A kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun útlendingaeftirlitsins um að hafna beiðni hans um ótímabundið dvalarleyfi. Var synjunin byggð á því að A hefði komið ólöglega til landsins og hefði ekki búið hér á landi nema í þrjú ár. Hélt A því fram að þegar honum var veitt tímabundið dvalarleyfi hafi honum verið tjáð að í gildi væri sú regla að ótímabundið dvalarleyfi yrði gefið út þegar hann hefði búið hér á landi í þrjú ár að því skilyrði uppfylltu að hann hefði ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi.
Umboðsmaður benti á að um skilyrði og útgáfu dvalarleyfa giltu lög nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum. Væru lögin um margt óskýr og væru þar t.d. engin sérstök ákvæði um veitingu tímabundinna eða ótímabundinna dvalarleyfa, þ.e. um skilyrði, efnislegt umfang eða meðferð slíkra leyfa. Sú aðstaða hefði óhjákvæmilega leitt til þess að stjórnvöld hefðu þurft að móta tilteknar verklagsreglur við framkvæmd þeirra verkefna sem þeim væri falið í lögunum. Yrði af þeim sökum að játa þeim nokkurt svigrúm við mótun stjórnsýsluframkvæmdar um það hvort og þá hvaða verklagsreglur yrðu settar um veitingu dvalarleyfa að því tilskildu að slíkar reglur væru byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Umboðsmaður tók fram að þegar A fékk fyrst útgefið tímabundið dvalarleyfi var stjórnsýsluframkvæmdin sú að útlendingar í hans stöðu gátu fengið ótímabundið dvalarleyfi að öllu óbreyttu eftir þrjú ár. Ári síðar var þessari framkvæmd breytt og við það miðað að þeir útlendingar sem komið höfðu hingað til lands á ólögmætum forsendum eða gerst brotlegir með öðrum hætti ættu fyrst rétt á að fá ótímabundið dvalarleyfi eftir fimm ára dvöl hér á landi. Taldi hann ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við þessa ákvörðun stjórnvalda. Hins vegar væri álitamál hvort og þá að hvaða marki stjórnvöldum hefði verið heimilt að láta þess breyttu stjórnsýsluframkvæmd gilda einnig um þá útlendinga sem fengið höfðu tímabundið dvalarleyfi áður en hún gekk í gildi.
Umboðsmaður tók fram að þegar stjórnsýsluframkvæmd væri breytt yrði almennt á grundvelli vandaðra stjórnsýsluhátta að kynna breytinguna fyrirfram þannig að þeir aðilar sem málið snertir geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna. Ef stjórnvöld hefðu ekki gert reka að slíkri kynningu taldi hann að það kynni að hafa þau áhrif að fremur yrði lagt til grundvallar við mat á einstökum tilvikum að ekki hefði verið rétt að láta hinar breyttu reglur gilda um eldri tilvik, a.m.k. þegar ganga yrði út frá því að viðkomandi hefði haft málefnalegar og eðlilegar væntingar til þess að leyst yrði úr máli hans á grundvelli hinnar eldri reglu. Benti umboðsmaður á að ekki yrði séð af gögnum málsins að stjórnvöld hefðu gert nokkurn reka að því að kynna þeim útlendingum sem komið höfðu hingað til lands ólöglega en fengið tímabundið dvalarleyfi á grundvelli hinnar eldri framkvæmdar þá ákvörðun að lengja það tímabil sem þessir einstaklingar þurftu að bíða til þess að geta átt möguleika á ótímabundnu dvalarleyfi. Tók hann fram að umsóknir útlendinga um dvalarleyfi beindust að mikilvægum persónulegum og félagslegum hagsmunum þeirra. Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður að stjórnvöldum hafi eins og atvikum var háttað í málinu verið skylt að taka efnislega afstöðu til þess við úrlausn á umsókn A um ótímabundið dvalarleyfi hvort og þá með hvaða hætti sjónarmið um réttmætar væntingar kynnu að hafa þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál A til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og leysti þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.