I.
Hinn 22. janúar 1999 leituðu A, B og C til mín og kvörtuðu yfir málsmeðferð sýslumannsins á Eskifirði við innheimtu opinberra gjalda og synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni þeirra um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar af því tilefni.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 7. febrúar 2001.
II.
Málavextir eru þeir að haustið 1995 fluttu A, B og C búferlum til Danmerkur. B hafði starfað á Íslandi sem launþegi og vinnuveitandi hennar dró af henni við launauppgjör vegna staðgreiðslu og annarra opinberra gjalda sem gerð hafði verið krafa um. Af gögnum málsins verður ráðið að síðasta uppgjör vegna afdráttar vinnuveitanda af launum B barst sýslumanninum á Eskifirði 19. október 1995. Eftir þá greiðslu var skuld B vegna opinberra gjalda hjá sýslumannsembættinu á Eskifirði kr. 32.911. B taldi sig hins vegar hafa staðið að fullu í skilum á álögðum gjöldum ársins 1995.
A, B og C höfðu sjálf samband við skattstofu Austurlands og óskuðu eftir að eyðublöð vegna skattframtala þeirra fyrir árið 1996, þ.e. tekjuárið 1995, yrðu send þeim á heimilisfang þeirra í Danmörku. Framtölin voru síðan send útfyllt til Íslands og bárust þau skattstofu Austurlands 13. mars 1996. B, A og C segja að þeim hafi ekki verið sendir álagningarseðlar vegna gjaldársins 1996 og í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 8. september 1998, kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi álagningarseðlar þeirra umrætt ár verið sendir að X á Eskifirði í byrjun ágúst 1996 en það var síðasta skráða lögheimili þeirra á Íslandi hjá Hagstofu Íslands. Frá 5. september 1995 voru þau hins vegar skráð hjá hagstofunni til heimilis í Danmörku.
Í ágúst 1996 barst B tilkynning frá Y kommune þar sem hún var krafin um greiðslu á 2.912 dönskum krónum ásamt tilgreindum kostnaði og fram kom að þetta væri gert vegna beiðni íslenskra skattyfirvalda.
Af gögnum málsins verður ráðið að undanfari þessarar tilkynningar var sá að með bréfi, dags. 15. júlí 1996, til Gjaldheimtunnar í Reykjavík óskaði sýslumaðurinn á Eskifirði eftir að gerðar yrðu ráðstafanir til að innheimta hjá B skuld að fjárhæð 33.611 krónur vegna álagningar árið 1995, tekjuárið 1994, og var tekið fram að þetta væru eftirstöðvar staðgreiðslu. Jafnframt var gerð krafa um dráttarvexti upp á 89 krónur og samtals nam krafan því 33.700 krónur. Í frásögn B kemur fram að þar sem krafan barst í ágústmánuði hafi hún talið þetta innheimtu álagðra opinberra gjalda ársins 1996.
Á grundvelli samnings milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, sbr. lög nr. 46/1990, var óskað eftir aðstoð yfirvalda í Danmörku við innheimtu skuldarinnar. Með bréfi Told- og Skatteregion í Sønderborg, dags. 15. ágúst 1996, var óskað eftir að Y kommune annaðist innheimtuna. Í bréfinu er tekið fram að skuldin sé 33.700 íslenskar krónur sem umreiknist miðað við gengið 8,64 til 2.912 danskar krónur.
B greiddi umrædda skuld í dönskum krónum ásamt þeim innheimtukostnaði sem hin dönsku yfirvöld gerðu kröfu um á nokkrum mánuðum og í bréfi sýslumannsins á Eskifirði, dags. 20. júlí 1998, kemur fram að síðasta greiðslan hafi borist embætti hans 13. maí 1997 og námu þessar greiðslur samtals 31.357 íslenskar krónur.
Með þremur innheimtubréfum, dags. 23. febrúar 1998, gerði sýslumaðurinn á Eskifirði A, B og C grein fyrir gjöldum sem voru í vanskilum samkvæmt eftirstöðvalista embættisins. Voru þau beðin um að gera skil hið fyrsta. Samanlögð skuld B vegna álagningar ársins 1995 og 1996 var samkvæmt bréfi sýslumannsins kr. 100.566. Þar meðtaldar voru eftirstöðvar skuldar hennar vegna ársins 1995 7.494 krónur þar af vextir að fjárhæð 816 krónur. Skuld vegna ársins 1996 var að höfuðstól 76.441 krónur og dráttarvextir 16.631 krónur. Samkvæmt bréfum sýslumannsins var skuld A vegna álagningar 1996 og 1997 5.742 krónur þar af vextir 965 krónur og skuld C vegna áranna 1995 og 1996 57.340 krónur þar meðtalið 560 krónur vegna gjaldársins 1995 og vextir vegna ársins 1996 10.173 krónur. Í bréfum sýslumannsins sagði síðan að ef hvorki bærist greiðsla eða samið yrði um greiðslutilhögun fyrir 20. mars 1998 yrðu umræddar skattskuldir sendar til þess sem nefnt var norðurlandainnheimta hjá tollstjóra.
Af hálfu A, B og C var í tilefni af framangreindum kröfum sýslumannsins á Eskifirði haft samband við embætti hans og gerðar athugasemdir við að þeim hefðu ekki verið sendir álagningar- eða innheimtuseðlar vegna vangreiddra opinberra gjalda fyrr. Fóru þau fram á að dráttarvextir af vangreiddum opinberum gjöldum þeirra yrðu felldir niður af þeim sökum. Í svarbréfi sýslumannsins á Eskifirði, dags. 1. apríl 1998, til B segir meðal annars svo:
„Svar við fyrirspurn um niðurfellingu dráttarvaxta af opinberum gjöldum.
Eftir að hafa leitað upplýsinga og ráðfært okkur við Tollstjórann í Reykjavík sem hefur umsjón með innheimtu frá Norðurlöndunum er ljóst að ekki er heimild fyrir hendi til að fella niður vexti.
Hins vegar erum við reiðubúin til að dreifa eitthvað greiðslum á skuld þessari miðað við að greiðslur komi beint til okkar án milligöngu gjaldheimtunnar ytra. Á þann hátt sparast þóknun sú er danska gjaldheimtan hefur tekið.
[...]“
Með þremur bréfum, dags. 16. apríl 1998, til sýslumannsins á Eskifirði, „mótmæltu“ B, A og C „harðlega“ hvernig staðið hafði verið að innheimtu á álögðum opinberum gjöldum þeirra vegna tekjuársins 1995. Af þeirra hálfu var í bréfunum gerðar athugasemdir við að ekki hefðu verið sendir álagningarseðlar og innheimtubréf. Þá hefði þeim ekki verið kynntur réttur þeirra að því er varðaði kærufresti eða „að neinu leyti verið bent á rétt [þeirra] skv. skattalögum vegna tekjuársins 1995 né 1996“. Töldu þau sig meðal annars þegar hafa staðið skil á greiðslum vegna tekjuársins 1995. Með bréfum, dags. 25. maí, 13. júlí og 30. júlí 1998, ítrekuðu þau þessi erindi sín og óskuðu eftir að þeim yrði svarað. Svar sýslumannsins á Eskifirði barst samkvæmt kvörtuninni 1. ágúst 1998 með bréfi, dags. 20. júlí 1998, og þar sagði meðal annars:
„[...]
Eins og fram kemur í bréfi yðar fluttuð þér búferlum til Danmerkur í september 1995. Nam þá skuld yðar vegna opinberra gjalda ársins 1994 (ál. 06.07.1995) kr. 71.959.- Þann 19. október 1995 barst síðasta greiðsla frá [Z] hf. vegna afdráttar af launum yðar og reyndust þá eftirstöðvar skuldar kr. 32.911.- Var óskað eftir innheimtu hennar hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík, sem hefur umsjón með innheimtu skatta einstaklinga sem búsettir eru á Norðurlöndunum. Kr. 31.357.- bárust upp í kröfu þessa, síðasta greiðsla þann 13.05.1997. Í dag nema eftirstöðvar þess árs m.v. kr. 7.949.-. Sú skuld sem nú er til innheimtu er vegna tekjuársins 1995, ál. 05.07.1996, að höfuðstól kr. 72.456.- m.v. í dag kr. 106.401.- Haft hefur verið samband við [Z] hf. vegna skuldar þessarar og samkvæmt upplýsingum þaðan stafar álagning af því að of lítill afdráttur var af hluta launa yðar tekjuárið 1995.
Samkvæmt l. nr. 75, 1981 um tekjuskatt og eignarskatt ber að greiða tekjuskatt af tekjum og útsvar eftir því sem nánar er kveðið á um í l. nr. 4, 1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Skattaálagning fer fram í júlí árið eftir tekjuár, þ.e. álagning yðar árið 1996 er til kominn vegna tekjuársins 1995.
Þeir aðilar, sem flytjast erlendis, verða sjálfir að fylgjast með álagningu opinberra gjalda og munu viðkomandi skattstofur ekki senda álagningarseðla erlendis. Samkvæmt því bar yður skylda til að fylgjast með álagningu yðar, auk þess sem þér sáuð um hluta launabókhalds fyrir [Z] hf. á umræddum tíma og hefði því frekar átt að vera kunnugt um stöðuna.
Fyrir nokkrum mánuðum breyttust verklagsreglur varðandi innheimtu opinberra gjalda hjá gjaldendum, sem flutt hafa til Norðurlanda, á þann veg að innheimtumanni ber að afla upplýsinga um heimilisfang viðkomandi hjá Hagstofu Íslands eða skattyfirvöldum viðkomandi lands. Þegar búið er að afla heimilisfangs er gjaldanda sent innheimtubréf, áður en krafan er send í Norðurlandainnheimtu. Embættið sinnti þessari skyldu sinni með bréfi dags. 23. febrúar s.l.
Þar sem ekki hafa borist neinar greiðslur í tilefni af innheimtubréfi embættisins, hefur krafa þessi nú verið send til Gjaldheimtunnar í Reykjavík til frekari innheimtu. Bent skal á að enn er unnt að greiða beint til embættisins með þeim skilmálum sem fram koma í bréfi embættisins frá 1. apríl s.l.“
Með tilkynningum („tilsigelse“), dags. 27. júlí 1998, frá sveitarfélaginu Y í Danmörku voru B og C boðuð á innheimtuskrifstofu þess vegna kröfu um greiðslu á „udelandsk skat“. Var B krafin um greiðslu að fjárhæð 10.714 danskar krónur og C um 6.339 danskar krónur að meðtöldum kostnaði og þóknun. Tekið var fram að ef þau B og C mættu ekki eða krafan yrði ekki greidd fyrir 4. ágúst 1998 yrði gripið til frekari innheimtuaðgerða.
Í gögnum málsins kemur fram að þessar innheimtuaðgerðir af hálfu hinna dönsku yfirvalda áttu sér þann aðdraganda að 19. júní 1998 óskaði sýslumaðurinn á Eskifirði bréflega eftir því við tollstjórann í Reykjavík að umræddar kröfur yrðu innheimtar hjá þeim B og C í Danmörku.
Með bréfi, dags. 5. september 1998, kærðu A, B og C innheimtuaðgerðir sýslumannsins á Eskifirði til fjármálaráðuneytisins. Í bréfi þeirra sagði meðal annars svo:
„Hér með sendum við undirrituð kæru til Fjármálaráðuneytis, vegna þess að við teljum að embætti Sýslumanns á Eskifirði hafi ekki starfað samkvæmt gildandi lögum og starfsreglum, um innheimtu á opinberum gjöldum.
Við undirrituð fluttum til Danmerkur haustið 1995 og skiluðum inn skattaskýrslum fyrir það ár eins og lög gera ráð fyrir.
Í ágúst 1996 fær [B] innheimtubréf frá Toll og skatt hér í Danmörku um skattaskuld og taldi hún að um væri að ræða álagningu vegna ársins 1995 og greiddi hún það niður á nokkrum mánuðum, ásamt dönskum innheimtukostnaði, sem nam næstum helming af innheimtuupphæðinni.
Það skal tekið fram hér að, að engu leiti var [B] gefin kostur af embættisins hálfu, á að greiða skattaskuld þessa án afskipta og þar af leiðandi innheimtukostnaðar frá Dönskum innheimtuaðilum.
Þann 23.02 1998 fáum við sendan eftirstöðvalista vegna ársins 1995 frá Sýslumannsembættinu á Eskifirði og samkvæmt honum erum við öll sögð með álögð gjöld ásamt vöxtum og dráttarvöxtum fyrir þessi tekjuár.
Í framhaldi af því hringjum við til Sýslumannsembættisins og tölum við [D] sýslumann og gerum athugasemd við það að hafa aldrei fengið sent hvorki álagningu né innheimtuseðil, við bentum einnig á að allan þann tíma, er embættinu fullkunnugt um heimilisfangið, þar eð embættið hafði árið 1996, sent eftirstöðvar til innheimtu og fengið greitt og að réttur okkar til þess að kæra eða gera athugasemd við álagningu þessa hafi verið af okkur tekinn. Við fáum sendan eftirstöðvalista, sem sýnir eingöngu skuldastöðu, með vöxtum og dráttarvöxtum, en ekki á nokkurn hátt, á hvaða hátt til hans var unnið.
Í byrjun undrar Sýslumaður sig yfir þessu og segir síðan að það sé svo dýrt fyrir okkur að ræða þetta í síma, að hún muni athuga hvernig á þessu standi og senda okkur bréf. Þann 01. apríl s.l. sendir Sýslumaður svo svar. [...].
Þann 16. apríl sendum við öll þrjú, bréf til Sýslumannsembættisins þar eð okkur fannst svarbréf embættisins þann 01. apríl ekki gefa svör við því, sem um var rætt, nefnilega að starfsreglur og lög um innheimtu hafi verið brotnar af embættisins hálfu. [...]
Við viljum taka það fram, að í viðræðum okkar við Sýslumannsembættið á Eskifirði óskuðum við allveg sérstaklega eftir því að umræddar álagningar yrðu ekki sendar til innheimtu hér í Danmörku, án okkar vitundar og án þess að niðurstaða væri komin í málið, þar eð svo mikill kostnaður bættist ofaná.
[...]
Í bréfi stílað til [B], er m.a. komið inn á það að hún skuldi ennþá kr. 7.949,- vegna gjaldársins 1994. Í meðf. Bréfi [...] sést að innheimta á Ísl. kr. 33.700.- er umr. Til Dkr. 2.912.- og hefur sú upphæð verið að fullu greidd skv kvittun frá Toll og Skat [...]
Hvernig stendur á því að Sýslumannsembættið á Eskifirði hefur legið með uppl. um áðurnefndar eftirstöðvar af embættisins hálfu, niðri í skúffu í heilt ár, þar sem vextir og dráttarvextir hafa hlaðist utaná, án þess að gera minnstu tilraun til innheimtu áður en svo var komið.
Hvernig geta eftirstöðvar kr. 1.554.- á einu ári orðið að kr. 7.949.-.?
Síðast í þessu sama bréfi [sýslumannsins á Eskifirði, dags. 20. júlí 1998,], er bent á að enn sé ekki of seint, að greiða beint til Sýslumannsembættisins ?, en þá eru liðnir fjórir dagar frá því [C] og [B] hefur borist í hendur innheimtubréf frá Toll og Skat hér í Danmörku. [...]
Eins og áður hefur komið fram, hefur borist innheimta á talin gjöld [B] og [C], en ekki [A]?, Sýslumannsembættið hefur kannski hugsað sér að það megi vera ofurlítið lengur í vaxta og dráttarvaxta skúffunni, áður en það er sent í innheimtu.?“
Ráðuneytið tók kæru A, B og C til afgreiðslu 21. desember 1998, sbr. bréf ráðuneytisins til A dagsett þann dag. Áður hafði ráðuneytið aflað umsagnar sýslumannsins á Eskifirði um kæruna og fylgdi hún bréfi ráðuneytisins til A. Niðurstaða ráðuneytisins var svohljóðandi:
„Í tilefni af bréfi yðar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumannsins á Eskifirði til þeirra atriði sem fram koma í bréfi yðar. Í meðfylgjandi bréfi sýslumanns dags. 9. nóvember sl., gerir sýslumaður ítarlega grein fyrir innheimtu opinberra gjalda yðar. Auk þess er í bréfi sýslumannsins dags. 20. júlí sl, skýrt frá innheimtuferli máls yðar og hvernig sýslumaður hafi gert ráðstafanir til að koma upplýsingum til fjölskyldu yðar um vangoldin gjöld yðar.
Ráðuneytið telur eftir að hafa kynnt sér gögn málsins að sýslumanninum á Eskifirði hafi verið rétt og skylt að innheimta vangoldin opinber gjöld yðar til ríkissjóðs og að hann hafi farið eftir þeim reglum sem gilda um innheimtu opinberra gjalda á milli Norðurlandanna. Hins vegar kann að vera að innheimtan hafi tekið lengri tíma en æskilegt er, en óhjákvæmilega gengur slík innheimta milli landa ekki eins fljótt fyrir sig og í þeim tilvikum sem gjaldendur eru búsettir hér á landi.
Ráðuneytið skilur bréf yðar þannig að þér óskið eftir að ráðuneytið felli niður áfallinn kostnað og dráttarvexti sem féllu á skuld yðar. Svo sem fram kemur í bréfi sýslumannsins dags. 1. apríl sl., er engin heimild í gildandi lögum til að fella niður áfallna dráttarvexti eða kostnað sem fellur til vegna innheimtu. Ráðuneytið getur því ekki orðið við beiðni yðar um breytingu á ákvörðun sýslumanns.“
Í umsögn sýslumannsins á Eskifirði, dags. 9. nóvember 1998, sem vísað er til í ofangreindu bréfi fjármálaráðuneytisins, sagði meðal annars:
„Innheimta gjalda ofangreindra aðila hefur verið í samræmi við verklagsreglur við innheimtu opinberra gjalda hjá íslenskum gjaldendum, sem flutt hafa til Norðurlandanna, þ.e. Gjaldheimtunni í Reykjavík var falið að annast innheimtu skuldar sem náði ákveðnu hámarki, að því tilskildu að skuldin væri ekki eldri en 2 ára. Samkvæmt þessu var eingöngu óskað eftir innheimtu á gjöldum konunnar á árinu 1996, sem álögð voru 1995, þ.e. gjaldárið 1994.
Embættið hóf í byrjun þessa árs að vinna eftir fyrirmælum sem fram komu í nýrri handbók fjármálaráðuneytisins frá 1997, þar sem það skilyrði er sett fyrir milligöngu Gjaldheimtunnar í Reykjavík af svokallaðri Norðurlandainnheimtu, að embættin hafi áður sent gjaldanda áskorunarbréf. Var fjölskyldunni send bréf þessa efnis í febrúar s.l. vegna ál. 1996 og eftirst. 1995.
Bréf embættisins, dags. 1. apríl 1998, merkt nr. 2, ritað af innheimtufulltrúa, er svar við fyrirspurn [B] í símtali, þar sem farið var fram á niðurfellingu dráttarvaxta og möguleikum á greiðslufyrirkomulagi. Í bréfum hennar og fjölskyldu, dags. 16. s.m., koma eingöngu fram mótmæli gegn innheimtuaðgerðum og báru bréfin með sér að afrit þeirra hefðu verið send Ríkisskattstjóra.
Í tilvitnuðu símtali við undirritaða, er átti sér stað síðari hluta júnímánaðar, var að sjálfsögðu boðist til að kanna innheimtuferil þessa tiltekna máls, því ekki er unnt að svara óundirbúið símleiðis hverju því máli sem til innheimtu er. Konan taldi sig ekki vita hvað hún hefði verið að greiða fyrir milligöngu Gjaldheimtunnar. Af því tilefni voru konunni sendar tölvuútskriftir frá og með 7. júlí 1995, sem sýndu allar hreyfingar skuldar viðkomandi, greiðslur frá vinnuveitanda og innheimtur erlendis frá svo og ítarlegar skýringar um gang málsins, sjá bréf þessa embættis, dags. 20. júlí s.l., merkt nr. 10. Ekki var um óeðlilegan drátt að ræða á afgreiðslu þess erindis, því nokkurn tíma tók að safna saman gögnum úr bókhaldi, auk þess sem innheimtufulltrúi var í sumarleyfi. Þær eftirstöðvar skuldar vegna ál. opinberra gjalda 1995 sem konan vísar til í bréfi sínu til fjármálaráðuneytisins, kr. 7.949.-, munu stafa af millifærslukostnaði hinnar erlendu greiðslu sem var tekin upp í kostnað.“
III.
Í tilefni af kvörtun A, B og C ritaði ég fjármálaráðherra bréf, dags. 27. júlí 1999, og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar þeirra og léti mér í té gögn málsins og þá eftir atvikum eftir að ráðuneytið hefði aflað frekari skýringa og upplýsinga frá embætti sýslumannsins á Eskifirði. Þá óskaði ég þess að ráðuneytið gerði grein fyrir því hvort það teldi að almennar reglur kröfuréttar um greiðsludrátt, sem ættu rót sína að rekja til atvika er varða kröfuhafa, gætu haft þýðingu í máli A, B og C, sbr. meðal annars 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. Svar fjármálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 8. október 1999. Þar segir meðal annars:
„Í tilefni af fyrirspurn yðar óskaði ráðuneytið eftir umsögn sýslumannsins á Eskifirði með bréfi dags. 30. júlí sl. Í meðfylgjandi bréfi sýslumanns til ráðuneytisins dags. 23. september sl., er innheimtuferill málsins ítarlega rakinn. Þar kemur m.a. fram að á haustdögum 1995 og eftir að álagningu var lokið hafi gjaldendur flutt til Danmerkur. Greiðsla hafi borist þann 19. október 1995 upp í álagningu ársins frá vinnuveitanda [B] með afdrætti af launum hennar. Í júní 1996 sendir innheimtumaður síðan beiðni um innheimtu eftirstöðva kröfunnar til gjaldheimtunnar í Reykjavík. Síðasta greiðsla vegna álagningar 1995 berst frá gjaldendum í maí 1997. Að því er varðar gjaldárið 1996 þá var ekki óskað eftir því við gjaldheimtuna í Reykjavík að hún hæfi innheimtuaðgerðir með beiðni um innheimtu í Danmörku. Ástæðan var sú að greiðslur höfðu borist frá gjaldendum, auk þess sem [B] var í sambandi við innheimtumann vegna skulda fjölskyldunnar og höfðu greiðslur jafnframt borist innheimtumanni. Þann 23. febrúar 1998 sendir innheimtumaður gjaldendum formlegt innheimtubréf vegna eftirstöðva skulda frá álagningu ársins 1996 og vegna eftirstöðva 1995. Um nánari skýringar vísast til meðfylgjandi bréfa frá sýslumanninum á Eskifirði.
Ráðuneytið lítur svo á og telur það eðlilega framkvæmd að sýni gjaldendur greiðslugetu og greiðsluvilja þá sé ekki farið í kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir á sama tíma. Þá er alveg ljóst að það er á ábyrgð gjaldenda að tilkynna um eða skrá aðsetur sitt. Fram kemur í bréfi sýslumanns að upplýsingar um aðsetur [A, B] og [C] lágu ekki fyrir fyrr en í júní árið 1996, þannig að fyrir þann tíma var ekki unnt að senda gjaldendum formlegt innheimtubréf. Þá þykir rétt að geta þess að hafi aðsetur verið rétt skráð þá hafa umræddir gjaldendur fengið tilkynningu um þá skatta sem á þá hafa verið lagðir, ásamt skuldastöðu við álagningu 1996 sbr. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með vísan til ofangreinds og meðfylgjandi bréfa frá sýslumanninum á Eskifirði verður ekki séð að um drátt hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns ríkissjóðs við innheimtu kröfunnar. Þvert á móti virðist sýslumaður með samtölum við gjaldendur hafa veitt þeim færi á og hvatt þá til að greiða skuldir sínar áður en farið var í kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir. Þá virðist sem gjaldendum hafa verið ljóst að þau skulduðu opinber gjöld og hvar greiðslustaður væri. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að almennar reglur kröfuréttar um greiðsludrátt geti ekki haft þýðingu í máli [A,B] og [C].“
Í umsögn sýslumannsins á Eskifirði, dags. 23. september 1999, sem ritað var í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu til fjármálaráðuneytisins, sagði meðal annars svo:
„[...]
Ferill viðkomandi máls er rakinn í bréfi embættisins frá 20. júlí 1998, sbr. meðfylgjandi og vísast til þess. Athugasemd aðila lýtur að drætti á innheimtu kröfunnar í Danmörku og skal eftirfarandi tekið fram um verklagsreglur svokallaðrar Norðurlandainnheimtu.
Fram til ársins 1997 voru skuldir vegna opinberra gjalda einstaklinga sem búsettir eru á hinum Norðurlöndunum sendar Gjaldheimtunni í Reykjavík til innheimtu, ef höfuðstóll skuldar nam kr. 20.000.- eða meira, tekist hafði að afla upplýsinga um aðsetur gjaldanda og skemmri tími liðinn frá gjalddaga kröfunnar en 2 ár.
Viðkomandi gjaldendur fluttur til Danmerkur haustið 1995. Síðasta greiðsla frá vinnuveitanda vegna afdráttar launa [B] barst embættinu þann 19. október s.á. Í júní árið 1996 var send beiðni um innheimtu eftirstöðva kröfunnar til Gjaldheimtunnar í Reykjavík. Síðasta greiðsla vegna þeirrar skuldar barst embættinu í maí 1997. Ekki þótti ástæða til að óska eftir innheimtu hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík vegna álagningar 1996 á meðan greiðslur bárust frá gjaldendum auk þess sem gjaldandinn, [B] hringdi nokkrum sinnum erlendis frá vegna skulda fjölskyldunnar og því von til að greiðslur bærust embættinu án milligöngu Gjaldheimtunnar í Reykjavík vegna heildarskuldar.
Í lok árs 1997 var farið að vinna eftir reglum sem fram koma í innheimtuhandbók fjármálaráðuneytisins, útg. s.á., og raktar eru á bls. 17. Þann 23. febrúar 1998 var gjaldendum sent innheimtubréf vegna álagningar árisins 1996 og eftirst. 1995, skuld sem stafaði af gengismun við yfirfærslur, og síðan óskað innheimtu kröfunnar hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík, er sýnt þótti að innheimtutilraunir báru ekki árangur.
Eins og framan er rakið hlutaðist embættið ekki til um að senda gjaldendum, sem búsettir voru á hinum Norðurlöndunum, innheimtubréf, án milligöngu Gjaldheimtunnar í Reykjavík, fyrr en hinar nýju verklagsreglur tóku gildi. Við mat á því hvort dráttur á innheimtuferli telst óeðlilegur verður að hafa hliðsjón af skyldu þeirra einstaklinga sem flytjast erlendis að fylgjast sjálfir með álagningu opinberra gjalda eftir flutning frá landinu. Í mörgum tilvikum liggja engar upplýsingar fyrir um aðsetur hvorki hjá Hagstofu Íslands né hjá skattstofum erlendis, fyrr en eftir all nokkurn tíma frá komu til viðkomandi lands. Þegar af þeirri ástæðu er sýnt að innheimta hjá þessum gjaldendum kann að dragast. Upplýsingar um aðsetur hjá þeim gjaldendum sem hér um ræðir lágu fyrir í júní árið 1996 og var þá óskað eftir innheimtu kröfunnar hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík.“
Með bréfi, dags. 12. október 1999, gaf ég A, B og C kost á því að gera þær athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins sem þau teldu ástæðu til og bárust mér athugasemdir þeirra með bréfi, dags. 19. okt. 1999.
IV.
1.
Kvörtun máls þessa beinist að málsmeðferð sýslumannsins á Eskifirði við innheimtu opinberra gjalda þeirra sem standa að kvörtuninni og synjun fjármálaráðuneytisins á beiðni þeirra um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar af því tilefni.
Með tilliti til þess að það var fyrst eftir viðtöku á innheimtubréfum frá sýslumanninum á Eskifirði, dags. 23. febrúar 1998, sem B, C og A snéru sér til sýslumannsins vegna umræddra innheimtumála, og síðar til fjármálaráðuneytisins af því tilefni, hefur athugun mín á máli þessu beinst að málsmeðferð sýslumannsins á Eskifirði við undirbúning þeirrar innheimtu, meðferð málsins og afstöðu fjármálaráðuneytisins til kröfu þeirra þriggja um niðurfellingu kostnaðar og dráttarvaxta af því tilefni.
Í samræmi við þetta mun ég ekki sérstaklega fjalla um þær athugasemdir B sem lúta að því að henni hafi ekki verið gefinn kostur á því að greiða þá fjárhæð sem hún var krafinn um á árinu 1996 beint til sýslumannsins á Eskifirði eða send aðvörun um að skuldin yrði send til innheimtu hjá dönskum yfirvöldum. Ég vek hins vegar af þessu tilefni athygli á því sem fram kemur í bréfi sýslumannsins á Eskifirði, dags. 9. nóvember 1998, að í kjölfar útgáfu handbókar fjármálaráðuneytisins um innheimtu opinberra gjalda, sem gefin var út í júní 1997, urðu breytingar á framkvæmd þessara mála. Nú eru sendar tilkynningar til skuldara áður en leitað var til yfirvalda í búseturíki um aðstoð við innheimtuna.
2.
Í innheimtubréfi sýslumannsins á Eskifirði, dags. 23. febrúar 1998, til B kemur fram að hún skuldi þá vegna álagðra gjalda árið 1995 samtals 7.494 krónur sem skiptist í höfuðstól 6.678 krónur og vexti 816 krónur. Samkvæmt bréfi sýslumannsins til B, dags. 20. júlí 1998, var þessi skuld þá komin upp í 7.949 krónur. Í bréfi sýslumannsins til fjármálaráðuneytisins, dags. 9. nóvember 1998, kemur fram að þessi skuld muni „stafa af millifærslukostnaði hinnar erlendu greiðslu sem var tekinn upp í kostnað“ en í bréfi sýslumannsins til ráðuneytisins, dags. 23. september 1999, segir að um hafi verið að ræða „skuld sem stafaði af gengismun við yfirfærslur“.
Í kafla II hér að framan var því lýst að í ágústmánuði 1996 var B samkvæmt beiðni íslenskra yfirvalda af hálfu danskra skattyfirvalda krafin um greiðslu á skuld vegna opinberra gjalda sem lögð höfðu verið á hana á Íslandi árið 1995. Við innheimtuna höfðu hin dönsku yfirvöld umreiknað fjárhæð skuldarinnar úr íslenskum krónum í danskar miðað við ákveðið gengi og kröfðu B um greiðslu í dönskum krónum auk tilgreinds innheimtukostnaðar. B greiddi kröfuna ásamt innheimtukostnaðinum með nokkrum greiðslum og fram kemur í upplýsingum sýslumannsins á Eskifirði að síðasta greiðslan hafi borist frá dönskum yfirvöldum 13. maí 1997 og höfðu þá alls borist „upp í kröfu þessa“ 31.357 íslenskar krónur en þegar hin dönsku yfirvöld umreiknuðu skuldina yfir í þá fjárhæð í dönskum krónum sem B var gert að greiða nam hún 33.700 krónur. Mismunurinn var því 2.343 krónur.
Íslensk stjórnvöld leituðu til danskra skattyfirvalda um aðstoð við innheimtu umræddrar kröfu á grundvelli samnings milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989 en með lögum nr. 46/1990 var ríkisstjórn Íslands veitt heimild til að staðfesta samninginn fyrir Íslands hönd. Í 18. gr. samningsins segir að þegar innheimta samkvæmt samningnum hefur átt sér stað í aðildarríki og innheimt fé hefur borist innheimtustjórnvaldi þessa aðildarríkis sé það aðildarríki ábyrgt fyrir hinu innheimta fé gagnvart aðildarríki sem beiðst hafði innheimtu. Ekki eru í samningnum bein ákvæði um fyrirkomulag innheimtunnar að því er varðar t.d. vexti, um ákvörðun á gengi við umreikning á fjárhæðum sem innheimta á, svo og um reikningsskil á innheimtufé en í 1. mgr. 20. gr. er tekið fram að bær stjórnvöld í aðildarríkjunum geti gert samkomulag um slík atriði.
Með auglýsingu nr. 623/1997, um samkomulag samkvæmt 20. gr. samnings milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, kemur fram í 1. mgr. 7. gr. að innheimt sé í gjaldmiðli þess samningsríkis sem beðið er um aðstoð. Viðkomandi stjórnvöld í því skulu, svo fljótt sem auðið er eftir að beiðni berst, umreikna þá fjárhæð sem beiðnin tekur til í eigin gjaldmiðli skv. gengisskráningu seðlabanka þann dag sem beiðnin barst og nær innheimta til þannig umreiknaðrar fjárhæðar. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að verði gengisbreyting á meðan innheimta stendur yfir geti bær stjórnvöld í því samningsríki sem beðið eru um aðstoð ákveðið hvaða gengisskráning skuli notuð. Ofangreind ákvæði koma hins vegar ekki í veg fyrir að greiðsla þeirrar fjárhæðar sem beiðnin tekur til geti farið fram í gjaldmiðli þess samningsríkis sem biður um innheimtu, sbr. 3. mgr. 7. gr. samkomulagsins.
Ég vek athygli á því að gagnvart B kom ekki annað fram af hálfu hinna dönsku yfirvalda en að hún hefði með þeim greiðslum sem hún innti af hendi í dönskum krónum greitt að fullu þá kröfu sem hún hafði verið krafin um vegna eftirstöðva opinberra gjalda ársins 1995 á Íslandi auk þess sem hún greiddi hinum dönsku yfirvöldum umkrafinn innheimtukostnað. Ég bendi jafnframt á að sú afstaða sýslumannsins á Eskifirði að B væri enn í skuld vegna umræddra gjalda eftir viðtöku á síðustu greiðslunni frá hinum danska innheimtuaðila 13. maí 1997 varð ekki tilefni neinnar tilkynningar til B fyrr en henni var sent innheimtubréf, dags. 23. febrúar 1998.
Sú skýring er gefin á þeirri 7.494 króna kröfu sem B var birt með bréfi, dags. 23. febrúar 1998, að þar hafi annað hvort verið um að ræða millifærslukostnað hinnar erlendu greiðslu eða gengismun við yfirfærslur. Það leiddi hins vegar af því fyrirkomulagi sem hin dönsku yfirvöld höfðu á innheimtu þeirrar skuldar sem B var krafin um í ágúst 1996 að fjárhæðin var umreiknuð í danskar krónur miðað við ákveðið gengi og þá fjárhæð greiddi B ásamt þeim innheimtukostnaði sem hún var krafin um af hálfu hinna dönsku yfirvalda.
Með því að íslensk stjórnvöld völdu að hafa þann hátt á að innheimta umrædda skuld B á árinu 1996 með aðstoð danskra skattyfirvalda og miðað við það fyrirkomulag sem haft var á innheimtunni, sem studdist við ofangreind ákvæði 7. gr. samkomulags samkvæmt 20. gr. samnings á milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum frá 7. desember 1989, sbr. auglýsingu nr. 623/1997, verður að telja að greiðslustaður skuldarinnar hafi færst frá sýslumanninum á Eskifirði til skrifstofu Y kommune í Danmörku. Með því að greiða þá greiðslu sem B var krafin um þar í dönskum krónum hafði hún því í samræmi við almennar reglur kröfuréttar innt af hendi fullnaðargreiðslu. Það var því á áhættu þess sem fór með innheimtuna og kröfueigandans ef frekari kostnaður eða gengismunur hlaust af því að koma greiðslunni í hendur kröfueigandans og bera hann nema gerður væri sérstakur fyrirvari um annað af hálfu þess sem kom fram fyrir hönd kröfueigandans. Ég fæ ekki séð að ákvæði laga hafi leitt til þess að heimilt hafi verið að víkja frá þessum almennu reglum í umræddu tilviki. Það er því niðurstaða mín að lög hafi ekki staðið til þess að sýslumanninum á Eskifirði hafi verið heimilt að krefja B um greiðslu á þeim 7.494 krónum sem gert var með innheimtubréfi 23. febrúar 1998.
Ég tek sérstaklega fram í þessu sambandi að í þeim gögnum sem fyrir hendi eru verður ekki séð að B hafi verið sérstaklega kynnt eða um það gerður áskilnaður að ef hún færi þá leið að semja um afborganir á skattskuldinni við hin dönsku skattyfirvöld kynnu gengisbreytingar á danskri krónu gagnvart hinni íslensku að leiða til þess að eftir stæði gengismunur vegna skila dönsku yfirvaldanna á greiðslu hennar til sýslumannsins á Eskifirði.
3.
Með bréfum sýslumannsins á Eskifirði, dags. 23. febrúar 1998, voru A, B og C krafin um greiðslu á vangreiddum opinberum gjöldum vegna gjaldáranna 1995, 1996 og 1997. Var skorað á þau að greiða skuldina og tekið fram að yrði ekki greitt eða samið um greiðslutilhögun fyrir 20. mars s.á. yrði skuldin send til norðurlandainnheimtu.
Af hálfu A, B og C voru strax eftir viðtöku bréfanna gerðar athugasemdir við að þeim hefði ekki verið sendir álagningarseðlar eða áður verið kynnt að þau skulduðu umrædd gjöld. Óskuðu þau af þessu tilefni eftir að umkrafðir dráttarvextir yrðu felldir niður. Því var hafnað af hálfu sýslumannsins á Eskifirði með þeim orðum að ekki væri heimild fyrir hendi til að fella niður vexti. Fjármálaráðuneytið staðfesti með bréfi sínu, dags. 21. desember 1998, þessa afstöðu og sagði að engin heimild væri í gildandi lögum til að fella niður áfallna dráttarvexti eða kostnað sem fellur til vegna innheimtu.
Samkvæmt skýringum sýslumannsins á Eskifirði voru bréfin, dags. 23. febrúar 1998, send í samræmi við breyttar verklagsreglur sem byrjað var að fylgja hjá sýslumannsembættinu í ársbyrjun 1998 en þá var það áskilið að áður en óskað væri eftir aðstoð við innheimtu skattkrafna á Norðurlöndunum þyrfti innheimtumaður hér á landi að senda viðkomandi skuldara áskorun um greiðslu.
Eins og áður sagði voru hin umkröfðu gjöld vegna álagningar á árunum 1995, 1996 og 1997. Hér að framan var sérstaklega fjallað um kröfu á hendur B vegna ársins 1995. Gjöld vegna ársins 1996 féllu í gjalddaga á tímabilinu 1. ágúst til 1. desember það ár. Upplýst er í málinu að B, A og C óskuðu sérstaklega eftir því við skattstofu Austurlands að framtöl þeirra vegna ársins 1996 yrðu send á heimilisfang þeirra í Danmörku og framtölunum var skilað útfylltum til skattstofunnar í mars það ár. Álagningarseðlar voru síðan sendir af hálfu skattstofunnar á síðasta skráða heimilisfang þeirra þriggja á Eskifirði. Þess er hins vegar að geta að 15. júlí 1996 hafði sýslumaðurinn á Eskifirði óskað eftir því við Gjaldheimtuna í Reykjavík að eftirstöðvar álagningar ársins 1995 á B yrðu innheimtar hjá henni í Danmörku og var heimilisfang hennar þar tilgreint í bréfinu. Eigi síðar en þá var til staðar vitneskja hjá sýslumannsembættinu á Eskifirði um heimilisfang B, A og C í Y í Danmörku en tekið skal fram að í bréfi sýslumannsins til fjármálaráðuneytisins, dags. 23. september 1999, segir að upplýsingar um aðsetur þeirra þriggja hafi legið fyrir í júní árið 1996.
Í þessu síðastnefnda bréfi sýslumannsins segir jafnframt að ekki hafi þótt ástæða til að óska eftir innheimtu hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík, þ.e. með svokallaðri norðurlandainnheimtu, vegna álagningar 1996 „á meðan greiðslur bárust frá gjaldendum auk þess sem gjaldandinn, B hringdi nokkrum sinnum erlendis frá vegna skulda fjölskyldunnar og því von til að greiðslur bærust embættinu án milligöngu Gjaldheimtunnar í Reykjavík vegna heildarskuldar“.
Af gögnum málsins verður ráðið að nokkuð ber í milli um frásagnir þeirra þriggja og sýslumannsins um þessi samskipti þar til bréfin, dags. 23. febrúar 1998, bárust þeim til Y. Ég bendi af því tilefni á að ekki liggur annað fyrir af gögnum málsins en B hafi eingöngu haft samskipti við Y kommune vegna þeirrar skuldar sem hún var krafin um í ágúst 1996 og greiðslur vegna þess hafi borist sýslumanninum frá hinum danska innheimtuaðila. Viðtaka þeirra þriggja á bréfunum, dags. 23. febrúar 1998, varð til þess að þau brugðust þegar við með þeim hætti sem áður en lýst.
Áður en ég fjalla frekar um atvik málsins að þessu leyti og hugsanlega þýðingu þeirra vegna kröfunnar um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar tel ég rétt að fjalla almennt um stöðu og skyldur íslenskra stjórnvalda við innheimtu opinberra gjalda hjá gjaldendum sem búsettir eru erlendis.
4.
Samkvæmt 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila 30. júní ár hvert og auk framlagningar álagningarskrár skal senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Þá skal auglýsa lok álagningarinnar og skattstjóri skal senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila sem á hafa verið lagðir skattar.
Í lögum eru ekki sérstök ákvæði um skyldu innheimtumanna ríkissjóðs til að senda gjaldendum tilkynningar um stöðu þeirra eða gjaldfallin gjöld þar til kemur að lögbundnum undanfara aðfarar. Hins vegar er í lögum kveðið á um gjalddaga, úrræði ef vanskil verða, vexti séu opinber gjöld ekki greidd á gjalddaga, skyldur launagreiðenda til að halda eftir að launum gjaldenda og ábyrgð á skattgreiðslum. Í samræmi við 109. gr. laga nr. 75/1981 fara tollstjórar, sýslumenn og sérstakar gjaldheimtur með innheimtu opinberra gjalda og sú starfsemi er hluti af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Minni ég hér á 1. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, en þar segir að sýslumenn fari, hver í sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, meðal annars innheimtu opinberra gjalda að því leyti sem hún er ekki falin öðrum.
Það getur hins vegar farið eftir efni þeirrar ákvörðunar sem taka þarf hverju sinni við framkvæmd innheimtunnar hvort ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi beint um hana en þegar þeim tilvikum sleppir getur reynt á almennar óskráðar grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins og vandaða stjórnsýsluhætti. Við mat á því hvaða kröfur verði að gera að þessu leyti til innheimtumanna ríkissjóðs við framkvæmd starfa þeirra tel ég að hafa verði í huga að greiðslufall opinberra gjalda leiðir að lögum almennt sjálfkrafa til þess að til vanefndaafleiðinga kemur í formi dráttarvaxta, innheimtuaðgerða og kostnaðar sem þeim fylgir. Þannig er sú almenna regla sett í 111. gr. laga nr. 75/1981 að áfrýjun skattákvörðunar eða deila um skattskyldu frestar ekki eindaga skatts né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans. En við mat á því hvaða kröfur gera verði til stjórnsýslu á þessu sviði verður einnig að líta til þess að umrædd innheimta af hálfu hins opinbera beinist að fjölda gjaldenda og málsmeðferðin lítur ekki að málefni einstaks gjaldanda nema sérstakt tilefni verði til þess. Þá verður að gæta þess að undanfari innheimtunnar er lögbundin álagning gjaldanna og þá yfirleitt á grundvelli skattframtals. Það verður því að ætla gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda á hann hverju sinni og afla sér upplýsinga um hana ef hann telur ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og hann vill komast hjá vanefndaafleiðingum.
Mál það sem hér er fjallað um gefur tilefni til þess að huga að því hvaða reglum og sjónarmiðum beri að fylgja um málshraða og tilkynningar af hálfu innheimtumanna ríkissjóðs þegar gjaldandi er búsettur erlendis. Þá er rétt að kanna hvort atvik í þessu máli hafi verið með þeim hætti að þörf sé á að taka afstöðu til þess hvort vikið hafi verið frá slíkum reglum og sjónarmiðum og hverjar geti þá verið afleiðingar þess á réttmæti kröfu ríkissjóðs um dráttarvexti og kostnað.
Um málshraða stjórnsýslumála er fjallað í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt ákvæðinu skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er en í því felst að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Rétt er hér að minna á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að reglan um málshraða er byggð á óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar sem hafi víðtækara gildissvið en umrætt lagaákvæði. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292.) Það verður því að telja að í samræmi við þessa meginreglu sé stjórnvöldum skylt, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórnsýslulögin gilda um, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, eða framkvæmd stjórnsýslunnar almennt, að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu svo fljótt sem unnt er.
Vegna eðlis þeirrar innheimtu sem hér er fjallað um og þeirra íþyngjandi afleiðinga sem vangreiðsla á opinberum gjöldum hefur í för með sér er hér einnig nauðsynlegt að líta til meðalhófsreglunnar sem eins og lýst er í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögunum telst vera ein af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292 og 3294.) Þótt meðalhófsreglan hafi nú verið lögtekin í 12. gr. stjórnsýslulaga leiðir það ekki til þess að stjórnvöld þurfi aðeins að fylgja henni þegar um er að ræða ákvarðanir sem lögin taka til. Meðalhófsreglan er grundvallarregla sem stjórnvöld þurfa almennt að fylgja í störfum sínum.
Ég skil skýringar sýslumannsins á Eskifirði þannig að hafi ekki verið talin þörf á því að tilkynna B, A og C um þau vangreiddu gjöld sem embættið hafði til innheimtu fyrr en með bréfinu 23. febrúar 1998. Hafi það verið vegna þess að embættinu bárust, síðast í maí 1997, greiðslur í kjölfar þess að embættið sendi ákveðna skuld B vegna álagningar 1995 til innheimtu í Danmörku í ágúst 1996. Þá hafi því verið haldið fram að B hafi hringt nokkrum sinnum til embættisins vegna skulda fjölskyldunnar. Ekki kemur fram af hálfu sýslumannsins hvenær þau símtöl áttu að hafa átt sér stað en af hálfu B er því haldið fram að hún hafi ekki átt nein samtöl við sýslumannsembættið fyrr en eftir viðtöku bréfsins frá 23. febrúar 1998. Um það er ekki deilt að embætti sýslumannsins á Eskifirði hafði frá því í júní eða júlí 1996 verið kunnugt um heimilisfang B, A og C í Y í Danmörku.
Því hefur áður verið lýst að eftir viðtöku á síðustu greiðslunni frá Danmörku í maí 1997 vegna innheimtu danskra skattyfirvalda á skuld B vegna álagningar 1995 taldi embættið að B væri enn í skuld við það vegna millifærslukostnaðar eða gengismunar. Samkvæmt því var það afstaða embættisins að innheimta þeirrar skuldar sem B var krafin um hefði ekki verið leidd til lykta. Ég tel að þarna hefði þurft að koma til tilkynning og skýring á umræddri kröfu frá sýslumanninum á Eskifirði til B fyrr en raunin varð.
Áðurnefnd krafa sem B var að greiða síðari hluta árs 1996 og í byrjun árs 1997 laut eins og áður sagði að eftirstöðvum álagningarinnar 1995 og var vegna sérstakra innheimtuaðgerða sýslumannsins. Engar greiðslur bárust hins vegar til embættis sýslumannsins á gjalddögum álagningar 1996 vegna þeirra þriggja og svo var einnig allt árið 1997 vegna umræddrar álagningar. Almenn álagning skatta síðsumars 1997 varð heldur ekki tilefni þess að B, A og C bærist þá í kjölfarið upplýsingar frá sýslumanninum á Eskifirði um skuldir þeirra. Á meðan féllu dráttarvextir á þessar kröfur.
Tilkynning kröfuhafa til skuldara um vanskil og eftir atvikum næstu innheimtuúrræði er til þess fallin að hvetja skuldara til að greiða og þar með að gefa þeim kost á að forða því að frekari dráttarvextir og kostnaður falli á kröfuna. Á grundvelli þeirra sjónarmiða sem ég hef áður rakið um grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um málshraða og meðalhóf tel á að gera verði þá kröfu til innheimtumanna ríkissjóðs að þeir tilkynni gjaldendum með hæfilegu millibili um stöðu þeirra krafna sem þeir hafa til innheimtu og eru komnar í vanskil. Jafnframt leiða sömu sjónarmið til þess að rétt er að innheimtumenn geri gjaldanda sérstaklega viðvart þegar ætla má af atvikum, meðal annars langs tíma, að fyrri tilkynningar hafi ekki borist gjaldanda. Í þessu sambandi verður einnig að gæta þess að ef innheimtumaður telur að samtöl eða önnur óformleg samskipti við gjaldanda leiði til þess að ekki sé þörf á að senda slíkar tilkynningar er rétt að upplýsingum um þau sé haldið til haga.
Þrátt fyrir þær skýringar sem fram hafa komið af hálfu sýslumannsins á Eskifirði, og fjármálaráðuneytið hefur vísað til, tel ég að það hafi dregist lengur en samrýmst getur framangreindum sjónarmiðum að B, A og C hafi af sýslumanninum á Eskifirði verið gerð grein fyrir þeim skuldum á opinberum gjöldum sem hann tilkynnti þeim um með bréfum, dags. 23. febrúar 1998.
5.
Viðtaka þeirra B, A og C á bréfum sýslumannsins á Eskifirði, dags. 23. febrúar 1998, varð þeim tilefni til að hafa símleiðis samband við sýslumanninn. Auk þess að óska eftir skýringum á þeim skuldum sem þau voru krafin um settu þau fram ósk um að umkrafðir dráttarvextir yrðu felldir niður. Sýslumaður svaraði þeim með bréfi, dags. 1. apríl 1998, og sagði að eftir að hafa aflað sér upplýsinga væri ljóst að ekki væri heimild fyrir hendi til að fella niður vexti. Þá var því lýst að sýslumaður væri reiðubúinn til að dreifa greiðslum eitthvað og bent var á hvernig væri hægt að greiða kröfuna beint án milligöngu danskra yfirvalda.
B, A og C voru ekki sátt við þetta svar sýslumannsins og rituðu honum á ný bréf, dags. 16. apríl 1998, og mótmæltu innheimtunni og bentu á að þeim hefði ekki verið sendir álagningarseðlar, innheimtubréf eða kynntur réttur þeirra um kærufrest eða annar réttur samkvæmt skattalögum. Í framhaldi af þessu sendu þau einnig erindi til ríkisskattastjóra sem móttekin voru þar 22. apríl 1998 en þeim var svarað af hálfu ríkisskattstjóra með bréfum, dags. 8. september 1998.
Erindi sitt til sýslumanns frá 16. apríl 1998 ítrekuðu þremenningarnir með bréfum, dags. 25. maí, 13. og 30. júlí 1998. Samkvæmt frásögn þeirra barst þeim 1. ágúst 1998 í pósti svarbréf frá sýslumanni. Efni svarbréfsins er tekið upp í kafla II hér að framan.
Í lok bréfsins kemur fram að þar sem ekki hafi borið neinar greiðslur í tilefni af innheimtubréfi embættisins hafi krafan nú verið send til Gjaldheimtunnar í Reykjavík til frekari innheimtu. Bent er á að enn sé unnt að greiða beint til embættisins með þeim skilmálum sem fram koma í bréfi embættisins frá 1. apríl 1998.
Þess skal getið að af gögnum málsins verður ráðið að með bréfum, dags. 19. júní 1998, óskaði embætti sýslumannsins á Eskifirði eftir því við tollstjórann í Reykjavík að tilgreindar skuldir yrðu innheimtar hjá B, A og C búsettum í Y í Danmörku. B og C voru síðan birtar innheimtutilkynningar, dags. 27. júlí 1998, frá Y kommune vegna ofangreindra krafna sýslumannsins ásamt innheimtukostnaði danskra yfirvalda. Var þeim gert að mæta vegna krafnanna 4. ágúst 1998 á skrifstofu sveitarfélagsins og ef ekki yrði greitt fyrir þann tíma yrði gripið til frekari innheimtuaðgerða.
Í málinu liggja ekki fyrir skýringar af hálfu sýslumannsins á Eskifirði á því hvers vegna bréfum þremenninganna frá 16. apríl 1998 var ekki svarað fyrr en með bréfi, dags. 20. júlí 1998, nema hvað í bréfi sýslumanns til fjármálaráðuneytisins, dags. 9. nóvember 1998, er vísað til þess að B hafi hringt til sýslumanns á síðari hluta júnímánaðar og sett fram athugasemdir. Í framhaldi af því hafi gögn verið tekin saman og svarbréfið sent, dags. 20. júlí 1998, og síðan segir: „Ekki var um óeðlilegan drátt að ræða á afgreiðslu þess erindis, því nokkurn tíma tók að safna saman gögnum úr bókhaldi, auk þess sem innheimtufulltrúi var í sumarleyfi.“
Eftir athugun á gögnum málsins og framkomnum skýringum sýslumannsins á Eskifirði fæ ég ekki séð hvaða ástæður hafi átt að leiða til þess að bréfum þremenninganna, dags. 16. apríl 1998, var ekki svarað af hálfu sýslumanns fyrr en með bréfum, dags. 20. júlí 1998, og þá sérstaklega í ljósi þess að embætti sýslumannsins gat með bréfum, dags. 19. júní 1998, til tollstjórans í Reykjavík gert grein fyrir stöðu skulda þremenninganna og fellt þær í ákveðinn innheimtufarveg.
Þótt efni bréfa þremenninganna, dags. 16. apríl 1998, til sýslumanns fæli ekki í sér ákveðna fyrirspurn eða erindi heldur tilteknar athugasemdir mátti sýslumanni eigi síðar en við viðtöku á ítrekunarbréfi, dags. 25. maí 1998, vera ljóst að þremenningarnir óskuðu eftir svari við bréfi sínu.
Ég ítreka af þessu tilefni þá almennu reglu sem umboðsmaður Alþingis hefur áður vísað til í álitum sínum um að stjórnvöldum beri að svara skriflega og innan hæfilegs tíma þeim erindum sem beint er skriflega til þeirra. Í þessu tilviki lutu þau bréf sem beint var til sýslumannsins að athugasemdum bréfritara vegna innheimtubréfa og svarbréfs sýslumanns við munnlegri fyrirspurn vegna sömu mála. Um var að ræða innheimtu opinberra gjalda sem báru áfallandi dráttarvexti og yfirvofandi voru innheimtuaðgerðir sem leitt gátu til kostnaðar fyrir bréfritara. Í samræmi við áðurnefnda reglu um svör við skriflegum erindum sem beint er til stjórnvalda og nauðsyn þess að svör stjórnvalda séu skýr og glögg tel ég að í tilvikum sem þessum sé nauðsynlegt að innheimtumenn svari sem allra fyrst skriflegum erindum gjaldenda og þá þannig að gjaldendum megi vera ljós staða þeirra með tilliti til innheimtuaðgerða.
Ég tel að í þessu tilviki hafi dregist lengur en samrýmist framangreindum sjónarmiðum hjá sýslumanninum á Eskifirði að svara bréfum þremenninganna frá 16. apríl 1998. Hafi efni svarbréfs sýslumannsins til B, dags. 1. apríl 1998, og framboðnir möguleikar á greiðslum þar „án milligöngu gjaldheimtunnar ytra“ átt að gefa embættinu sérstakt tilefni til að tilkynna þremenningunum um þá ákvörðun að óska bréflega 19. júní 1998 eftir því að skuldir þeirra yrðu innheimtar í Danmörku fyrir milligöngu danskra yfirvalda.
6.
Með afgreiðslu fjármálaráðuneytisins 21. desember 1998 var synjað beiðni A, B og C um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar vegna málsmeðferðar sýslumannsins á Eskifirði við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda þeirra. Tekið var fram í bréfi ráðuneytisins að það kynni að vera að „innheimtan hafi tekið lengri tíma en æskilegt“ hefði verið en „óhjákvæmilega [gengi] slík innheimta milli landa ekki eins fljótt fyrir sig og í þeim tilvikum sem gjaldendur eru búsettir hér á landi“. Síðan sagði í bréfinu að „engin heimild [væri] í gildandi lögum til að fella niður áfallna dráttarvexti eða kostnað sem [félli] til vegna innheimtu“ og gæti ráðuneytið því ekki orðið við beiðni þess efnis.
Við athugun á máli, er lauk með áliti mínu frá 2. desember 1999 í máli nr. 1924/1996, ritaði ég fjármálaráðherra bréf, dags. 19. mars 1999, og óskaði meðal annars eftir því að ráðuneytið veitti upplýsingar um þær reglur og sjónarmið sem lægju til grundvallar ákvörðunum ráðuneytisins um að fella niður eða lækka dráttarvexti þegar um vangreidd opinber gjöld væri að ræða. Þá óskaði ég eftir því að ráðuneytið skýrði með hvaða hætti það teldi að beita bæri almennum reglum kröfuréttar þegar atvik sem varða kröfuhafa valda greiðsludrætti af hálfu skuldara. Mér bárust svar og skýringar ráðuneytisins með bréfi þess 2. júlí 1999. Í bréfinu sagði meðal annars að ráðuneytið hefði sett sér þá „viðmiðunarreglu að fella ekki niður dráttarvexti nema unnt [væri] að sýna fram á að um mistök [hefði verið] að ræða af hálfu innheimtumanns eða skattstjóra sem hafi leitt til þess að dráttarvextir [hefðu] fallið á skattkröfu“. Þá kemur fram í svarbréfi ráðuneytisins að ef um „sannanlegan viðtökudrátt [væri] að ræða af hálfu kröfuhafa [teldi] ráðuneytið að beita [bæri] almennum reglum kröfuréttar. Þannig [teldi] ráðuneytið að ef greiðsludrátt [mætti] rekja til atvika sem [vörðuðu] kröfuhafa þá [bæri] ekki að greiða dráttarvexti“.
Ég fæ samkvæmt framangreindu ekki annað séð en að fjármálaráðuneytið hafi lagt til grundvallar í framkvæmd að heimilt sé að fella niður dráttarvexti vegna vangoldinna skattskulda vegna mistaka skattyfirvalda eða innheimtumanna ríkissjóðs enda þótt slíka heimild sé ekki að finna berum orðum í lögum. Þá hljóta áþekk sjónarmið einnig að koma til athugunar þegar gerð er krafa um niðurfellingu áfallins kostnaðar við innheimtuaðgerðir af hálfu hins opinbera. Með hliðsjón af þessu tel ég að tilvitnaðar forsendur úr afgreiðslu ráðuneytisins í þessu máli 21. desember 1998 séu a.m.k. full afdráttarlausar þegar tekið er tillit til efnis þeirrar reglu sem ráðuneytið hefur lagt til grundvallar í störfum sínum og rakið er í ofangreindu áliti mínu frá 2. desember 1999.
Hér að framan hef ég í fyrsta lagi gert grein fyrir niðurstöðum mínum um þá skuld sem B var krafinn um samkvæmt innheimtutilkynningu, dags. 23. febrúar 1998, vegna millifærslukostnaðar eða gengismunar við skil á greiðslum sem hún innti af hendi til danskra skattyfirvalda að kröfu íslenskra stjórnvalda. Í öðru lagi hef ég fjallað um þann tíma sem leið þar til B, A og C var með innheimtutilkynningum, dags. 23. febrúar 1998, af hálfu sýslumannsins á Eskifirði gerð grein fyrir kröfum sem hann hafði til innheimtu á þau, þ.m.t. vegna álagningar opinberra gjalda árið 1996. Þá hef ég hér að framan í þriðja lagi lýst sjónarmiðum vegna þess dráttar sem varð á því að sýslumaðurinn á Eskifirði svaraði fyrirspurnum og bréfum sem B, A og C sendu honum í kjölfar innheimtutilkynninganna, dags. 23. febrúar 1998. Ég minni af þessu tilefni á að í ofangreindu bréfi fjármálaráðuneytisins til mín, dags. 2. júlí 1999, vegna athugunar minnar á máli því sem lauk með áliti mínu 2. desember 1999, kom fram auk þess sem að framan greinir að ef um sannanlegan viðtökudrátt væri að ræða af hálfu kröfuhafa teldi ráðuneytið að beita bæri almennum reglum kröfuréttar. Þannig teldi ráðuneytið að ef greiðsludrátt mætti rekja til atvika sem vörðuðu kröfuhafa þá bæri ekki að greiða dráttarvexti. Í ljósi þessa tel ég að ráðuneytinu hafi, að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða um annmarka á málsmeðferð sýslumannsins á Eskifirði sem A, B og C báru fram til stuðnings kæru sinni til ráðuneytisins, borið að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti ofangreind viðmiðunarregla ráðuneytisins, og áhrif almennra reglna kröfuréttar um greiðsludrátt sem á rót sína rekja til atvika er varða kröfuhafa, sbr. 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, hafi átt við máli þeirra.
Þar sem ráðuneytið tók ekki afstöðu til framangreindra atriða í afgreiðslu sinni 21. desember 1998, en byggði alfarið á því að engin heimild væri til niðurfellingar dráttarvaxta og kostnaðar í lögum, tel ég rétt samkvæmt framangreindu að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál A, B og C til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá þeim. Við þá athugun taki ráðuneytið afstöðu til atvika málsins á grundvelli ofangreindrar viðmiðunarreglu þess um niðurfellingu dráttarvaxta vegna mistaka innheimtumanna eða skattyfirvalda og leysi úr málinu með hliðsjón af þeim sjónarmiðum mínum sem ég hef lýst í áliti þessu.
7.
Með bréfi, dags. 5. september 1998, sendu A, B og C „kæru“ til fjármálaráðuneytisins þar sem þau töldu að sýslumaðurinn á Eskifirði hefði „ekki starfað samkvæmt gildandi lögum og starfsreglum, um innheimtu á opinberum gjöldum“. Ráðuneytið afgreiddi kæru þeirra með bréfi, dags. 21. desember 1998, eins og áður greinir.
Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er hvorki vikið að formi né efni stjórnsýslukæru en í athugasemdum við frumvarp það er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að kæra getur verið jafnt munnleg sem skrifleg og almennt er gengið út frá því að nægjanlegt sé að aðili tjái æðra stjórnvaldi að hann sé óánægður með ákvörðunina. Æðra stjórnvaldi beri þá á grundvelli 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga að leiðbeina aðila og ganga úr skugga um hvort hann óski eftir að kæra ákvörðunina. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3306)
Ofangreint erindi A, B og C var stjórnsýslukæra og bar því fjármálaráðuneytinu að haga meðferð málsins í samræmi við lagareglur um meðferð mála á kærustigi, sbr. 30. og 31. gr. stjórnsýslulaga. Afgreiðsla fjármálaráðuneytisins uppfyllir ekki kröfur þessara ákvæða stjórnsýslulaga til forms úrskurða æðra stjórnvalds í kærumálum.
VI.
Niðurstaða
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að lög hafi ekki staðið til þess að sýslumanninum á Eskifirði hafi verið heimilt að krefja B um greiðslu á þeim kr. 7.494 sem gert var með innheimtubréfi 23. febrúar 1998. Þá er það niðurstaða mín að það hafi dregist lengur en samrýmst getur grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um málshraða og meðalhóf að B, A og C hafi af sýslumanninum á Eskifirði verið gerð grein fyrir þeim skuldum á opinberum gjöldum sem hann tilkynnti þeim um með bréfum, dags. 23. febrúar 1998. Þá tel ég jafnframt að það hafi dregist lengur hjá sýslumanninum á Eskifirði en samrýmist framangreindum sjónarmiðum að svara bréfum þremenninganna frá 16. apríl 1998. Þá tel ég að efni svarbréfs sýslumannsins til B, dags. 1. apríl 1998, og frambornir möguleikar á greiðslum þar „án milligöngu gjaldheimtunnar ytra“ hafi átt að gefa embættinu sérstakt tilefni til að tilkynna þremenningunum um þá ákvörðun að óska bréflega 19. júní 1998 eftir því að skuldir þeirra yrðu innheimtar í Danmörku fyrir milligöngu danskra yfirvalda.
Þá er það niðurstaða mín að fjármálaráðuneytinu hafi borið að taka afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti framkvæmd skattyfirvalda eða innheimtumanna ríkissjóðs um að heimilt væri að fella niður dráttarvexti og kostnað af vangreiddum opinberum gjöldum vegna mistaka skattyfirvalda ætti við í máli A, B og C. Með því að það var ekki gert beini ég þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að það taki mál þeirra til endurskoðunar, komi fram ósk þess efnis frá þeim, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í þessu áliti.
VII.
Í tilefni af áliti mínu leituðu A, B og C til fjármálaráðuneytisins og óskuðu eftir endurupptöku málsins og að þeim yrði greiddur kostnaður sem þau hefðu haft af meðferð málsins. Ráðuneytið afgreiddi málið með bréfi, dags. 23. apríl 2001. Í bréfinu segir meðal annars svo:
„Ráðuneytið hefur ákveðið í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis að endurgreiða yður og fjölskyldu yðar áfallna dráttarvexti vegna álagningar ársins 1996 þar sem ósannað er samkvæmt áliti umboðsmanns að þér hafið fengið vitneskju um skuldir vegna þeirrar álagningar fyrr en með bréfi sýslumannsins á Eskifirði dags. 23. febrúar 1998.
[…]
Samkvæmt framangreindu hafa þau [B] og [C] ekki lokið við greiðslu á höfuðstól skuldarinnar vegna álagningar 1996 þrátt fyrir ósk íslenskra stjórnvalda um Norðurlandainnheimtu og innheimtubréf frá sýslumanninum á Eskifirði.
Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á Eskifirði hefur verið sótt um afskrift á eftirstöðvum skulda [B] og [C]. Koma þær fjárhæðir til frádráttar endurgreiddum dráttarvöxtum sbr. eftirfarandi: “
B og C leituðu til mín 21. maí 2001 og kvörtuðu yfir afgreiðslu fjármálaráðuneytisins í tilefni af erindi þeirra í kjölfar álits míns. Töldu þau einkum að það væri rangt sem ráðuneytið byggði á í bréfi sínu að þau hefðu skuldað eftirstöðvar álagningar 1996. Þau hefðu í höndum staðfestingu danskra yfirvalda um að þau hefðu að fullu greitt þær fjárhæðir sem innheimta átti hjá þeim vegna þeirrar álagningar. Í tilefni af þessari kvörtun óskaði ég eftir frekari upplýsingum og skýringum frá fjármálaráðuneytinu. Þannig spurðist ég fyrst fyrir um það með bréfi, dags. 19. júní 2001, hvort þær athugasemdir sem fram kæmu í kvörtuninni frá 21. maí 2001 gæfu ráðuneytinu tilefni til að endurskoða ofangreinda afgreiðslu. Í svari ráðuneytisins sem barst mér 10. september 2001 kom fram sú afstaða þess að greiðslur frá B og C sem borist hefðu frá Danmörku hefði verið ráðstafað sem innborgun á skuldir B og C í samræmi við reglur um innheimtu opinberra gjalda. Ætti þetta við um greiðslur vegna álagningar 1996 og þau B og C ættu því ekki rétt á frekari endurgreiðslum. Að síðustu var hins vegar tekið fram að gengismunur sem B hefði verið gert að greiða og um er fjallað í álitinu virtist hafa fallið niður við uppgjör á vöxtum og ráðuneytið ætlaði því að endurgreiða þá fjárhæð hans ásamt vöxtum.
Í kjölfar þessa svars ráðuneytisins óskaði ég eftir gögnum um færslur á innborgun frá B og C vegna gjaldársins 1996. Við athugun þessara gagna kom í ljós að greiðslur sem B og C inntu af hendi hjá Y kommune í Danmörku voru ekki færðar sem innborgun hjá innheimtumanni ríkissjóðs hér á landi á sama degi heldur var þar nokkur munur á og dæmi voru um að fjórir mánuðir liðu frá því greitt var í Danmörku og þar til greiðsla var bókuð hér á landi. Þá kom í ljós að ekki var samræmi í þeim upplýsingum sem fram höfðu komið í bréfi ráðuneytisins um eftirstöðvar krafna B og C og þess sem fram kom í hreyfingalistum frá innheimtumanni ríkissjóðs. Ég ritaði því ráðuneytinu bréf 31. október 2001 og óskaði eftir upplýsingum af þessu tilefni. Svar barst mér með bréfi, dags. 17. desember 2001, og þar kom meðal annars fram að færa hefði átt innborganirnar í Danmörku til greiðslu samdægurs hér á landi og því væri ljóst að ekki hefði í öllum tilvikum verið staðið rétt að færslu innborgana í þessu máli. Fram kom að gerðar hefðu verið ákveðnar leiðréttingar af þessu tilefni og tilteknar fjárhæðir yrðu endurgreiddar B og C. Þá fylgdu með bréfi ráðuneytisins yfirlit sem tekin höfðu verið saman um færslur innborgana á skattaskuldir B og C.
Eftir að þetta síðasta svar ráðuneytisins barst mér leitaði ég eftir afstöðu B og C til stöðu málsins. Þótt þau teldu enn að sú aðferð sem fjármálaráðuneytið hefði notað til að komast að niðurstöðu um hvaða fjárhæð það endurgreiddi þeim væri ekki ásættanleg hefðu þau ekki uppi sérstakar óskir um framhald málsins. Ég ákvað því að aðhafast ekki frekar vegna þessa máls og tók fram í bréfi sem ég sendi fjármálaráðuneytinu 26. júní 2002 að ég hefði þó ekki tekið neina afstöðu til þeirrar efnislegu úrlausnar sem mál B og C hefði fengið hjá ráðuneytinu eftir að ég lét uppi álit mitt 7. febrúar 2001. Síðan sagði í bréfi mínu til fjármálaráðuneytisins:
„Hins vegar hefur þetta mál og fleiri erindi sem mér hafa borist, þar sem Íslendingar búsettir á hinum Norðurlöndunum hafa lýst gangi mála við meðferð á greiðslum sem þeir hafa greitt erlendis á grundvelli hinnar svonefndu Norðurlandainnheimtu, orðið mér tilefni til að taka það sérstaklega til athugunar hvort tilefni sé til þess að ég taki ákveðin atriði við þessa framkvæmd til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég hef þá meðal annars í huga þær verklagsreglur sem innheimtumenn ríkissjóðs fylgja við ráðstöfun á greiðslum sem berast vegna opinberra gjalda. Þá tel ég rétt af þessu tilefni að taka til nánari athugunar hvað gert hefur verið af hálfu stjórnvalda í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis [í máli nr. 2143/1997] frá 27. janúar 1998 til að einfalda og bæta þau greiðsluyfirlit sem gjaldendum opinberra gjalda eru látin í té og þá meðal annars með tilliti til þess að þeir geti betur gert sér grein fyrir um hvaða gjöld sé að ræða, ráðstöfun innborgana og útreikning vaxta, bæði dráttarvaxta vegna vangreiddra gjalda og inneigna sem kunna að hafa myndast. Áður en ég tek endanlega ákvörðun um slíka frumkvæðisathugun, og þá nánar að hverju hún muni beinast, tel ég rétt að eiga viðræður við fjármálaráðuneytið og afla ákveðinna upplýsinga um starfshætti innheimtumanna ríkissjóðs.“