Kvartað var yfir að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi.
Af kvörtuninni varð ekki ráðið að erindið sem upphaflega var sent Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk afrit af, hefði verið sent ráðuneytinu í breyttri mynd. Ef svo hefði verið væri ekki heldur að sjá að það hefði verið ítrekað. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar. Málið varð honum þó tilefni til þess að rita Kjara- og mannauðssýslu ríkisins bréf með ábendingu um framsendingarreglu stjórnsýslulaga.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til erindis yðar til mín, dags. 14. mars sl., þar sem þér kvartið yfir að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki svarað erindi sem lögmaður yðar sendi ráðuneytinu fyrir yðar hönd með bréfi í mars 2020.
Kvörtuninni fylgdi afrit af bréfi lögmanns yðar, dags. 23. mars 2020, til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, nánar tiltekið Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, þar sem óskað var eftir áliti hennar á hvort þér ættuð lagalegan rétt til að hverfa til fyrra starfs yðar við [...]. Aftast í bréfinu neðanmáls stendur: „Afrit: Mennta- og menningarmálaráðuneyti“. Kvörtun yðar fylgdi enn fremur afrit tölvupóstssamskipta lögmannsins bæði við fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Samkvæmt framangreindum gögnum ítrekaði lögmaður yðar erindið frá því í mars 2020 með tölvupósti til beggja ráðuneyta 27. júlí sl. og í honum var tekið fram að óskað væri skriflegs svars. Í tölvupósti starfsmanns mennta- og menningarmálaráðuneytisins til lögmannsins 12. ágúst sl. er vísað til þess að með bréfi hans hafi verið óskað eftir „áliti kjara- og mannauðssýslunnar á því hvort ...“ og að í ljósi þess vænti ráðuneytið þess að kjara- og mannauðssýslan svari bréfinu. Í öðrum tölvupósti frá sama degi kemur fram að kjara- og mannauðssýslan hafi verið upplýst um framangreint mat mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Í tölvupósti starfsmanns Kjara- og mannauðssýslu ríkisins til lögmanns yðar 14. ágúst sl. er vísað til þess að starfsmaðurinn hafi með símtali til lögmannsins 24. apríl 2020 upplýst hann um að þar eð erindið varðaði túlkun laga um framhaldsskóla bæri honum að snúa sér til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Lauk tölvupóstinum með eftirfarandi orðum: „Með vísan til framangreinds er fyrra svar Kjara og mannauðssýslu ríkisins áréttað og þér leiðbeint að hafa samband við mennta- og menningarmálaráðuneytið um túlkun á fyrrgreindu ákvæði.“ Þrátt fyrir framangreinda leiðbeiningu kemur hvorki fram í þessum tölvupósti né öðrum gögnum sem fylgdu kvörtun yðar að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hafi framsent umrætt erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá verður ekki ráðið af kvörtuninni og fylgiskjölum hennar að þér eða lögmaður yðar hafi borið erindið upp við mennta- og menningarmálaráðuneytið á nýjan leik eftir að fyrir lá að Kjara- og mannauðssýslan vísaði því frá sér.
Enn fremur liggur fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið svaraði upphaflegu erindi lögmanns yðar frá mars 2020 í ágúst sl. eftir að það hafði verið ítrekað í júlí sl. Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að erindi það er þér bíðið svars við sé frábrugðið hinu upphaflega að því leyti að afstaða Kjara- og mannauðssýslunnar liggur nú fyrir og með hliðsjón af því sé erindinu alfarið beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Af framangreindu tilefni tek ég fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður meðal annars til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkurt svigrúm í þessu efni. Ég hef almennt litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun til mín vegna þess að dráttur hafi orðið á því að stjórnvald svaraði erindi frá honum leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til mín með kvörtun.
Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að erindi yðar í breyttri mynd hafi verið borið upp við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hafi svo verið engu að síður verður ekki heldur ráðið af kvörtuninni að það hafi verið ítrekað. Ég tel því ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Mál yðar hefur þó orðið mér tilefni til þess að rita Kjara- og mannauðssýslu ríkisins bréf það er fylgir hér í ljósriti þar sem ég kem tiltekinni ábendingu á framfæri.
Með vísan til framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.
Bréf setts umboðsmanns til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, dags. 26. mars 2021, hljóðar svo:
Ég hef nýlega lokið máli vegna kvörtunar yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki svarað erindi sem beint var til þess, sbr. meðfylgjandi ljósrit af bréfi mínu um lok málsins. Málið snertir jafnframt Kjara- og mannauðssýslu ríkisins þar eð erindinu hafði í upphafi verið beint aðallega til hennar. Af gögnum málsins verður ráðið að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hafi lokið málinu fyrir sitt leyti með því að benda aðila á að erindið heyrði undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og tæki stofnunin ekki afstöðu til þess að öðru leyti. Hins vegar verður ekki séð af kvörtuninni og gögnum sem henni fylgdu að stofnunin hafi framsent erindið sem slíkt til mennta- og menningarmálaráðuneytisins eða upplýst ráðuneytið milliliðalaust um afstöðu sína til þess.
Í tilefni af framangreindu tel ég rétt að árétta framsendingarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, en þar segir að berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er. Skylda stjórnvalda til að framsenda erindi tengist náið leiðbeiningarskyldu þeirra og miða þær saman að því sú þekking sem til staðar er í stjórnsýslunni á þeim reglum sem henni ber að fylgja og verkaskiptingu innan hennar, sé nýtt til að greiða fyrir því að þeir sem til stjórnsýslunnar leita fái sem fyrst leyst úr málum sínum. Sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþings frá 30. nóvember í máli nr. 2706/1999.
Í samræmi við framangreint kem ég þeirri ábendingu á framfæri að gætt verði að fyrirmælum 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga við meðferð hliðstæðra mála hjá ráðuneytinu í framtíðinni.
Kjartan Bjarni Björgvinsson