Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11611/2022)

Kvartað var yfir frávísun kæru hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál

Að teknu tilliti til þeirrar rannsóknar sem fór fram af hálfu nefndarinnar í tilefni kærunnar og í ljósi þeirra gagna sem Vestmannaeyjabær afhenti taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla nánar um kvörtunina. Hann ritaði þó úrskurðarnefndinni bréf með ábendingu um að ekki yrði séð að það samræmdist fyllilega kæruheimild að vísa frá kæru til nefndarinnar þótt umbeðin gögn reyndust ekki vera fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi, heldur færi betur á því að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Hafði umboðsmaður þá í huga að með frávísun sé gefið til kynna að mál hafi ekki verið talið tækt til meðferðar og gæti slík niðurstaða valdið misskilningi um hvort heimilt hefði verið að leita til nefndarinnar með kæru vegna synjunar um afhendingu upplýsinga.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 10. mars sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1066/2022 frá 24. febrúar sl. Samkvæmt úrskurðar­orði var kæru yðar 13. september 2021 vísað frá, en hún laut að afgreiðslu Vestmannaeyja­bæjar 19. maí þess árs á beiðni yðar 14. sama mánaðar um aðgang að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum með undirritun fulltrúanna. Hafði bærinn svarað beiðninni með því að vísa yður á vefslóð á vef bæjarins þar sem siðareglurnar, án undirritunar, eru hýstar.

Að beiðni umboðsmanns bárust gögn málsins og skýringar nefndar­innar 30. maí sl. og athugasemdir yðar við þær bárust 14. júní sl.

Svo sem rakið var í fyrrgreindum úrskurði og styðst við gögn málsins átti nefndin í samskiptum við Vestmannaeyjabæ í tilefni af kæru yðar. Gögn málsins bera með sér að samskiptin hafi meðal annars lotið að því hvort umbeðið gagn væri fyrirliggjandi hjá bænum, en svo reyndist ekki vera. Við málsmeðferðina kom þó í ljós að til væru siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá bænum sem höfðu verið staðfestar af þáverandi innríkisráðuneytinu 19. ágúst 2015 og afhenti bærinn yður það gagn í framhaldinu. Í ljósi framangreinds lagði nefndin til grundvallar að umbeðið gagn væri ekki fyrirliggjandi hjá Vestmannaeyjabæ í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Að teknu tilliti til þeirrar rannsóknar sem fór fram af hálfu nefndarinnar í tilefni af kæru yðar og í ljósi þeirra gagna sem yður hafa verið afhent af hálfu Vestmannaeyjabæjar tel ég ekki tilefni til að fjalla nánar um kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég vek þó athygli yðar á að athugun mín á þessu máli hefur orðið mér tilefni til að rita úrskurðarnefnd um upplýsingamál meðfylgjandi bréf.

 


  

Bréf umboðsmanns til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 31. ágúst 2022.

 

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1066/2022 frá 24. febrúar sl. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hér í ljósriti, hef ég ákveðið að fjalla ekki frekar um kvörtunina, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að fjalla um frávísun nefndarinnar á kæru A í því skyni að þau sjónarmið verði framvegis höfð í huga hjá nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir nefndina sem úrskurðar um ágreininginn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er tekið fram að til samræmis við framkvæmd hjá nefndinni sé einnig heimilt að kæra til hennar þegar stjórnvald vísar til þess að umbeðin gögn séu ekki fyrir hendi (sjá þskj. 223 á 141. löggj.þ. 2012-2013, bls. 70).

Í fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar var lagt til grundvallar að umbeðið gagn væri ekki fyrirliggjandi hjá Vestmannaeyjabæ í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en nefndin hafði rannsakað þennan þátt málsins í tilefni af kæru A með því að óska eftir upplýsingum frá bænum og staðreyna hvort gagnabeiðni hans hefði verið afgreidd í samræmi við lögin. Af þeirri málsmeðferð sem og fyrrgreindum lögskýringargögnum verður ekki annað ráðið en að mál þar sem deilt er um hvort umbeðið gagn sé fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi hljóti efnis­meðferð hjá nefndinni. Verður til að mynda ekki annað séð en að rannsókn nefndarinnar á málsatvikum kunni að leiða í ljós að umbeðin gögn séu í raun fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi eða að því beri að útbúa þau, t.d. á grundvelli 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að það samræmist fyllilega kæruheimild 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga að vísa frá kæru til nefndar­innar þótt umbeðin gögn reynist ekki vera fyrirliggjandi hjá stjórnvaldi, heldur fari betur á því að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Er þá haft í huga að með „frávísun“ er gefið til kynna að mál hafi ekki verið talið tækt til efnismeðferðar og getur slík niðurstaða því valdið misskilningi um hvort heimilt hafi verið að leita til nefndarinnar með kæru vegna synjunar um afhendingu upplýsinga.