07. september 2023

Ófullnægjandi rannsókn máls hjá Persónuvernd

Persónuvernd gætti ekki nægilega að rannsóknarskyldu sinni við meðferð kvörtunar vegna upplýsinga sem embætti landlæknis veitti.

Niðurstaða Persónuverndar var að miðlun landlæknis á persónuupplýsingum um viðkomandi, til samtaka sem höfðu sent ábendingar um ætlaða illa meðferð sjúklinga á tiltekinni deild sjúkrahúss þar sem hann starfaði, hefði verið lögum samkvæmt. Samtökin hefðu átt aðild að stjórnsýslumáli hjá landlækni og reynt hefði verið að virða lögbundinn upplýsingarétt þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum. 

Umboðsmaður tók fram að eðli málsins samkvæmt yrði að liggja fyrir að um eiginlegt stjórnsýslumál væri að ræða svo að viðkomandi nyti þeirrar réttarstöðu sem af slíkri aðild leiddi. Fékk hann ekki annað séð en að Persónuvernd hefði gengið út frá því með vísan til fyrirliggjandi gagna og skýringa landlæknis að um væri að ræða stjórnsýslumál og þá án þess að athuga nánar á hvaða lagagrundvelli ábendingarnar hefðu verið afgreiddar. Að mati umboðsmanns lágu ekki fullnægjandi upplýsingar fyrir Persónuvernd til að slá því föstu að athugun landlæknis hefði talist stjórnsýslumál eða mál sem lyti ákvæðum stjórnsýslulaga. Þar sem Persónuvernd hefði ekki kannað þetta nánar hefði úrskurður hennar ekki byggst á fullnægjandi grundvelli m.t.t. rannsóknar málsins. Með þessu væri umboðsmaður þó ekki að taka afstöðu til þess hvort miðlun upplýsinganna hefði verið í samræmi við lög um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga.

Þeim tilmælum var beint til Persónuverndar að taka málið aftur til meðferðar ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

   

Álit umboðsmanns í máli nr. 12094/2023