Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 12199/2023)

Kvartað var yfir því að Norðurþing og réttindagæslumaður fatlaðs fólks hefðu ekki svarað erindi. Jafnframt var óskað eftir afstöðu umboðsmanns til vinnubragða starfsmanns réttindagæslu fatlaðs fólks í málinu.  

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns var erindunum svarað var ekki ástæða til að aðhafast frekar að þessu leyti. Hvað vinnubrögðin snerti hafði verið leitað til félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna þeirra og beðið var svars. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. júní 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 18. maí sl. yfir því að erindi lögmanns yðar 5. janúar sl. til Norðurþings og réttindagæslumanns fatlaðs fólks hafi ekki verið svarað. Með erindinu var m.a. óskað eftir upplýsingum um málsmeðferð vegna umsóknar sonar yðar um búsetu í íbúðarkjarnanum X árið 2021 og gögnum málsins. Einnig var óskað eftir upplýsingum um aðkomu réttindagæslu fatlaðs fólks að málinu en í kvörtun yðar óskið þér jafnframt eftir afstöðu umboðsmanns til vinnubragða starfsmanns réttindagæslu fatlaðs fólks í málinu.

Í tilefni af kvörtun yðar voru Norðurþingi og réttindagæslu fatlaðs fólks rituð bréf 23. maí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindið hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Svar réttingagæslu fatlaðs fólks barst 31. sama mánaðar en þar kemur fram að erindinu hafi verið svarað sama dag. Svarbréf Norðurþings barst 30. maí sl. en þar kemur m.a. fram að gögn hafi verið send lögmanni yðar í ábyrgðarpósti. Þau hafi verið móttekin 13. mars sl. Í ljósi þess að erindi lögmanns yðar hefur nú verið svarað af hálfu sveitarfélagsins og réttindagæslu fatlaðs fólks tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að þessu leyti.

Viðvíkjandi ósk yðar um afstöðu umboðsmanns til aðkomu réttindagæslu fatlaðs fólks að málinu tek ég fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis. Á þetta einnig við þar sem afstaða æðra stjórnvalds til máls verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru. Í samræmi við ákvæðið fjallar umboðsmaður jafnframt almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 2. gr. laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, fer félags- og vinnumarkaðsráðherra með yfirstjórn réttindagæslu fatlaðs fólks samkvæmt lögunum. Fyrir liggur að þér senduð erindi til ráðherrans í síðasta mánuði þar sem þér gerið m.a. athugasemdir við aðkomu réttindagæslu fatlaðs fólks að máli sonar yðar. Fram kom í samtali yðar og starfsmanns umboðsmanns 5. júní sl. að svar við erindinu hefði ekki borist yður. Í ljósi þessa og með vísan til þess sem rakið er hér að framan eru ekki skilyrði að lögum til að ég taki kvörtun yðar að þessu leyti til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér teljið yður enn beitt rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný innan eins árs frá því að afstaða þess liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Jafnframt getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið óhóflegan drátt verða á afgreiðslu ráðuneytisins og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið lýk ég meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.