Þegar reynir á málaflokka sem sveitarfélögum hefur verið falið að sinna, en heyra stjórnarfarslega undir tiltekinn fagráðherra, hefur umboðsmaður lagt áherslu á mikilvægi þess að viðkomandi fagráðuneyti og ráðuneyti sveitarstjórnarmála sinni eftirlitshlutverki sínu með samráði og samvinnu sín á milli.
Á þetta reyndi í tilefni af kvörtun til umboðsmanns yfir töfum á því að Seltjarnarnesbær úthlutaði manni félagslegu húsnæði. Samkvæmt kvörtuninni sótti maðurinn fyrst um félagslegt húsnæði hjá sveitarfélaginu árið 2006 og höfðu umsóknir hans verið til umfjöllunar um langt skeið án þess að við þeim hefði verið brugðist með formlegum hætti. Af því tilefni hafði úrskurðarnefnd velferðarmála tvívegis úrskurðað um að sveitarfélagið hefði ekki unnið í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga og lagði fyrir Seltjarnarnesbæ að hraða afgreiðslunni. Í síðari úrskurði nefndarinnar sagði m.a.:
Úrskurðarnefndin getur fallist á að skortur á húsnæði valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda um stöðu hans. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og að gerðar séu ráðstafanir til að hann fái húsnæði eins fljótt og unnt er.
Ekki verður séð að Seltjarnarnesbær hafi unnið sérstaklega í húsnæðismálum kæranda, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir hans um félagslegt húsnæði og úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála frá júní 2020 þar sem lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka afstöðu til réttar kæranda til húsnæðis svo fljótt sem auðið væri.
Í svörum sveitarfélagsins við fyrirspurnum umboðsmanns kom m.a. fram að engum félagslegum íbúðum hefði verið úthlutað hjá því frá 2019 og ekki væri gert ráð fyrir fjölgun félagslegra íbúða í fjárhagsáætlunum þess vegna ársins 2021.
Með hliðsjón af stöðu málsins óskaði umboðsmaður eftir afstöðu bæði félagsmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis til þess hvort málið gæti komið til kasta viðkomandi ráðuneytis á grundvelli eftirlitshlutverks þess. Í framhaldi af því að umboðsmaður sendi Seltjarnarnesbæ afrit af erindi sínu til síðarnefnda ráðuneytisins upplýsti sveitarfélagið að það hefði úthlutað viðkomandi félagslegu húsnæði. Lauk umboðsmaður því málinu.
Lokabréf umboðsmanns í máli nr. 10806/2020