21. október 2022

Tilkynna þarf ráðherra þegar æðsti stjórnandi stofnunar er vanhæfur í máli

Þótt fiskistofustjóri lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í ráðningu í starf hjá stofnuninni var ekki gætt að hæfisreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins þar sem hann tilkynnti ráðherra ekki um vanhæfið svo skipa mætti staðgengil.

Þar sem tengdasonur fiskistofustjóra sótti um starfið lýsti hann sig vanhæfan áður en umsóknarfrestur rann út og lét öðrum starfsmönnum Fiskistofu ráðninguna eftir. Á síðari stigum átti hann þó í samskiptum við mannauðsstjóra um fyrirhugaða ráðningu annars umsækjanda sem hafði verið metinn hæfastur. Sá afþakkaði starfið og var þá ætlunin að ráða þann næsthæfasta samkvæmt mati. Tölvupósti frá mannauðsstjóra, með tillögu að launum fyrir þann síðarnefnda, svaraði Fiskistofustjóri á þá leið að vegna vanhæfis hans hefðu þau sem sæju um ráðninguna fullt umboð til að ganga frá henni og launakjörum þess sem þau ákveddu að ráða. Að því búnu afþakkaði viðkomandi boð um starfið og var þá tengdasonurinn, sem metinn var þriðji hæfastur, ráðinn.  

Umboðsmaður benti á að þegar æðsti yfirmaður stofnunar er vanhæfur til meðferðar tiltekins máls væri óhjákvæmilegt, samkvæmt stjórnsýslulögum, að setja staðgengil. Við þessar aðstæður hefði fiskistofustjóra borið að tilkynna ráðherra um vanhæfi með það fyrir augum að hann setti hæfan staðgengil til að fara með þau verkefni sem fiskistofustjóra hefðu verið ætluð vegna málsins. Sá staðgengill hefði þá átt að taka afstöðu til þess hvort aðrir starfsmenn Fiskistofu væru hæfir til meðferðar málsins. Eins og atvikum var háttað taldi umboðsmaður að vegna tengsla Fiskistofustjóra við umsækjandann sem hlaut starfið hefði með réttu mátt draga óhlutdrægni undirmanna hans í efa. Með vísan til framangreinds var niðurstaða umboðsmanns að að málsmeðferð Fiskistofu við ráðningu forritara hefði ekki verið í samræmi við hæfisreglur stjórnsýslulaga.

Var mælst til þess að á Fiskistofu yrði framvegis gætt að sjónarmiðunum í álitinu.

  

  

Álit umboðsmanns í máli nr. 11643/2022