24. nóvember 2021

Umboðsmaður skoðar aðstæður í grunnskólum

Umboðsmaður fór í vettvangsskoðun í grunnskóla í gær til að afla frekari upplýsinga vegna athugunar hans á aðbúnaði barna sem skilin eru frá samnemendum sínum og færð í sérstakt rými.

Í október voru skólaskrifstofur nokkurra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytið beðin um upplýsingar og gögn vegna málsins. Óskað var eftir upplýsingum óháð því af hvaða ástæðum gripið hefði verið til þessa úrræðis, þ.e. hvort nemandi hefði verið dvalið þar í stutta stund eða til lengri tíma, hvort hann hefði dvalið þar einsamall eða með starfsmanni eða hvort úrræðinu hefði verið beitt í tilefni af atvikum sem vörðuðu nemandann sjálfan eða vegna athafna annarra nemenda sem beinst hafi að honum. Þessi gögn hafa nú borist auk þess sem umboðsmaður hefur jafnframt fengið ábendingar um einstök atvik af þessum toga.

Í kjölfar heimsóknanna verður tekin nánari afstaða til þess hver næstu skref umboðsmanns verða vegna málsins.