Framsetning ríkislögreglustjóra á rökstuðningi fyrir því að hafna umsækjanda um lögreglunám var til þess fallin að valda misskilningi um hvað skipti í reynd meginmáli fyrir synjunina. Þrátt fyrir þennan annmarka gerir umboðsmaður ekki athugasemd við niðurstöðuna.
Ákvörðun ríkislögreglustjóra byggðist á því að umsækjandinn uppfyllti ekki skilyrði fyrir inngöngu í námið þar sem hegðun hans áður gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta. Í kvörtuninni til umboðsmanns var meðal annars byggt á að þetta hefði bæði verið röng ákvörðun og rannsókn málsins ófullnægjandi þar sem dregnar hefðu verið ályktanir af sögusögnum frá ónafngreindum aðilum. Af skýringum ríkislögreglustjóra til umboðsmanns varð ráðið að embættið teldi að hvað lyti sögusögnunum þá hefði rannsókninni að vissu leyti verið ábótavant. Aftur á móti hefðu önnur atvik sem ótvírætt áttu sér stað verið nægileg ástæða til að hafna umsókninni. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að rengja það mat. Rökstuðningur fyrir ákvörðuninni hefði hins vegar verið ófullnægjandi og til þess fallinn að valda misskilningi.
Þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við niðurstöðu ríkislögreglustjóra var ekki heldur ástæða til að mælast til að málið yrði tekið upp aftur. Var því þó beint til embættisins að taka framvegis mið af sjónarmiðum í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11975/2022
Tengd frétt
Réttmætt að synja umsækjanda um lögreglunám en rökstuðningi áfátt