09. desember 2021

Einveruherbergi – óskað eftir viðbrögðum ráðherra í kjölfar heimsókna í grunnskóla

Í heimsóknum umboðsmanns í nokkra grunnskóla nýverið komu ekki fram vísbendingar um að nemendur séu kerfisbundið látnir dvelja í svonefndum einveruherbergjum í svo langan tíma eða við þær aðstæður að jafnað verði til frelsissviptingar.

Í bréfi umboðsmanns til mennta- og barnamálaráðherra kemur fram að innilokun nemanda, sem jafnað yrði til frelsissviptingar, verði aðeins réttlætt með vísan til neyðarréttar eða nauðvarnar. Frelsissvipting nemanda á slíkum grundvelli, ef um hana sé að ræða, geti aðeins varað í mjög skamman tíma eða þar til yfirvofandi hættu hafi verið afstýrt og beri þá jafnframt að gæta að skráningu atviks og samráði við foreldra. Frelsissvipting komi því ekki til álita þegar um sé að ræða einföld brot á skólareglum, svo sem truflandi hegðun nemanda, óhlýðni eða aðra óæskilega háttsemi, enda séu skólunum þá tæk önnur úrræði.

Þótt ekki hafi komið fram vísbendingar, í heimsóknum umboðsmanns í grunnskóla, að nemendur séu kerfisbundið sviptir frelsi sínu með notkun einveruherbergja vekur hann engu að síður athygli ráðherra á álitaefnum sem athugun hans á framkvæmd þessa úrræðis leiddi í ljós og hugsanlegri þörf á því að kannaðar verði leiðir til úrbóta. Einkum hvort gildandi reglur um heimildir og verklag viðvíkjandi slíkum inngripum gagnvart nemendum séu nægilega skýrar. Jafnframt er vakin athygli á þeim vanda sem starfsmenn skólanna hafa lýst vegna nemenda með sérþarfir og alvarlegan hegðunarvanda og kallað eftir skýrari afstöðu ráðuneytisins til notkunar einveruherbergja í því sambandi. Í bréfinu áréttar umboðsmaður að engin afstaða sé tekin til einstakra mála sem kunni að hafa komið upp í skólakerfinu þar sem athugun embættisins hafi ekki beinst að þeim sérstaklega.  

Áður en ákvörðun verður tekin um frekari meðferð málsins er óskað eftir að ráðuneytið veiti umboðsmanni upplýsingar um hvort það hyggist bregðast við þeim ábendingum sem settar eru fram í bréfinu og þá með hvaða hætti fyrir 1. febrúar nk.

 

 

Bréf umboðsmanns til mennta- og barnamálaráðherra

 

Tengd frétt

Umboðsmaður skoðar aðstæður í grunnskólum