Námslán og námsstyrkir.

(Mál nr. 11431/2021)

Kvartað var yfir úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna sem staðfesti ákvörðun stjórnar sjóðsins um að synja beiðni um að ábyrgð á námsláni yrði felld niður. 

Umboðsmaður benti á að í ákvæði til bráðabirgða við lög um Menntasjóð námsmanna væri kveðið á um að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum, teknum í tíð eldri laga, skuli falla niður við gildistöku laganna enda væri lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að hafi ábyrgð fallið á ábyrgðarmann falli ábyrgð hans ekki niður. Þar sem þannig háttaði til í þessu tilfelli átti ákvæðið ekki við um viðkomandi.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. janúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. desember sl. yfir úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna 19. nóvember sl. í máli M-9/2021. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna 9. júní sl. um að synja beiðni yðar um að ábyrgð yðar á námsláni yrði felld niður.

Í ákvæði II til bráðabirgða við lög nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, er kveðið á um að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skuli falla niður við gildistöku laganna, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi er varð að lögunum segir að miðað sé við að lánþegi sé í skilum við lánasjóðinn á því námsláni sem ábyrgðarmaðurinn er í ábyrgð fyrir við gildistöku laganna. Hafi ábyrgð fallið á ábyrgðarmann falli ábyrgð hans ekki niður samkvæmt ákvæðinu (sjá þskj. 373 á 150. löggj.þ. 2019-2020, bls. 53).

Að framangreindu virtu og líkt og nánar er rakið í úrskurði málskotsnefndarinnar er ljóst að aðstæður yðar falla ekki undir ákvæðið, enda gjaldféllu þau námslán, sem þér höfðuð gengist í ábyrgð fyrir, árið 2011 þegar bú lánþega var tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar fyrrgreind lög tóku gildi voruð þér því ekki ábyrgðarmaður, heldur skuldari samkvæmt skuldabréfi sem þér gáfuð út vegna þeirra skuldbindinga sem höfðu fallið á yður. Aðstæður yður við gildistöku laganna voru því efnislega ólíkar aðstæðum þeirra sem ákvæðið snertir. Sjónarmið um jafnræði, sem þér hafið vísað til, hafa því ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið eru ekki efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu málskotsnefndarinnar. Er athugun minni á málinu því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.