Tafir. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11362/2021)

Kvartað var yfir samskiptum við Múlaþing og ekki hefði heyrst frekar frá sveitarfélaginu í tilteknu máli.

Í svörum sveitarfélagsins kom fram að beðið væri eftir viðbrögðum frá viðkomandi við tilboði þess. Málið var því enn til meðferðar og ekki ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 25. október sl. yfir samskiptum yðar við sveitarfélagið Múlaþing sem hafa farið fram á grundvelli laga nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Í kvörtuninni kom fram að þér hefðuð ekki heyrt frekar af málinu af hálfu sveitarfélagsins síðan 31. ágúst sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Múlaþingi ritað bréf 22. nóvember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Í svari sveitarfélagsins 9. febrúar sl. kemur m.a. fram að lögmaður sveitarfélagsins hafi verið í samskiptum við lögmann yðar eftir að þér höfnuðuð tilboðum þess til kaupa á fasteign yðar. Téð samskipti áttu sér stað 31. ágúst og 17. september sl. en tekið er fram í svari sveitarfélagsins að efni framangreindra samskipta hafi verið „þess eðlis að kallað [hefði verið] eftir viðbrögðum frá kvartanda og jafnframt útskýrt að tilboð sveitarfélagsins tæki mið af ofanflóðalögum, aðkomu Ofanflóðasjóðs varðandi fjárframlög og einnig jafnræði í garð þeirra aðila sem höfðu samþykkt tilboð á þeim forsendum“. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni sveitarfélagsins hafa ekki fengist viðbrögð við framangreindu en haft hafi verið samband við annan lögmann er starfar á sömu stofu og lögmaður yðar 27. janúar sl. Í ljósi alls framangreinds telji sveitarfélagið því að ákveðin framvinda sé í málinu og beðið sé viðbragða frá yður og lögmanni yðar.

Af ofangreindum svörum sveitarfélagsins er ljóst að málið er enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Af þeim sökum tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekari í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Til hliðsjónar vísast til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.