A kvartaði yfir ákvörðun framkvæmdanefndar um búvörusamninga um að synja umsókn hans um undanþágu frá útflutningsskyldu sauðfjárafurða og ákvörðun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um að reikna honum aukna útflutningsskyldu sauðfjárafurða en báðar þessar ákvarðanir voru staðfestar með úrskurði landbúnaðarráðuneytisins. Þá kvartaði A yfir málsmeðferð framangreindra stjórnvalda vegna þessara mála.
Umboðsmaður rakti 29. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem fjallaði um útflutningsskyldu sauðfjárafurða og 2. gr. reglugerðar nr. 422/1996, um útflutning á kindakjöti þar sem fjallað var um undanþágur frá útflutningsskyldu. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að sú ráðstöfun löggjafans að binda undanþágu frá útflutningsskyldu við það að fjárfjöldi væri undir tilteknu hlutfalli af ærgildum greiðslumarks hafi verið byggð á þeirri forsendu að heildarfjárfjöldi á því lögbýli er greiðslumarkmið tilheyrði væri lagður til grundvallar þeim útreikningi enda greiðslumark skilgreint sem réttur lögbýlis. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda við þá niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins að við ákvörðun þess hvort skilyrði um undanþágu frá útflutningsskyldu hafi verið uppfyllt hafi orðið að leggja til grundvallar heildarfjölda þess fjár sem var á fóðrum á lögbýlinu X.
Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla um þá tilhögun að framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi verið fengið vald til að framfylgja þeim reglum er landbúnaðarráðherra hafði sett um leyfilegar undanþágur frá útflutningsskyldu. Hann taldi hins vegar að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að kveða skýrt á um það í reglugerð nr. 422/1996, um útflutning á kindakjöti, hver ætti að vera aðild nefndarinnar að umfjöllun og ákvarðanatöku um þær undanþágur sem til greina gátu komið samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.
Umboðsmaður taldi að framleiðendur hefðu verulega hagsmuni af því að fá upplýsingar um fyrirsjáanlegan drátt á afgreiðslu umsókna um undanþágur frá útflutningsskyldu sauðfjárafurða. Fyrirmæli laga og ákvarðanir um framkvæmd útflutnings á kindakjöti fælu í sér inngrip í atvinnufrelsi manna og því brýnt að allar upplýsingar og ákvarðanir stjórnvalda sem beinast að framleiðendum og hafa þýðingu við skipulag atvinnureksturs þeirra liggi fyrir eins fljótt og kostur er. Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að dregist hefði lengur en samræmst gæti málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að svara umsókn A eða gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kynna honum að gögn úr talningu sauðfjár leiddu til þess að hann uppfyllti ekki lengur þau skilyrði til undanþágunnar sem áttu að vera uppfyllt samkvæmt umsókn hans. Auk þess taldi umboðsmaður að borið hefði að veita A færi á að tjá sig um upplýsingar sem aflað hefði verið og voru honum í óhag, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður ekki hægt að útiloka að A hefði orðið fyrir tjóni vegna þess hve seint hann fékk upplýsingar um afdrif umsóknar sinnar. Af þeim sökum beindi hann þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að það tæki til skoðunar, ef ósk kæmi fram um það frá A, hvort og þá með hvaða hætti væri hægt rétta hlut hans vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar hans.
Þá taldi umboðsmaður að samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga hefði framkvæmdanefnd búvörusamninga í stað búnaðarsambands Strandamanna borið að taka afstöðu til umsókna um undanþágu frá útflutningsskyldu og tilkynna hlutaðeigandi aðilum um ákvörðunina. Benti umboðsmaður á að tilkynningu búnaðarsambandsins til A fylgdu hvorki leiðbeiningar um heimild A til að fá ákvörðun rökstudda né um kæruheimild til landbúnaðarráðuneytisins.
Umboðsmaður taldi að framkvæmd landbúnaðarráðuneytisins á ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 422/1996 um aukna útflutningsskyldu hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og verið í samræmi við tilgang laga nr. 124/1995, um breytingu á lögum nr. 99/1993. Því væri ekki tilefni til athugasemda við þennan þátt niðurstöðu ráðuneytisins í máli A. Þó taldi umboðsmaður að ákvæði reglugerðarinnar um undanþágu frá aukinni útflutningsskyldu hafi ekki verið svo skýr sem æskilegt væri. Loks taldi umboðsmaður með hliðsjón af 18. gr. stjórnsýslulaga að frestur sem framleiðsluráð landbúnaðarins veitti A til að koma að athugasemdum við bréf þar sem honum var tilkynnt um fyrirhugaða útflutningsskyldu hafi verið of skammur.