Börn.

(Mál nr. 11325/2021)

Kvartað var yfir niðurstöðu Barnaverndarstofu í tengslum við meðferð barnaverndar Kópavogs á máli varðandi umgengni viðkomandi við dóttur sína.

Umboðsmaður fékk ekki betur séð en athugasemdir í kvörtun viðkomandi til Barnaverndarstofu lytu fyrst og fremst að forsendum í úrskurði barnaverndarnefndar, þeim sjónarmiðum sem hann hafi verið reistur á og meðferð málsins í aðdraganda þess að kveðinn var upp úrskurður í málinu. Barnaverndarstofa hafi ekki það hlutverk að endurskoða úrskurði barnaverndarnefnda sem kæranlegir séu til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það komi í hlut nefndarinnar sem æðra stjórnvalds að fjalla um þeir ákvarðanir og úrskurði barnaverndarnefnda sem bornir séu undir hana með stjórnsýslukæru.

Taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá afstöðu Barnaverndarstofu að ekki væru forsendur til efnislegrar athugunar hennar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 18. október 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A, dags. 29. september sl., sem lýtur að niðurstöðu Barnaverndarstofu, dags. 2. september sl., í tilefni af kvörtun yðar til stofunnar í tengslum við meðferð barnaverndarnefndar Kópavogs á máli er varðar umgengni A við dóttur hans.

Í niðurstöðu Barnaverndarstofu kemur fram að stofan telji ekki forsendur til að fjalla efnislega um kvörtun yðar þar sem þær athugasemdir sem fram koma í kvörtuninni lúti einkum að forsendum úrskurðar barnaverndarnefndar Kópavogs sem kveðinn var upp 6. maí sl. um umgengni, inntaki umgengni og hugsanlegu vanhæfi barnaverndarnefndar til að úrskurða í málinu. Það sé ekki á færi Barnaverndarstofu að fjalla um lögmæti slíkra ákvarðana barnaverndarnefnda enda sæti úrskurðir barnaverndarnefnda um umgengni kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá verði ekki séð að nýjar ástæður séu fyrir hendi í málinu sem ekki hafi verið fjallað um í fyrri erindum Barnaverndarstofu er réttlæti að málið sé tekið til athugunar að nýju.

Um eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum er fjallað í 8. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. getur Barnaverndarstofa krafið barnaverndarnefndir um allar þær upplýsingar og skýrslur sem hún telur nauðsynlegar, bæði gögn í einstökum málum og skýrslur sem barnaverndarnefndir þurfa að vinna sérstaklega. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. getur Barnaverndarstofa á grundvelli kvartana eða annarra upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála og ef hún telur ástæðu til, aflað nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd. Þá er í 4. mgr. fjallað um þau úrræði sem stofunni eru tæk að telji hún að barnaverndarnefnd fari ekki að lögum við rækslu starfa sinna.

Í 6. gr. laga nr. 80/2002 er fjallað um úrskurðarnefnd velferðarmála en þar segir að heimilt sé að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í 8. mgr. 74. gr. laganna segir að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt 74. gr. til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum hefur Barnaverndarstofa það hlutverk að taka til umfjöllunar almennar kvartanir sem lúta að vinnslu mála hjá barnaverndarnefnd, starfsháttum nefndanna og starfsvenjum. Það er hins vegar ekki hlutverk Barnaverndarstofu að endurskoða úrskurði barnaverndarnefnda sem kveðnir eru upp á grundvelli laganna og kæranlegir eru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það kemur í hlut úrskurðarnefndar velferðarmála sem æðra stjórnvalds að fjalla um lögmæti þeirra ákvarðana og úrskurða barnaverndarnefnda sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukæru og jafnframt taka afstöðu til þess hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt við meðferð máls, í því felst m.a. að fjalla um hvort vanhæfisreglum stjórnsýslulaga hafi verið fylgt við meðferð máls hjá barnaverndarnefnd.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kvað barnaverndarnefnd Kópavogs upp úrskurð 6. maí sl. um umgengni A við dóttur hans þar sem kveðið var á um inntak og tilhögun umgengninnar í samræmi við ákvæði 74. gr. laga nr. 80/2002. Í úrskurðinum er jafnframt leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar velferðarmála. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar til Barnaverndarstofu, dags. 24. ágúst 2021, fæ ég ekki betur séð en að þær athugasemdir sem þar eru færðar fram lúti fyrst og fremst að forsendum í úrskurði barnaverndarnefndar, þeim sjónarmiðum sem hann er reistur á og meðferð málsins í aðdraganda þess að kveðinn var upp úrskurður í málinu. Í ljósi þess sem að framan er rakið um eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá afstöðu stofunnar að ekki séu forsendur til efnislegrar athugunar af hennar hálfu. Samkvæmt framangreindu er yður fær sú leið að bera athugasemdir yðar við úrskurð barnaverndarnefndar Kópavogs undir úrskurðarnefnd velferðarmála með stjórnsýslukæru. Í ljósi framangreinds og þegar litið er til gagna málsins tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. 

     Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.