Gistihúsa-, veitinga- og tækifærisleyfi.

(Mál nr. 11404/2021)

Kvartað var yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að veita félagi ótímabundið rekstrarleyfi veitingastaðar. Flestar ákvarðanir stjórnvalda vegna lóðarinnar væru meira eða minna byggðar á röngum upplýsingum.

Umboðsmaður sagði ljóst að sýslumaður hefði aflað lögboðinna umsagna og ákvörðun hans í framhaldinu byggð á jákvæðum umsögnum allra umsagnaraðila og ekki væru efni til að gera athugasemdir við forsendur úrskurðar ráðuneytisins. Þá benti hann á að rekstraraðilinn hefði nú þegar fengið útgefið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og sú ákvörðun verið staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Aðrar athugasemdir gæfu ekki tilefni til frekari umfjöllunar af hálfu umboðsmanns. Vísaði hann í þeim efnum til þess að viðkomandi hefði áður leitað til sín vegna tengdra mála.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. nóvember sl., f.h. A og B, yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 18. nóvember 2020. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 16. ágúst 2017 um að veita X ehf. ótímabundið rekstrarleyfi vegna veitinga­staðar í flokki II við [...] í Reykjavík. Í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið að útgáfa rekstrarleyfisins hafi verið haldin verulegum ágöllum. Þá fæ ég jafnframt ráðið af kvörtuninni að þér teljið að flestar þeirra ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið vegna lóðarinnar að [...] séu meira eða minna byggðar á röngum upplýsingum.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns f.h. umbjóðenda yðar 17. og 23. júlí 2019 vegna breytinga á deiliskipulagi [...], vegna lóðanna [...] í Reykjavík og vegna starfs­leyfis veitingastaðarins að [...]. Mér er því kunnugt um forsögu málsins og þær athugasemdir sem annar umbjóðanda yðar hefur gert á síðustu árum vegna húsnæðisins að [...].

Fjallað er um rekstrarleyfi í lögum nr. 85/2007, um veitinga­staði, gististaði og skemmtanahald, og samnefndri reglugerð nr. 1277/2016. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 kemur fram að útgáfa rekstrarleyfis samkvæmt lögunum sé háð því að kröfur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli séu uppfyllt og, eftir því sem við á, að starfsleyfi sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga fáist fyrir þeirri starfsemi sem umsókn lýtur að. Þegar fullnægjandi umsókn um rekstrarleyfi hefur borist sýslumanni skal hann þegar í stað senda umsókn til umsagnaraðila en honum er skylt að leita umsagna lögbundinna umsagnaraðila við úrvinnslu umsagna um rekstrarleyfi, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar, og er honum óheimilt að gefa út slíkt leyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn útgáfu þess, sbr. 5. mgr. Þá segir í 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 að umsagnir umsagnar­aðila séu bindandi fyrir leyfisveitanda.

Í máli því sem hér um ræðir er ljóst að sýslumaður aflaði lögboðinna umsagna og var ákvörðun hans í framhaldinu byggð á jákvæðum umsögnum allra umsagnaraðila. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, fyrirliggjandi gögn og upplýsingar tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við forsendur úrskurðar ráðuneytisins 18. nóvember sl. á þá leið að ekkert sé fram komið í málinu sem haggað geti þeim umsögnum lögbundinna umsagnaraðila sem lagðar voru til grundvallar ákvörðun sýslumanns um veitingu rekstrarleyfisins. Þá er einnig rétt að benda á að rekstraraðilinn hefur nú þegar fengið útgefið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og var sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá gefa aðrar athugasemdir sem fram koma í kvörtun yðar og snerta öðru fremur atriði er lúta annars vegar að breytingum á deiliskipulagi [...], vegna lóðanna nr. [...] í Reykjavík og hins vegar að starfsleyfi veitingastaðarins að [...] ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af minni hálfu en í því sambandi er vísað til bréfa embættisins til yðar 8. desember sl. í málum nr. 10152/2019 og 10160/2019 þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um mál þetta með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.