Kvartað var yfir viðmóti og framkomu starfsfólks Innheimtustofnunar sveitarfélaga, upplýsingagjöf hennar og óhóflegum innheimtum meðlagsskulda.
Þar sem umkvörtunarefnin féllu flest utan þess ársfrests sem áskilinn er til að umboðsmaður geti tekið kvörtun til meðferðar voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um þau. Hvað almennar athugasemdir um störf stofnunarinnar snerti benti umboðsmaður á unnið væri að almennri úttekt á verkefnum hennar og starfsemi. Ekki væri því nægilegt tilefni að svo stöddu til að aðhafast frekar vegna þeirra. Þá varð ekki séð að leitað hefði verið til stjórnar innheimtustofnunarinnar vegna misræmis á frádrætti af launum vegna meðlagsskulda.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. desember 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar frá 13. nóvember sl. sem þér komuð á framfæri f.h. sonar yðar, A, og beinist að Innheimtustofnun sveitarfélaga. Af kvörtuninni, auk þeirra gagna sem bárust að beiðni starfsmanns míns, verður ráðið að hún lúti að viðmóti og framkomu starfsfólks stofnunarinnar, upplýsingagjöf hennar og óhóflegum innheimtum meðlagsskulda.
Af samskiptum yðar við stofnunina sem ég hef undir höndum verður ráðið að A hefur í nokkur skipti frá árinu 2011 óskað eftir ívilnandi úrræðum vegna meðlagsskuldar, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hefur stjórn stofnunarinnar af því tilefni gert við hann tímabundna samninga, s.s um lægri mánaðarlegar greiðslur eða tímabundinn greiðslufrest, síðast hinn 12. nóvember sl. þar sem samþykkt var að veita honum greiðslufrest í þrjá mánuði, líkt og honum var tilkynnt með bréfi 15. nóvember sl. Áður hafði stjórn stofnunarinnar í júlí sl. ákveðið að A skyldi greiða tvö meðlög á mánuði um sex mánaða skeið. Þá verður ráðið að á árinu 2011 var að beiðni stofnunarinnar gert fjárnám í fasteign í eigu hans að [...]. Á árinu 2016 mun fjárnáminu hafa verið aflýst af eigninni í kjölfar þess að greiðsla að fjárhæð kr. 507.942 barst stofnuninni eftir sölu eignarinnar. Einnig liggur fyrir að á árinu 2018 var að beiðni stofnunarinnar gert fjárnám í fasteign að [...] í eigu A og lagði fram beiðni um nauðungarsölu sömu fasteignar á árinu 2019. Sú beiðni mun hafa verið afturkölluð 1. júlí 2020.
Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að ég fæ ekki betur séð en að framangreindu skilyrði sé ekki fullnægt vegna þeirra ákvarðana og athafna stofnunarinnar vegna meðlagsskuldar A, sem raktar voru hér að ofan, að undanskildum ofangreindum samþykktum stjórnar stofnunarinnar sem kynntar voru honum 12. júlí og 15. nóvember sl. Brestur því lagaskilyrði til að ég geti tekið þær til nánari athugunar. Hvað snertir téða samþykkt stjórnarinnar frá því í júlí sl. tel ég ekki tilefni til að taka hana til frekari athugunar að svo stöddu en þá horfi ég til þess að A hefur nú, s.s. áður greinir, verið veittur greiðslufrestur.
Vegna kvörtunar yðar, sem að hluta má líta á sem almennar athugasemdir við störf Innheimtustofnunar sveitarfélaga, einkum samskipti og upplýsingagjöf til þeirra sem leita til hennar, hef ég einnig horft til þess að líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum er nú unnið að almennri úttekt á verkefnum og starfsemi stofnunarinnar af hálfu Ríkisendurskoðunar. Mun sú úttekt m.a. vera tilkomin vegna fyrirhugaðra breytinga á þeim lagagrundvelli sem stofnunin starfar samkvæmt og tilfærslu verkefna hennar til ríkisins. Í tengslum við það hefur ný stjórn verið skipuð yfir stofnuninni. Tel ég því ekki nægilegt tilefni að svo stöddu til aðhafast frekar vegna almennra athugasemda yðar við starfsemi stofnunarinnar.
Í kvörtuninni eru einnig gerðar athugasemdir sem lúta að misræmi á milli færslna stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum A 13. ágúst og 22. september sl. og frádráttar af launum hans samkvæmt launaseðlum þessa sömu mánuði. Samkvæmt gögnum sem þér fenguð afhent frá stofnunni barst henni 13. ágúst sl. greiðsla að fjárhæð kr. 65.361 og 22. september greiðsla að fjárhæð kr. 74.139. Samkvæmt launaseðli vegna ágústmánaðar hélt vinnuveitandi A eftir af launum hans kr. 73.690 og í september kr. 18.423. Samkvæmt gögnum málsins óskuðuð þér eftir skýringum á þessu með tölvupóstum 9. og 10. nóvember sl. Af svari starfsmanns stofnunarinnar, sem barst með tölvupósti 10. nóvember sl., verður ekki fyllilega ráðið af hvaða ástæðum þetta misræmi stafar.
Af 2. gr. laga nr. 54/1971, þ.á m. lögskýringargögnum, verður ráðið að stjórn innheimtustofnunar sinni tilteknu eftirliti með starfsemi stofnunarinnar þótt ekki verði með ótvíræðum hætti ráðið í hvaða tilvikum unnt sé að bera einstök mál og erindi undir stjórnina. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis. Þar sem ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að þér hafið freistað þess að bera athugasemdir yðar um innheimtu meðlagsgreiðslna undir stjórn stofnunarinnar tel ég, með hliðsjón af framangreindu og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, því ekki rétt að fjalla um þetta atriði í kvörtun yðar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að ef þér freistið þess að leita til stjórnar stofnunarinnar og teljið A enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín á ný innan eins árs frá því afstaða hennar liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar að svo stöddu.