07. janúar 2022

Nær 600 mál afgreidd hjá umboðsmanni á liðnu ári

Í fyrra bárust umboðsmanni 570 kvartanir sem er metfjöldi og liðlega 5% fjölgun frá metárinu 2020 þegar þær voru 540. Þá voru enn fleiri mál afgreidd eða 593 sem er rúmlega 10% aukning milli ára.

Að meðaltali bárust umboðsmanni tæplega 50 kvartanir í mánuði, langflestar í maí þegar þær voru 84 og fæstar í júlí 31. Eftir að kvörtunum tók að fækka frá árinu 2012, þegar þær voru 536, urðu þær fæstar 384 fyrir fjórum árum. Stórt stökk upp á við kom svo á milli 2019 og 2020 þegar þeim fjölgaði um hartnær þriðjung milli ára. Undanfarin tvö ár bárust alls 1.110 kvartanir eða 555 að meðaltali samanborið við að næstu fimm ár þar á undan voru þær að meðaltali 408 á ári.

Umboðsmaður skilaði áliti í 59 málum árið 2021 sem er hlutfallslega um tvöföldun að ræða frá árinu áður. Það helgast einkum af því að frá 1. maí sl. eru álit ekki aðeins með tilmælum, þar sem talið er að stjórnvöld hafi brotið reglur og rétta beri hlut borgarans, heldur líka án. Álit með tilmælum voru 32 og án tilmæla 27.  Líkt og álit með tilmælum fela hin einnig í sér niðurstöðu sem hefur almenna þýðingu og leiðbeiningargildi.

  

2021 kvartanir og afgreidslur.png    

  

Flestar kvartanir bárust á öðrum ársfjórðungi eða 186 en hina fjórðungana voru tölurnar nokkuð áþekkar þeirra á milli eða 122-133. Um áramót voru 106 mál til meðferðar. Þriðjungur þeirra til umsagnar hjá þeim sem kvartaði eða beðið var svara frá stjórnvöldum og liðlega 70 til afgreiðslu hjá umboðsmanni. Meira en 60% kvartana var lokið innan mánaðar frá því að þær bárust, liðlega 80% innan tveggja mánaða og hátt í 90% á þremur mánuðum.

  

2021 afgreidsluhradi.png

  

Umboðsmaður fór í fjórar heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits á árinu; á öryggisdeild Litla-Hrauns, í fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum, í eftirfylgniheimsókn á Klepp og á bráðageðdeild við Hringbraut. Birtar voru fimm skýrslur vegna eftirlitsins. Um Fangelsið Sogni, Fangelsið Hólmsheiði, varðstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna landamæraeftirlits, fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum og öryggisdeild Litla-Hrauns. Þá lauk tveimur málum með bréfum til ráðherra. Annars vegar vegna athugunar á aðgerðum stjórnvalda og reglum á landamærum um sýnatöku og sóttkví og hins vegar vegna eftirfylgni vegna heimsóknar á Klepp. Þá lauk einnig fimm frumkvæðismálum á árinu. 

----------------

Uppfært: Upphaflega voru álit með tilmælum sögð 34 og án 25 en við nánari skoðun kom á daginn að þau voru 32 og 27.