Umfjöllun úrskurðarnefndar velferðarmála um þrjár beiðnir um endurupptöku örorkumats byggðust hvorki á réttum lagagrundvelli né viðhlítandi mati á þeim atriðum sem máli skiptu.
Nefndin hafði staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja beiðnum um endurupptöku í málunum þremur. Byggðist niðurstaðan einkum á því að meira en eitt ár hefði liðið þar til óskað hefði verið eftir endurupptöku og engar veigamiklar ástæður mæltu með því að taka mötin upp.
Umboðsmaður benti á að í athugasemdum við þá lagagrein í stjórnsýslulögunum sem fjallar um endurupptöku máls væri gengið út frá því að aðili máls gæti að sjálfsögðu átt „rétt“ til endurupptöku í fleiri tilvikum en þeim tveimur sem greinin tæki til. Almennt væri viðurkennt að stjórnvaldi gæti verið skylt að fjalla á ný um mál þegar upphafleg ákvörðun væri háð efnislegum annmörkum. Mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku þess, eða hvort skylt sé að taka það upp á ólögfestum grunni, lyti einkum að því hversu sannfærandi rök hefðu verið leidd að því hvort þörf væri á endurskoðun með tilliti til þess hvort líklegt væri að ákvörðun yrði breytt eða hún afturkölluð. Ekki yrði séð að nefndin hefði lagt fullnægjandi mat á endurupptökubeiðnirnar og úrskurðir hennar því ekki reistir á viðhlítandi lagagrundvelli.
Þá vakti það athygli umboðsmanns að nefndin vék hvergi að þeim nýju gögnum sem lögð voru fram við meðferð kærumálanna. Minnti hann á að kærustjórnvaldi væri að jafnaði rétt að líta til nýrra upplýsinga sem hefðu komið fram eftir að hin kærða ákvörðun hefði verið tekin og meta hvort og þá hvaða þýðingu þær hefðu.
Álit umboðsmanns í málum nr. 11308/2021, 11312/2021 og 11315/2021