Kvartað var yfir því að tilgreind ákvæði reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfanda sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, væru í andstöðu við fyrirmæli laga um sjúkratryggingar.
Þar sem kvörtunin varðaði ekki tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beindist sérstaklega að viðkomandi voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 1. desember 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A yfir því að tilgreind ákvæði reglugerðar nr. 1255/2018, um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, séu í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Samkvæmt kvörtuninni beindi A erindi til heilbrigðisráðherra 14. september sl. þar sem rök voru færð fyrir þeirri afstöðu auk þess sem því var beint til ráðherra að breyta reglugerðinni af þeim sökum. Var erindi A svarað með bréfi 19. sama mánaðar.
Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til, kvartað af því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.
Þá skal þess jafnframt getið að með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni veitt heimild til að gera Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnum viðvart ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Lögin gera hins vegar ekki ráð fyrir að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli heldur ákveður umboðsmaður, ef hann telur tilefni til og möguleiki er á slíku með tilliti til þess mannafla sem umboðsmaður hefur til að sinna slíkum athugunum, hvort heimild 11. gr. skuli nýtt og er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.
Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti að ætluðum meinbugum á reglugerð nr. 1255/2018 án þess að hún varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að A eða [...]í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar. Ég tek fram í þessu sambandi að staða einstaklinga eða lögaðila sem eru aðilar að stjórnsýslumáli þar sem reynir á lagastoð almennra stjórnvaldsfyrirmæla er að þessu leyti almennt önnur en þeirra sem bera fram almenn erindi þess efnis undir stjórnvöld.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.