30. ágúst 2022

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2021 er komin út

Aldrei hefur verið leyst úr fleiri málum á einu ári hjá umboðsmanni en í fyrra eða tæplega 600. Álit var veitt í 59 þeirra eða um 10% heildarinnar, þá ýmist með eða án tilmæla. Jafnframt voru stjórnvöldum sendar athugasemdir eða ábendingar í 41 máli til viðbótar. Hvað tilmæli í álitum snertir þá hafa stjórnvöld almennt brugðist vel við og farið að þeim.

Umboðsmaður tekur saman í upphafi skýrslunnar það sem efst var á baugi á síðastliðnu ári. Þar kemur m.a. fram að COVID-19 hafi reynt töluvert á þanþol grunnreglna réttarríkisins. „Sú hætta virðist óneitanlega fyrir hendi að eftir langvarandi ástand, líkt og það sem skapaðist í heimsfaraldrinum, fari stjórnvöld í auknum mæli að líta á skerðingu grundvallarréttinda sem léttvægar eða jafnvel sjálfsagðan hlut með þeirri afleiðingu að réttaröryggi borgaranna skerðist til frambúðar.“ Þá bendir hann á að ólíkt ýmsum nágrannaríkjum virðist engar fyrirætlanir upp hér á landi um heildstæða úttekt á þeim ráðstöfunum sem ráðist hafi verið í vegna COVID-19.

Vikið er að upptöku rafrænnar stjórnsýslu sem, þrátt fyrir ótvíræða kosti og sóknarfæri, geti einnig skapað geti ýmsar hættur, m.a. með hliðsjón af stöðu þeirra sem af einhverjum ástæðum eru ekki tölvulæsir, hafa takmarkaðan aðgang að nauðsynlegum búnaði eða standa að öðru leyti höllum fæti að þessu leyti. Sá hugsunarháttur virðist ríkja í þessum efnum að fyrst komi hinar tæknilegu lausnir og þar á eftir eigi að laga lög og reglur að kerfunum í stað þess að frá upphafi sé leitast við að fullnægja almennt viðurkenndum sjónarmiðum um vandaða málsmeðferð og réttaröryggi borgaranna. „Þótt kostir rafrænnar stjórnsýslu séu ótvíræðir má upptaka hennar ekki hafa það í för með sér að réttaröryggi borgarana skerðist eða faglegar kröfur séu vatnaðar út.“

Þá minnir umboðsmaður á nauðsyn þess að ráðuneyti og stofnanir hafi samráð og vinni saman þegar málefni lúti að verkefnum tveggja eða fleiri. „Sú staðreynd að á Íslandi eru samsteypustjórnir ráðandi þar sem oddvitar fleiri en eins stjórnmálaflokks fara með ráðherraembætti getur ekki réttlætt að ráðuneyti innan Stjórnarráðsins starfi hvert í sínu horni án viðhlítandi samstarfs hvert við annað, hvort heldur sem er að framkvæmd laga, undirbúningi reglusetningar eða við aðrar aðgerðir.“ Í þessu sambandi bendir umboðsmaður t.d. á stöðu geðsjúkra og geðfatlaðra í fangelsum eða haldi lögreglu og að leita verði leiða til að kerfi refsivörslu, fullnustu og heilbrigðis virki betur saman þannig að fólkið fái þá heilbrigðisþjónustu sem það eigi rétt á samkvæmt lögum. Í því efni gegni samvinna stofnana, eftir atvikum fyrir atbeina hlutaðeigandi fagráðuneyta, lykilhlutverki.

 

Kvartanir vegna tafa og opinberra starfsmanna tíðastar sem fyrr

Metfjöldi kvartana barst árið 2021 eða 570 sem var um 5% fjölgun frá metárinu 2020 þegar þær voru 540. Leyst var úr 593 kvörtunum sem einnig er met og liðlega 10% fleiri en ári fyrr.

Tafir á afgreiðslu máls af hálfu stjórnvalda var algengasta umkvörtunarefnið í fyrra eða tæplega 14% af formlegum kvörtunum. Það er nánast sama hlutfall og undanfarin tvö ár en dæmi eru um að fjórðungur kvartana hafi verið af þessum toga einstök ár. Málefni opinberra starfsmanna hafa jafnframt verið fyrirferðarmikil síðustu ár og er það sá málaflokkur sem oftast hefur komið næst á eftir tafamálum hjá umboðsmanni. Liðlega tíunda hver kvörtun nú var vegna þessa. Þar á eftir komu almannatryggingamál sem jukust úr 5% í 8% milli ára. Þá olli COVID-19 verulegum vexti í flokkum heilbrigðismála og almannavarna þar sem hvort um sig nam 6% af heildarfjölda kvartana.

Algengustu kvörtunarefnin 2021

Hvað kvartanir vegna opinberra starfsmanna snertir má í þó nokkrum tilvikum ráða að umsækjandi sem hefur snúið sér til umboðsmanns vænti þess að hann getið gengið lengra í endurskoðun á mati stjórnvaldsins en lög gera ráð fyrir. Það er því ástæða til að árétta að takmörk eru á því að eftirlitsaðilar, eins og umboðsmaður, geti gripið inn í það svigrúm sem stjórnvöld hafa til að meta ýmsa þætti við ráðningu starf eða skipun í embætti.

Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis, skal hann tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Í sex tilvikum komu meinbugir til skoðunar í málum sem lokið var í fyrra en í einungis einu tilviki var talið rétt að tilkynna formlega um slíkt á þessum grundvelli. Til samanburðar má nefna að bæði 2020 og 2019 voru slíkar tilkynningar tvær.

 

Frumkvæðis- og OPCAT-eftirlit

Frumkvæðiseftirlit umboðsmanns veitir honum færi á að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni og þannig rækja það lögbundna hlutverk að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins án tillits til þess hvort embættinu hafi borist formleg kvörtun eður ei. Stofnað var til 10 frumkvæðisathugana á árinu og 20 lokið, þar af tveimur með áliti.  

Umboðsmaður hefur frá árinu 2018 sinnt OPCAT-eftirliti með stöðum þar sem dvelja einstaklingar sem eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Farið var í fjórar heimsóknir á grundvelli þess á árinu. Í janúar var annars vegar öryggisdeild Litla-Hrauns heimsótt og hins vegar lögreglan á Suðurnesjum þar sem bæði var farið í fangageymslur og varðstofu í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þriðja heimsókn umboðsmanns var á bráðageðdeild 32C á Landspítala í september. Skýrslur vegna þessara heimsókna hafa verið birtar á vefnum og þær kynntar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Loks heimsótti umboðsmaður réttargeðdeild og öryggisgeðdeild á Kleppi í júní en tilefnið var m.a. umfjöllun í fréttum í tengslum við starfsemi deildanna en einnig eftirfylgni vegna fyrri skýrslu umboðsmanns um deildirnar frá 2019. Þessari athugun lauk með bréfi þar sem ábendingum var komið á framfæri til Landspítala. Atvik á réttaröryggisdeildinni urðu hins vegar tilefni þess að hafin var frumkvæðisathugun á framkvæmd vistunar á öryggisgangi og lauk henni með áliti á árinu 2022. Umboðsmaður birti einnig skýrslur vegna tveggja heimsókna sem farnar voru árið 2020, annars vegar í Fangelsið Hólmsheiði og hins vegar Fangelsið Sogni.

   

    

Skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2021