Skoða þarf hvort vistun kvenna og karla saman í opnum fangelsum taki nægjanlegt mið af aðstæðum, öryggi og þörfum kvenna. Þetta er á meðal ábendinga í nýrri OPCAT-skýrslu setts umboðmanns í kjölfar eftirlitsheimsóknar umboðsmanns í Fangelsið Sogni.
Mörg þeirra tilmæla og ábendinga sem settar eru fram í skýrslunni eru í samræmi við athugasemdir sem áður hafa verið gerðar við starfsemi og aðbúnað í fangelsum hér á landi, bæði af hálfu umboðsmanns og erlendra eftirlitsaðila.
Í skýrslunni er lögð áhersla á að þótt lögmæt frelsissvipting, eins og afplánun í fangelsi, sé í eðli sínu takmörkun á friðhelgi einkalífs og fjölskyldu njóti fangar engu að síður almennt allra annarra grundvallarréttinda sem tryggð eru í mannréttindaákvæðum. Í því sambandi er þeim tilmælum meðal annars beint til fangelsisins að endurskoða verklag þegar teknar eru ákvarðanir um agaviðurlög og sýnatöku úr föngum.
Þá er þeim ábendingum beint til stjórnvalda að skoða hvort tilefni sé til að endurskoða það nám sem föngum standi til boða. Meðal annars hvort hægt sé að bjóða upp á fjölbreyttara nám og fjölga verklegum greinum og þá einnig með tilliti til þeirra sem ekki tala íslensku.
Í viðtölum við fanga og starfsfólk á Sogni kom fram að aðbúnaður í fangelsinu þætti almennt góður og var það í samræmi við athugun umboðsmanns. Hann bendir þó á ýmis atriði sem huga þurfi að, meðal annars að aðstaða til einangrunar- og öryggisvistunar fanga sé ekki fullnægjandi með tilliti til öryggissjónarmiða. Þá þurfi að skoða hvort fjöldi starfsfólks í fangelsinu sé fullnægjandi með hliðsjón af þeim verkefnum sem því ber að sinna. Aðrar athugasemdir lúta meðal annars að upplýsingagjöf við komu í fangelsið, skráningu tiltekinna upplýsinga og skorti á leiðbeiningum til dæmis um kærufresti.
Fleiri tilmæli og ábendingar getur að líta í skýrslunni og óskar umboðsmaður eftir að stjórnvöld geri grein fyrir viðbrögðum sínum við þeim fyrir 1. nóvember 2021.
Þetta er fjórða skýrsla umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlits hans og sú fyrsta um fangelsi. Eftirlitið felur einkum í sér að heimsækja staði þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu og úttekt á aðbúnaði þeirra og starfsemi viðkomandi staðar.
Fangelsinu Hólmsheiði og Fangelsismálastofnun hafa nú verið send til athugasemda drög að skýrslu vegna heimsóknar í Fangelsið Hólmsheiði 13.-15. janúar 2020. Það má því búast við að hún verði birt á næstu vikum.
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangelsinu á Sogni
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit í fangageymslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á neyðarvistun Stuðla
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á Landspítala Kleppi