Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 10160/2019)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá júlí 2018 sem hafnaði kröfu um að ógilda ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi. Jafnframt var óskað eftir að umboðsmaður tæki allt málið til nánari skoðunar, allt frá upphafi þess árið 2015.

Athugun umboðsmanns afmarkaðist við úrskurð nefndarinnar þar sem annað var utan þess ársfrests sem gefst til að bera upp kvörtun eða ágreiningur hafði ekki verið endanlega til lykta leiddur. Ekki  voru forsendur til að gera athugasemd við það mat nefndarinnar að breytingin hefði verið óveruleg og að Reykjavíkurborg hefði verið heimilt að haga málinu eins og gert hafði verið. Þá væri það ekki hlutverk nefndarinnar að taka afstöðu til hugsanlegrar bótaskyldu í málinu. Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar. Aðrar athugasemdir í kvörtuninni gæfu ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af sinni hálfu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. desember 2021, sem hljóðar svo:

  

 

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 23. júlí 2019 f.h. A og B sem varðar húsnæðið að [...], þar sem nú er rekinn veitingastaður, og þær breytingar sem þar hafa verið gerðar á húsnæðinu.  Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að A hefur um árabil gert athugasemdir við að í húsnæðinu verði opnaður veitingastaður og komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri við Reykjavíkurborg.

Kvörtun yðar beinist einkum að úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 24. júlí 2018 í máli nr. 134/2016. Með úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu umbjóðenda yðar um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 17. ágúst 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi [...].

Í kvörtun yðar kemur jafnframt fram að flestar þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teknar hafi verið um lóðina á [...] séu meira eða minna byggðar á röngum upplýsingum. Af þeim sökum sé þess óskað að allt málið verði tekið til nánari skoðunar, allt frá upphafi þess, þ.e. frá veitingu byggingarleyfis 12. maí 2015 og jafnframt verði teknar til athugunar deiliskipulagsbreytingar á [...] árið 2016, byggingarleyfi vegna framkvæmda á [...] sama ár, meðferð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á umsókn veitingastaðar í húsnæðinu um rekstrarleyfi, umsagnir heilbrigðiseftirlitsins og slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og eftirlitsstörf þeirra vegna starfs- og rekstrarleyfa veitingastaðarins bæði til bráðabrigða árið 2016 og ótímabundið árið 2017. Af því tilefni tek ég fram að til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis skal hún borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli á grundvelli kvörtunar nema það hafi verið lagt í farveg í stjórnsýslunni og leitt endanlega til lykta, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna og sjónarmið sem það ákvæði byggist á. Athugun á kvörtun yðar hefur því verið afmörkuð við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 134/2016.

Í málinu liggur fyrir samantekt A vegna málsins, auk ítarlegra viðbótargagna og athugasemda sem hafa borist í framhaldi af kvörtuninni. Hinn 7. maí sl. komuð þér jafnframt á framfæri beiðni um frekari frest til að taka saman ný gögn og upplýsingar vegna málsins. Þau gögn hafa ekki borist. Málið er því tekið til úrlausnar á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga og þeirra sjónarmiða sem koma fram í bæði kvörtun yðar og skýrslu og frekari athugasemdum A.

  

II

1

Af kvörtuninni og frekari gögnum verður ráðið að umbjóðendur yðar séu ósáttir við að úrskurðarnefndin hafi ekki veitt þeim tækifæri til að kynna sér málsrök Reykjavíkurborgar og lóðarhafa að [...] áður en úrskurður var kveðinn upp í málinu. Teljið þér að með þessu hafi úrskurðarnefndin brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá teljið þér einnig að með þessu hafi málsmeðferð nefndarinnar farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga. Teljið þér að ef umbjóðendur yðar hefðu fengið færi á að kynna sér framlögð gögn og sjónarmið hefðu þau getað bent á rangfærslur, leiðrétt villur eða vakið máls á atriðum sem kölluðu á nánari skoðun nefndarinnar. Þá er í kvörtun yðar tekið fram að þó svo að annar umbjóðenda yðar hafi sent úrskurðarnefndinni mörg bréf undir rekstri málsins þá breyti það ekki þeirri staðreynd að þeim hafi ekki verið kynnt þau gögn sem lögð voru fram af hálfu gagnaðila né sjónarmið þeirra. Í viðbótargögnum sem hafa borist frá A er gerð nánari grein fyrir efnislegum athugasemdum hans við afstöðu Reykjavíkurborgar og lóðarhafa [...] til kæru hans og B.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Af ákvæðinu er ljóst að stjórnvöldum er ekki skylt að veita aðila tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri ef afstaða hans liggur fyrir í gögnum málsins eða það sé augljóslega óþarft, sbr. niðurlag ákvæðisins. Eftir að hafa kynnt mér samantekt A, sem úrskurðarnefnd hafði undir höndum við meðferð málsins, og þau viðbótargögn sem mér hafa borist frá honum fæ ég ekki séð að nefndinni hafi borið, á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga, að veita umbjóðendum yðar færi á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins enda er í samantektinni fjallað með ítarlegum hætti um þá annmarka sem hann taldi vera um að ræða á málsmeðferð og ákvörðunartöku Reykjavíkurborgar í málinu, auk þess sem ítarleg bréfaskipti við stjórnvöld fylgdu samantektinni, ljósmyndir o.fl. Þá er ekki vikið sérstaklega að því í kvörtun yðar hvaða tilteknu sjónarmið umbjóðenda yðar það voru sem þér teljið að hafi ekki legið fyrir í gögnum málsins en hefðu haft þýðingu fyrir úrlausn þess.

  

2

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. laga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi. Af því leiðir að breytingar á deiliskipulagi verða að samrýmast aðalskipulagi. Í breyttu deiliskipulagi er tekið fram að rekstur veitingastaðar í flokki II sé heimill í húsnæðinu að [...] og er ljóst að umbjóðendur yðar telja slíkt ekki samrýmast aðalskipulagi.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin að [...] á íbúðarsvæði [...]. Við meðferð og gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var [...] skilgreindur sem aðalgata. Gerði aðalskipulagið ráð fyrir því að á þeim svæðum væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Í því sambandi kemur fram að rýmri heimildir um landnotkun nái „einkum“ til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu og veitingastaði sé að ræða. Með vísan til þessa tel ég ekki ástæðu að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar sem kemur fram í úrskurðinum að áskilnaði laga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana hafi verið fullnægt.

  

3

Af kvörtun yðar og frekari gögnum verður ráðið að athugasemdir yðar beinist jafnframt að því að ekki hafi verið farið með breytingu á deiliskipulaginu eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, heldur hafi farið fram grenndarkynning samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á þeim grundvelli að breytingarnar teldust óverulegar. 

Við mat á því hvort breytingar á deiliskipulagi teljist vera það óverulegar að ekki sé ástæða til málsmeðferðar eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða skal taka mið af því að hve miklu leyti tillaga að breytingu víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis, sbr. 2. mgr. 43. gr. fyrrgreindra laga. Einnig þarf að meta hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni, sbr. gr. 5.8.2 í skipulags­reglugerð nr. 90/2013.

Í úrskurði nefndarinnar kemur m.a. fram að ákvörðun um breytta notkun húsnæðisins að [...] hafi legið fyrir frá árinu 2015 og staðið óhögguð eftir úrskurð nefndarinnar 3. mars 2016 í máli nr. 99/2016. Fjallað er um hækkun á nýtingarhlutfalli lóðarinnar og m.a. vísað til þess að það sé nokkuð innan meðalnýtingarhlutfalls á svæðinu. Einnig er lagt til grundvallar að stækkun byggingarreitsins og bygging viðbyggingar víki ekki svo nokkru nema frá útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá var ekki talið að breytingin væri fordæmisgefandi enda væri nýtingarhlutfall lóða mjög mismunandi á svæðinu.

Með vísan til framangreinds verður ekki annað séð en að úrskurðarnefndin hafi við mat sitt á því hvort hin kærða deiliskipulagsbreyting teldist óveruleg haft hliðsjón af þeim viðmiðum sem kveðið er á um í lögum nr. 123/2010 og reglugerð nr. 90/2013. Eru því ekki forsendur til þess að gera athugasemd við að nefndin hafi metið breytinguna óverulega á þeim grundvelli sem að framan greinir og þar með að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að fara með breytinguna samkvæmt téðri 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010

  

4

Í athugasemdum A til mín kemur m.a. fram að hann og B séu afar ósátt við að í úrskurði nefndarinnar komi fram að hún telji að umrædd deiliskipulagsbreyting hafi ótvíræð áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, þar sem opnar svalir með aðgengi frá veitingastað séu til þess fallnar að valda ónæði umfram það sem almennt megi búast við í íbúðarbyggð, en látið sitja við að benda þeim á 51. gr. laga nr. 123/2010 án þess þó að fjalla nánar um hugsanlega bótaskyldu á grundvelli þess ákvæðis.

Af þessu tilefni skal bent á að lögbundið hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 52. gr. laga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í 2. mgr. 51. gr. a í lögum nr. 123/2010 kemur fram að sá sem telur sig eiga rétt á bótum vegna skipulagsaðgerða skuli senda kröfu sína til sveitarstjórnar. Viðurkenni sveitarstjórn bótaskyldu og ekki næst samkomulag um bætur skal hún annast um að dómkvaddir verði matsmenn til að ákveða bætur. Það var því ekki hlutverk nefndarinnar að taka afstöðu til hugsanlegrar bótaskyldu í málinu.

    

V

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, athugasemdir umbjóðenda yðar og fyrirliggjandi gögn og upplýsingar tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar í máli nr. 134/2016 eða þá afstöðu hennar að taka ekki til nýrrar umfjöllunar, á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrri ákvarðanir er varða húsnæðið að [...]. Þá gefa aðrar athugasemdir sem koma fram í kvörtuninni og viðbótarathugasemdum A ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af minni hálfu.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég umfjöllun minni um mál þetta með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.