A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun um ráðningu í starf deildarstjóra upplýsingatæknideildar hjá Samgöngustofu. A hafði verið meðal umsækjenda um starfið þegar það var auglýst í desember 2021 en því ráðningarferli lauk með ákvörðun Samgöngustofu um að ráða engan í starfið að svo stöddu. Í maí 2022 ákvað stofnunin að ráða tímabundið í starfið utanaðkomandi mann sem ekki hafði sótt um það þegar það var auglýst. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort sú ákvörðun hefði verið í samræmi við meginregluna um að auglýsa skuli laus störf hjá ríkinu.
Við meðferð málsins upplýsti Samgöngustofa að ekki hefði tekist að ráða nægilega hæfan mann úr hópi umsækjenda en engu að síður hefði verið talið nauðsynlegt að manna starfið. Því hefði hæfur maður, sem vildi skipta um starfsvettvang, verið ráðinn í það til tveggja ára án þess að það hefði verið auglýst á ný.
Umboðsmaður tók fram að heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að ráða starfsmenn tímabundinni ráðningu til tveggja ára, væri án þýðingar fyrir skyldu stjórnvalds til að auglýsa laust starf og undantekningar frá þeirri skyldu. Sama ætti við um ákvæði laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Þá lagði hann til grundvallar að stjórnsýslumáli því sem hófst þegar starf var upphaflega auglýst laust til umsóknar hefði lokið með ákvörðun um að ráða engan í starfið. Ákvörðun um tímabundna ráðningu viðkomandi í starfið hefði því falið í sér upphaf og lyktir nýs stjórnsýslumáls. Hann gerði síðan grein fyrir lagaákvæðum um almenna skyldu til þess að auglýsa laus störf hjá ríkinu og tilheyrandi undanþágum frá þeirri meginreglu. Undanþágurnar kæmu fram í reglum fjármála- og efnahagsráðherra um auglýsingar lausra starfa og eftir atvikum í sérlögum um viðkomandi starfsemi. Ekki yrði séð að kringumstæður Samgöngustofu yrðu felldar undir nokkra af þessum undanþágum. Leiddi það til þess að umrædd ráðning hefði ekki verið í samræmi við lög.
Beindi umboðsmaður tilmælum til Samgöngustofu um að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Í ljósi eðlis málsins sendi hann innviðaráðuneytinu afrit af álitinu til upplýsingar.