desember eða 56 í hvorum mánuði og fæstar í ágúst, 33. Á árinu voru 489 kvartanir afgreiddar þannig að við áramót voru 137 í vinnslu. Þar af voru 92 til athugunar hjá umboðsmanni, 9 til umsagnar hjá þeim sem kvartaði og beðið svara frá stjórnvöldum í 36 málum.  

  

Kvartanir 2023.png

  

Tæplega 60% kvartana var lokið innan mánaðar frá því að þær bárust, liðlega 80% innan tveggja mánaða og hartnær 90% á þremur mánuðum.

   

Afgreidsla 2023.png

   

Frumkvæðismál

Tuttugu mál voru tekin til athugunar að eigin frumkvæði árið 2023. Átján frumkvæðismálum lauk á árinu og tveimur þeirra með áliti. Annað laut að hæfi fjármálaráðherra, undirbúningi og ábyrgð við sölu á hlutum í Íslandsbanka og hitt að ferðafrelsi barna á gosstöðvum í Meradölum. Af öðrum málum má nefna skoðun á samskiptamöguleikum fanga við stjórnvöld sem færð voru í betra horf í kjölfarið, athugun á heimildum erlendra lögregluþjóna til beitingar lögregluvalds á Íslandi og skoðun á samráði ráðherra í ríkisstjórn í tengslum við breytingar á reglum um notkun lögreglu á rafvarnarvopnum.

  

Starfsemi OPCAT

Farið var í sjö heimsóknir í tengslum við OPCAT-eftirlit umboðsmanns. Þar af voru tvær, í fangelsin á Hólmsheiði og Sogni, vegna þemaskýrslu um kvenfanga og aðbúnað þeirra. Í apríl voru þrjú búsetuúrræði Vinakots í Hafnarfirði skoðuð, í júní var farið í sambærilega heimsókn í sjö úrræði hjá Klettabæ, eftirlit í fangageymslur á Selfossi fór fram í júlí og í lok árs var lokuð deild fyrir fólk með heilabilunareinkenni heimsótt á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Þá var farið í eftirfylgniheimsókn á Stuðla sem var fyrst slíkra heimsókna á grundvelli OPCAT-eftirlitsins.

Þær OPCAT-skýrslur sem  gefnar voru út á árinu vörðuðu allsherjarúttekt á Litla-Hrauni, öryggisúrræði á Akureyri og fangageymslur á Selfossi auk svokallaðrar þemaskýrslu um stöðu kvenna í fangelsum á Íslandi. Skýrslur um heimsóknir umboðsmanns í Vinakot og Klettabæ eru langt komnar og er þeirra að vænta á fyrstu mánuðum þessa árs.