Málsmeðferð stjórnvalda. Samskipti stjórnvalda við einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku. Leiðbeiningarskylda. Rannsóknarreglan. Andmælaréttur. Birting. Stjórnvaldsákvörðun. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 9938/2018)

Umboðsmaður Alþingis hefur unnið að frumkvæðisathugun vegna stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Tildrög athugunarinnar voru m.a. kvartanir og ábendingar vegna samskipta stjórnvalda við einstaklinga þar sem ekki varð séð að í öllum tilvikum hefði verið með nægjanlega góðum hætti hugað að því að þeir t.d. skildu úrlausnir sem þeir fengu frá stjórnvöldum og fengju viðeigandi leiðbeiningar. Umboðsmaður ákvað af þessu tilefni að taka tiltekin atriði tengd þessum málum til skoðunar að eigin frumkvæði. Var af því tilefni óskað eftir nánari upplýsingum frá 29 stjórnvöldum þar sem við úrlausn mála mætti ætla að reynt hefði á samskipti við einstaklinga sem ekki skilja íslensku. Umboðsmaður lauk málinu með áliti þar sem fram kemur að markmið umfjöllunar þess sé einkum að draga með almennum hætti fram stöðu þeirra einstaklinga sem ekki skilja íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld hér á landi með hliðsjón af núgildandi lagaumhverfi og eftir atvikum framkvæmd og afstöðu stjórnvalda á þessu sviði, eins og hún birtist í svörum þeirra til umboðsmanns.

Í áliti umboðsmanns er bent á að löggjöf um starfshætti stjórnsýslunnar síðustu rúma tvo áratugi hafi verið á aukið réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld sem og aukið vægi mannréttindareglna. Mikilvægt væri að þeir ættu þess kost að geta kynnt sér þær reglur sem gilda um þau málefni sem mættu þeim í daglegu lífi og átt í samskiptum við stjórnvöld á tungumáli sem þeir skilja. Miklar breytingar hefðu orðið á íbúasamsetningu samfélagsins á undanförnum árum með fjölgun útlendinga sem hér búa og starfa sem hafi leitt til þess að aukinn fjöldi þeirra sem á í samskiptum við stjórnsýsluna skilji ekki íslensku. Af svörum stjórnvalda til umboðsmanns mætti í samræmi við þetta ráða að þörf fyrir þýðingar og túlkun hefði aukist verulega á síðustu árum.  Í mörgum tilvikum yrði ekki annað séð en að stjórnvöld leituðust almennt við að tryggja að einstaklingar sem ekki skilja íslensku fengju úrlausn erinda sinna og veittu viðeigandi aðstoð. Ætti það t.d. við í tilvikum stærri sveitarfélaga á sviði velferðar- og skólaþjónustu. Hins vegar væri ljóst að lagaleg umgjörð þessara mála og framkvæmd stjórnvalda á reglum sem gilda um meðferð mála í stjórnsýslunni tryggðu almennt ekki að þeir sem ekki skilja íslensku gætu gætt réttinda sinna með fullnægjandi hætti í samskiptum við stjórnvöld.

Umboðsmaður tók fram að athugun hans hefði varpað ljósi á að skyldur stjórnvalda til að eiga í samskiptum við borgarana á öðru tungumáli en íslensku byggja, fyrir utan einstök sérlagaákvæði, á almennum og matskenndum lagagrundvelli. Við athugunina hafi komið í ljós að stjórnvöld taka á þessum málum með misjöfnum hætti og lítils samræmis gæti milli stjórnvalda þrátt fyrir að sambærilegar ákvarðanir kunni að vera undir gagnvart borgurunum. Staða þeirra til að átta sig á hvaða framkvæmd einstök stjórnvöld viðhafa í þessu efni væri því erfið. Umboðsmaður benti jafnframt á að ekki væri séð að stjórnvöld hér á landi hafi beitt reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttarins með þeim hætti að þær veiti borgurunum réttindi að þessu leyti í samræmi við þá túlkun sem fylgt hefur verið í norrænum rétti. Þá ályktun væri jafnframt hægt að draga af svörum stjórnvalda og þeirri almennu athugun sem umboðsmaður hefði gert á stöðu og framkvæmd þessara mála að stjórnvöld og starfsmenn þeirra væru í ákveðinni óvissu um hvaða skyldur hvíli á þeim um notkun tungumála í samskiptum við þá sem ekki tala eða skilja íslensku þegar sleppir sérákvæðum í lögum um þær skyldur. Þá skorti verulega á að framkvæmd stjórnvalda væri samræmd eða gert ráð fyrir kostnaði við slík mál í fjárveitingum þeirra. Þessa óvissu mætti m.a. rekja til þess hvernig Alþingi hafi hagað almennri lagasetningu um þessi mál með stefnuviðmiðum eða málstefnum sem skapi óvissu um réttarstöðu borgaranna að þessu leyti.

Í samræmi við þau lagalegu álitaefni sem rakin eru í álitinu beindi umboðsmaður ábendingum og tilmælum til Alþingis og ráðherra að tekin yrði afstaða til þess með skýrari hætti en nú er gert að hvaða marki eigi að mæta þörfum þeirra sem ekki skilja íslensku í samskiptum þeirra við íslensk stjórnvöld og hvaða kröfur væru gerðar til málsmeðferðar stjórnvalda að þessu leyti. Þá þyrfti málsmeðferð stjórnvalda að taka mið af því að tryggja réttindi borgaranna sem væru undirliggjandi hverju sinni. Stjórnvöld yrðu því í samskiptum við þá einstaklinga sem ekki skilja íslensku að hafa tiltekin sjónarmið í huga í samræmi við þær skyldur sem má leiða af gildandi rétti. Skýrari afstöðu af hálfu löggjafans, og eftir atvikum stjórnvalda, væri þörf stæði vilji til þess að tryggja að einstaklingar sem ekki skilja íslensku fengju fullnægjandi aðstoð og þjónustu þegar þeir leiti til stjórnvalda og þá til að tryggja að málsmeðferðarreglum væri fylgt og þau uppfylltu þær skyldur sem á þeim hvíla. Álitið gæfi fyrst og fremst tilefni til að hugað yrði að úrbótum í þessum efnum stæði vilji til þess af hálfu stjórnvalda að bæta réttarstöðu þessa hóps og tryggja réttaröryggi þeirra að því marki sem stjórnvöld gætu haft frumkvæði að slíku. Alþingi þyrfti síðan að koma að lagasetningu um þessi mál auk þess sem í framkvæmd skorti verulega á stefnumótun og samvinnu milli stjórnvalda í þessum málaflokki.

Umboðsmaður sendi öllum ráðherrum álitið með það í huga að þeir tækju þau tilmæli og ábendingar sem settar væru fram í álitinu til umfjöllunar að því marki sem þær ættu við um þau málefnasvið sem þeir fara með. Álitið var jafnframt sent þeim 29 stjórnvöldum sem óskað var eftir upplýsingum frá í tilefni af athuguninni. Þá var álitið sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga til upplýsingar þar sem viðfangsefni þess tekur til stjórnsýslu sveitarfélaga og með þeirri ósk að það yrði kynnt sveitarstjórnum. Loks var álitið sent forseta Alþingis vegna þeirra lagalegu atriða sem fjallað er um í álitinu. Tók umboðsmaður fram að hann myndi áfram fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum stjórnvalda og Alþingis í kjölfar álitsins sem gæti þá orðið tilefni þess að hann tæki tiltekin afmörkuð atriði til frekari skoðunar á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar.

   

Álit umboðsmanns Alþingis

Fylgiskjal með áliti umboðsmanns Alþingis

   

Viðbrögð stjórnvalda

Í bréfi frá forsætisráðuneytinu kom fram að ábendingar í álitinu væru til skoðunar. Þar væri m.a. hugað að því hvernig birtingu laga og annarra upplýsinga í þessum efnum væri háttað hjá ráðuneytum með það fyrir augum að bæta úr þar sem við á. Jafnframt væri stefnt að því að vinna reglur um rétt fólks af erlendum uppruna til samskipta við stjórnarráðið á annarri tungu en íslensku.

Öllum ráðuneytum yrði sent bréf á næstunni þar athygli væri vakin á álitinu og því beint til þeirra að haga málsmeðferð í samræmi við ábendingar umboðsmanns. Þá verði álitið haft til hliðsjónar við undirbúning fræðslu sem fram fari á vegum ráðuneytisins á vettvangi Stjórnarráðsskólans. Þar fari m.a. fram fræðsla í stjórnsýslurétti fyrir starfsfólk stjórnarráðsins.


Í bréfi frá dómsmálaráðuneytinu kom meðal annars fram að farið hafi verið yfir álitið. Sjónarmiðin verði höfð í huga og metið hverju sinni hvort þörf sé á aðstoð túlks eða þýðingu á skjölum með tilliti til þeirra hagsmuna sem séu undir hverju sinni og þá hversu langt skyldur stjórnvalda nái hverju sinni sem og að þeir sem ekki skilji íslensku skilji efni þeirra svara og ákvarðana sem þeir fái.

Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að ef velta eigi þeim kostnaði sem hljótist af túlkun og þýðingum alfarið yfir á stjórnvöld fylgi því mikill kostnaður fyrir mörg þeirra. Slíka ákvörðun þyrfti Alþingi að taka að undangengnu kostnaðarmati. Ráðuneytið teldi óhjákvæmilegt að benda á að mörg stjórnvöld væru einfaldlega ekki í aðstöðu til að breyta framkvæmd þannig að þau útveguðu ávallt túlk eða þýðanda á sinn kostnað í samskiptum við borgarana, á grundvelli frómra ábendinga eingöngu.


Í bréfi frá félagsmálaráðuneytinu kom fram að m.a. hefði verið fjallað um álit umboðsmanns hjá innflytjendaráði enda á meðal verkefna þess að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og stuðla að samhæfingu og samráði á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar. Unnið sé að drögum að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og fyrirhugað að kynna þau fyrir almenningi í samráðsgátt stjórnvalda. Drögin miði m.a. að því að innan samfélagsstoðar framkvæmdaáætlunarinnar verði aðgerðir sem miði sérstaklega að því að styðja einstaklinga sem ekki séu mæltir á íslensku í samskiptum við stjórnvöld. Þar verði m.a. litið til álits umboðsmanns. Markmið aðgerðanna sé m.a. að stuðla að því að leyst verði úr þeirri óvissu sem lýst hafi verið í álitinu um að réttur þessara einstaklinga sé ekki nægilega skýr í íslenskum lögum.

Þá sé unnið að margvíslegum verkefnum innan ráðuneytisins sem styðji við einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku lúta að umfjöllunarefni álitsins. Þar megi sérstaklega nefna að Ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur hafi tekið til starfa í febrúar 2021 sem sé reynsluverkefni til níu mánaða. Hennar hlutverk sé að veita innflytjendum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi helstu samskipti við bæði stofnanir og sveitarfélög. Þar starfi fimm ráðgjafar og hægt sé að fá ráðgjöf á átta tungumálum og boðið sé upp á símatúlkun sé þess óskað. Ráðgjafarstofan vinni náið með Fjölmenningarsetri, Vinnumálastofnun og öðrum stofnunum og sveitarfélögum. Þá verði boðið upp á lögfræðiráðgjöf og öll þjónustan sé að kostnaðarlausu.


Í bréfi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kom fram að við þróun á nýjum vef Ísland.is sem var opnaður í október 2020 hafi kerfisuppbygging verið miðuð við að hægt væri að birta allar upplýsingar á fleiru en einu tungumáli. Þá hafi ný útgáfa af Mínum síðum verið þróuð þar sem notendum bjóðist að að velja milli íslensks og ensks viðmóts við innskráningu. Útgáfan sé í prófun og verði opnuð á árinu 2021. Gert séð ráð fyrir leiðbeiningum á ensku á innskráningarvef sem og svörum við algengum spurningum.

Hvað varði aðgengi að upplýsingum á vef viðkomandi stjórnvalda þá mæli viðmið stafræns Íslands fyrir um að stafræn þjónusta sé aðgengileg fyrir alla notendur. Það þýði að lausnir þurfi að gagnast fólki með fötlun, eldra fólki og þeim sem eigi erfitt með að nýta sér stafræna þjónustu af öðrum ástæðum, s.s. tungumálakunnáttu. Í allri þróun sé unnið eftir þessum viðmiðum og samhliða að því að uppfæra eldri svæði í takt við þau og leiðbeina stofnunum um aðgengismál.


Í bréfi frá heilbrigðisráðuneytinu kom meðal annars fram að í kjölfar álitsins hafi verið athugað með óformlegum hætti hvernig þessum málum væri háttað hjá ráðuneytinu og stofnunum þess. Mikilvægt sé að líta ekki eingöngu til þess hvort tilteknar upplýsingar séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en íslensku heldur einnig hvort þær nái til þeirra þjóðfélagshópa sem ekki séu mæltir á íslensku. Með þetta að leiðarljósi hafi ráðuneytið ráðið pólskumælandi samskiptaráðgjafa. Hlutverk hans sé ekki hvað síst að vinna að því að fréttir og upplýsingar skili sér inn í samfélag pólskumælandi á Íslandi.

Við athugun ráðuneytisins hjá undirstofnunum hafi komið í ljós að víða er pottur brotinn. Því hafi verið beint til stofnananna að bæta úr og einhverjum tilvikum sé því lokið. Til dæmis hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem heimasíðan var aðeins á íslensku en sé nú að miklu leyti aðgengileg bæði á ensku og pólsku.

Það sé stefna ráðuneytisins að til séu enskar útgáfur af öllum lagabálkum á málefnasviði þess og helstu reglugerðum. Flestir lagabálkanna hafi verið þýddir á ensku og séu aðgengilegir á enskri útgáfu vefs stjórnarráðsins. Sama gildi um 45 reglugerðir.

Þeir sem leiti til ráðuneytisins geti almennt átt í samskiptum sínum á íslensku eða ensku en dugi það ekki sé það metið hverju sinn hvernig samskiptin skuli fara fram þannig að viðkomandi geti skilið erindi og ákvarðanir ráðuneytisins.


Í bréfi frá menntamálaráðuneytinu kom fram að sett hefði verið af stað vinna til að tryggja gott verklag í samskiptum við þá sem ekki eru mæltir á íslensku. Það sneri að því hvaða upplýsingar ráðuneytið og stofnanir þess láti frá sér, svörun erinda og þýðingu á lögum og reglugerðum.

Ætlunin væri að ljúka greiningu á miðlun ráðuneytisins og undirstofnana þess og nauðsynlegri forgangsröðun sumarið 2021. Til að byrja með yrði megináhersla á efni sem snertir börn og ungmenni og þá sérstaklega menntun, velferð, heilbrigði og almenn réttindi þeirra. Sú vinna þyrfti einnig að taka mið af miðlun upplýsinga hjá öðrum ráðuneytum, þ.m.t. fyrirhugaðrar stofnunar ráðgjafarstofu innflytjenda.

Hvað dagleg samskipti ráðuneytisins við fólk sem ekki er mælt á íslensku væri svarferli í endurskoðun og áréttað yrði að ávallt þyrfti að meta þörf á túlkaþjónustu eða þýðingu skjala í hverju tilviki fyrir sig.

Á vettvangi ráðuneytisstjóra Stjórnarráðs Íslands væri lögð áhersla á að samræma verklag innan Stjórnarráðsins. Skýra þyrfti hvaða lög og reglugerðir bæri að þýða og skilgreina feril sem tryggði að þýðingar yrðu uppfærðar.


Í bréfi frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kom meðal annars fram að í samráði við önnur ráðuneyti sé álitið til skoðunar og þá til hvaða ráðstafana kunni að vera rétt að grípa vegna þess. Ráðuneytið upplýsi umboðsmann ef til slíks komi og hverju það felist.


Í bréfi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu var meðal annars vísað til svara forsætisráðuneytisins og bent á að mikilvægt væri að stjórnarráðið brygðist með samræmdum hætti við. Þá hefði umhverfisráðuneytið falið þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins að þýða helstu lög á málefnasviði ráðuneytisins og stæði sú vinna yfir. Einnig hefði stór hluti þeirra almennu upplýsinga sem fram kæmu á vef ráðuneytisins verið þýddur. Að undanskyldu alþjóðasamstarfi séu samskipti ráðuneytisins við þá sem ekki séu mæltir á íslensku einna helst í tengslum við fyrirspurnir með tölvupósti og símtölum. Þeim sé svarað á erlendu tungumáli, oftast ensku eða Norðurlandamáli.


Í bréfi frá utanríkisráðuneytinu kom fram að samskipti og aðstoð séu veitt á þeim tungumálum sem kostur er. Auk íslensku sé almennt hægt að veita aðstoð og svör á ensku og dönsku, auk þess sem sendiráð hafi starfsmenn sem tali opinber tungumál gistiríkis. Enn fremur ráði utanríkisþjónustan yfir um 220 kjörræðismönnum víðs vegar um heiminn sem auk ensku tali jafnan tungumál umdæmislands og í einhverjum tilfellum íslensku. Kjörræðismenn gegni m.a. því hlutverki að aðstoða og styðja við íslenska borgarar, erindum vegna menningar- og viðskiptasamstarfs o.fl.

Ráðuneytið sé því og hafi verið, vel í stakk búið til að mæta og sinna þeim hópi almennra borgara sem ekki hafi íslensku að móðurmáli. Utanríkisþjónustan hafi yfirfarið sérstaklega verklag, samskiptaleiðir, gagnaskráningu, skipulag og stjórnsýslu í skýrslu sem sem gerði hafi verið í júní 2020, um viðbrögð við heimsfaraldrinum og hafi tillögur um aðgerðir og breytingar á skipulagi, þjónustu og svörun verið til innleiðingar og framkvæmdar í ráðuneytinu. Jafnframt hafi verið farið yfir ábendingar og tillögur umboðsmanns einkum í tengslum við borgaraþjónustu, með það fyrir augum að veitt yrði sem best þjónusta þeim hópi borgara sem kynni að leita aðstoðar.

Upplýsingar og skýrslur, kynningarefni og annað útgefið efni sé almennt bæði á íslensku og ensku og aðgengilegt á vef ráðuneytisins. Einnig birti sendiskrifstofur efni og upplýsingar á tungumáli gistiríkis eftir atvikum.


Þrátt fyrir ítrekanir hafa ekki borist svör frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.


Í bréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kom fram að sambandið hefði ekki enn kynnt álitið fyrir sveitarfélögum. Það stafi ekki skorti á vilja heldur teldi sambandið nauðsynlegt að fara betur í saumana á álitinu með umboðsmanni þar sem það sé umfangsmikið og snerti sveitarfélög með öðrum hætti en stjórnvöld ríkisins.