Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 11841/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta og innheimta ofgreiddar bætur. Byggðist kvörtunin á að niðurstaða nefndarinnar væri efnislega röng og á einkum það mat hennar að nám viðkomandi teldist ekki skipulagt samhliða vinnu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það hefði verið fjarnámsáfangi sem ekki hefði krafist viðveru og þar með hefði námið ekki haft áhrif á atvinnuleit eða möguleika til þátttöku á vinnumarkaði.

Af gögnum málsins og skýringum nefndarinnar um skipulag námsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Þótt námið kynni að einhverju leyti að hafa boðið upp á fjarkennslu væri ekki hægt að slá því föstu að það hefði talist skipulagt samhliða vinnu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. janúar 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 12. september sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 7. sama mánaðar í máli nr. 228/2022. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar 29. apríl sl. um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til yðar og innheimta ofgreiddar bætur þar sem þér hefðuð á sama tíma verið skráð í 36 ECTS-eininga nám við Háskóla Íslands. Af kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu fæ ég ráðið að þér teljið niðurstöðu nefndarinnar efnislega ranga og þá einkum það mat nefndarinnar að nám yðar teljist ekki skipulagt samhliða vinnu í skilningi 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, enda hafið þér verið skráð í fjarnámsáfanga sem ekki hafi krafist viðveru af yðar hálfu. Þar með hafi námið ekki haft áhrif á atvinnuleit yðar eða möguleika til þátttöku á vinnumarkaði.

Gögn málsins bárust umboðsmanni 28. október sl. samkvæmt beiðni þar um. Þá var úrskurðarnefnd velferðarmála ritað bréf 8. nóvember sl. þar sem þess var óskað að nefndin gerði nánari grein fyrir því mati að nám yðar teldist ekki skipulagt samhliða vinnu en gert væri í úrskurði nefndarinnar og hún upplýsti um hvaða gögn eða upplýsingar hefðu legið því til grundvallar. Svör nefndarinnar bárust með bréfi 18. nóvember sl.

   

II

1

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um tilvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum, þ. á m. nám, sbr. 52. gr. laganna. Í c-lið 3. gr. er nám skilgreint sem samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. telst hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr. greinarinnar. Í 2. og 3. mgr. er mælt fyrir um heimildir til að stunda allt að 20 ECTS-eininga nám á háskólastigi, án þess að það hafi áhrif á rétt hins tryggða, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 4. mgr. 52. gr. segir að þrátt fyrir 1.-3. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Þá skuli hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Ákvæði 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 var bætt við lögin með 6. gr. laga nr. 112/2020. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 112/2020 segir að það sé skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að lögð sé fram staðfesting frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins. Það sé lagt til þar sem ekki þyki ástæða til að koma í veg fyrir að atvinnuleitendur geti stundað nám samhliða nýtingu réttar innan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar námið sé skipulagt á þann hátt af viðkomandi menntastofnun að það hafi ekki áhrif á atvinnuleit hins tryggða eða möguleika hans til fullrar þátttöku á vinnumarkaði (þskj. 2036 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, bls. 12).

Ekki er vikið nánar að því í frumvarpinu eða áliti velferðarnefndar hvenær nám teljist skipulagt samhliða vinnu í skilningi ákvæðisins. Í framsöguræðu félags- og barnamálaráðherra um frumvarpið sagði um þetta atriði að lagt væri til að heimildir atvinnuleitanda til að stunda nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur yrðu rýmkaðar en ljóst væri að miklar breytingar hefðu orðið að undanförnu hvað varðaði skipulag náms. Það þætti eðlilegt þar sem nám sem skipulagt væri á kvöldin og um helgar, í ljósi þess að gert væri ráð fyrir að nemendur væru jafnframt þátttakendur á vinnumarkaði, ætti hvorki að hafa áhrif á möguleika atvinnuleitanda til að stunda virka atvinnuleit né á möguleika þeirra til að taka því starfi sem byðist (150. löggjafarþing, 133. fundur, 28. ágúst 2020).

  

2

Samkvæmt gögnum málsins var umsókn yðar um atvinnuleysisbætur samþykkt 11. apríl 2020 en 18. ágúst 2021 fenguð þér samþykkt vinnumarkaðsúrræðið „Nám er tækifæri“ sem mælt var fyrir um í þágildandi ákvæði XVII til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 fyrir haustið 2021. Samkvæmt ákvæðinu var Vinnumálastofnun heimilt, þrátt fyrir 52. gr. laganna, að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem teldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Slíkur samningur hafði ekki áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna og þá gat gildistími hans að hámarki verið ein námsönn. Á grundvelli þessa úrræðis skráðuð þér yður í námið „Íslenska sem annað mál, hagnýtt nám“ við Háskóla Íslands skólaárið 2020-2021, sem er 60 ECTS- eininga nám sem lýkur með grunndiplómu. Munuð þér hafa nýtt úrræðið „nám er tækifæri“ á haustönn og því ekki átt rétt til þess á vorönn, en gildistími samninga gat að hámarki verið ein námsönn, sbr. 3. mgr. téðs bráðabirgðaákvæðis. Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála voruð þér skráð í 36-ECTS-einingar á vorönn 2021, eftir að hafa lokið haustönn, og er því ljóst að undantekningar ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 og 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna áttu ekki við í máli yðar.

Hvað varðar athugasemdir yður um að nám yðar hafi verið skipulagt samhliða vinnu tek ég fram að ekki er fyrir að fara fastmótuðum skilyrðum fyrir því hvenær nám teljist skipulagt samhliða vinnu í skilningi 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006. Að virtu orðalagi þess og lögskýringargögnum tel ég þó að leggja verði til grundvallar að slíkt nám sé sérstaklega skipulagt á þann hátt af viðkomandi menntastofnun og þá á þann veg að það hafi hvorki áhrif á atvinnuleit viðkomandi til að stunda virka atvinnuleit eða möguleika hans til fullrar þátttöku á vinnumarkaði. Er sú skylda lögð á hinn tryggða að leggja fram staðfestingu um þetta atriði, en við mat á því kann m.a. að vera heimilt að líta til þess hvernig nám sé skipulagt samkvæmt kennsluskrá.

Í skýringum úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að í málinu hafi legið fyrir staðfesting um að þér hefðuð fengið inngöngu í umrætt nám. Samkvæmt kennsluskrá Háskóla Íslands sé námið ekki sérstaklega skipulagt samhliða vinnu heldur sé um hefðbundið staðnám að ræða. Þá hafi einnig legið fyrir að námið væri lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna og því hafi skilyrði 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 ekki verið uppfyllt í máli yðar.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og að virtum skýringum úrskurðarnefndar velferðarmála um skipulag náms yðar tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Þótt nám yðar kunni að einhverju leyti að hafa boðið upp á fjarkennslu tel ég ekki unnt að slá því föstu að það hafi talist vera skipulagt samhliða vinnu í skilningi 4. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.