03. febrúar 2020

Háskólapróf ekki bara BA-próf

Þegar stjórnvöld auglýsa störf er litið svo á að þau séu bundin af þeim kröfum sem settar eru fram í auglýsingu, til dæmis um tiltekna menntun. Sé ætlunin að breyta kröfum til umsækjenda eftir á, þarf að birta nýja auglýsingu með þeim kröfum.

Umboðsmaður lauk nýverið máli þar sem hann taldi Akureyrarbæ ekki hafa farið að lögum þegar ráðning í starf hjá Akureyrarstofu var afturkölluð eftir að gengið hafði verið frá henni munnlega og viðkomandi þá þegar þegið starfið. Afturköllun á ráðningunni byggði á að með orðalaginu háskólapróf sem nýtist í starfi í auglýsingu, hafi verið gert að skilyrði að umsækjendur hefðu BA-próf, BS-próf eða sambærilegt en það skilyrði hafi umsækjandinn ekki uppfyllt og því hafi verið óhjákvæmilegt að afturkalla ráðninguna.

Umboðsmaður taldi að orðalag auglýsingar um starfið hefði ekki gefið ótvírætt til kynna að krafist væri að lágmarki bakkalárprófs. Umboðsmaður benti á að orðið háskólapróf vísi í daglegu máli ekki til tiltekinnar prófgráðu frá skólum á háskólastigi heldur sé hægt að ljúka ýmsum prófum frá háskóla. Benti hann á að viðkomandi hefði lokið háskólaprófi í blaðamennsku frá Noregi árið 1998 í samræmi við þágildandi kröfur ytra vegna umrædds náms. Það var þá tveggja ára nám. Hafa yrði þróun undanfarinna ára í huga þar sem ýmiss konar nám á háskólastigi hefði verið lengt úr því að vera styttra nám, t.d. tveggja ára nám, í þriggja ára nám sem lyki með bakkalárprófi. Ýmsum prófgráðum teldist því lokið með fullnaðarprófi með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar hefðu verið á þeim tíma sem þeim var lokið.  Ekki yrði annað séð en það ætti við í þessu tilfelli. Áður hafði umsækjandinn einnig lokið eins árs námi í íslensku við Háskóla Íslands.  Umboðsmaður benti á að ekki yrði séð að þetta skilyrði um bakkalárpróf hefði komið sérstaklega til skoðunar við heildarmat á umsækjendum þar sem viðkomandi hafði verið metin hæfust. Þá væri ekki um lögbundið hæfisskilyrði að ræða. Taldi umboðsmaður að sveitarfélagið hefði ekki sýnt fram á að skilyrði til að afturkalla ráðninguna hefðu verið til staðar.

Í ljósi þess hvernig staðið var að ákvörðun um afturköllunina taldi umboðsmaður einnig tilefni til að fjalla um málsmeðferð sveitarfélagsins. Benti hann á að degi eftir munnlega ráðningu hafi umsækjandinn fengið þær upplýsingar að bærinn teldi hann ekki uppfylla menntunarskilyrði auglýsingar. Þær upplýsingar hafi bæði verið honum í óhag og getað haft verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Á þeim forsendum væri óhjákvæmilegt að líta svo á að andmælaréttur hefði orðið virkur og því borið að veita frest í samræmi við það til að kynna sér gögn og tjá sig um málið áður en ákvörðun yrði tekin. Þegar til greina hafi komið að afturkalla ráðninguna hafi nýtt stjórnsýslumál hafist og stjórnvaldið þurft að tryggja að málsmeðferð þess væri í samræmi við lög. Þá skorti enn fremur á að rannsókn málsins hefði verið fullnægjandi. Í því sambandi benti umboðsmaður á að auk þess sem umsækjandinn hefði lokið fullgildu háskólaprófi frá norska skólanum hefði skólinn samþykkt að það, að viðbættu náminu sem áður var lokið við Háskóla Íslands, yrði metið til bakkalárgráðu ytra.

Mæltist umboðsmaður til þess við Akureyrarbæ að leitað yrði leiða til að rétta hlut viðkomandi. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla, ef til kæmi, að meta réttaráhrif framangreindra annmarka á málinu. Jafnframt var mælst til þess að bærinn tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 10089/2019