A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir tveimur ákvörðunum ríkislögreglustjóra þar sem umsóknum hans um starfsnám hjá mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu var synjað á þeim grundvelli að hann hefði sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn yrðu almennt að njóta. Í kvörtununum var byggt á að ákvarðanirnar væru efnislega rangar og að brotið hefði verið gegn tilgreindum ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð mála hans. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við efnislega niðurstöðu í málunum, rökstuðning ákvarðananna og meðferð á beiðnum hans um aðgang að gögnum.
Umboðsmaður fékk ekki annað ráðið en að ríkislögreglustjóri hefði lagt heildstætt mat á umsóknir A með tilliti til þess inntökuskilyrðis sem reyndi á og ekki forsendur til að fullyrða að mat embættisins að þessu leyti hefði verið ómálefnalegt eða bersýnilega óforsvaranlegt. Hann taldi því ekki fram komið að ákvarðanir ríkislögreglustjóra um að synja A um inngöngu í starfsnámið tilgreind skipti hefði að efni sínu verið í ósamræmi við lög. Að virtum atvikum málsins og andmælum A taldi umboðsmaður hins vegar að rökstuðningur ríkislögreglustjóra fyrir ákvörðununum hefði ekki verið í nægilega góðu samræmi við kröfur stjórnsýslulaga. Horfði hann þar til þess að ekki kom fram með afdráttarlausum hætti að með niðurstöðu embættisins væri engin afstaða tekin til refsinæmi ætlaðrar háttsemi A og að hún byggðist eingöngu á því lagaskilyrði að lögreglumaður mætti ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gæti rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta. Umboðsmaður taldi rökstuðninginn hafa verið til þess fallinn að valda misskilningi og því ekki náð því markmiði að viðtakandi hans gæti skilið ákvörðunina og betur fellt sig við hana.
Umboðsmaður taldi einnig að tveimur beiðnum A um aðgang að öllum gögnum umsóknarmála hans hefði réttilega verið beint til ríkislögreglustjóra sem hefði verið bær til að taka ákvörðun um rétt hans þar að lútandi. Þá voru upplýsingar sem mennta- og starfsþróunarsetrið aflaði um A úr málaskrárkerfi lögreglu ótvírætt gögn er vörðuðu mál hans í skilningi stjórnsýslulaga. Þar af leiðandi áleit umboðsmaður úrlausn ríkislögreglustjóra á gagnabeiðnum A, sem fólst í að benda honum á að nálgast gögn þeirra sakamála sem vísað var til í ákvörðunum embættisins hjá því lögreglustjóraembætti sem hafði haft forræði þeirra, ekki í samræmi við lög.
Í ljósi þeirrar niðurstöðu að ekki væru efni til að gera athugasemdir við efnislega niðurstöðu í málinu, svo og frekari rökstuðnings fyrir synjununum sem fram kom undir meðferð málsins fyrir umboðsmanni, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að beina tilmælum til ríkislögreglustjóra um endurupptöku málsins. Þá lá fyrir að A hafði fengið afhent þau gögn sem gagnabeiðnir hans lutu að að. Umboðsmaður beindi því engu að síður til ríkislögreglustjóra að hann hefði þau sjónarmið sem fram komu í álitinu í huga til framtíðar.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 10. nóvember 2023.