Hinn 29. desember 1988 ritaði ég forsætisráðherra og forsetum Alþingis samhljóða bréf, er hér fer á eftir.
„Á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis tel ég ástæðu til að vekja athygli á ófullkomnum ákvæðum til verndar mannréttindum í íslenskum lögum.
Ég bendi á, að í íslensku stjórnarskrána vantar almenn ákvæði um veigamikil mannréttindi. Sem dæmi má nefna skoðanafrelsi, jafnrétti, bann við afturvirkum refsilögum, vernd fjölskyldulífs og rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar um félagsleg mannréttindi eru og fábrotin.
Mörg mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar eru ófullkomin af ýmsum ástæðum. Ákvæði 63. og 64. gr. um trúfrelsi, 66. gr. um friðhelgi heimilis, 72. gr. um prentfrelsi og 73. gr. um félagafrelsi hefta ýmist í engu eða að takmörkuðu leyti vald löggjafans. Sum
mannréttindaákvæði ganga skammt efni sínu samkvæmt. Ákvæði 72. gr. nær þannig aðeins til prentfrelsis en eigi til tjáningarfrelsis almennt. 65. gr. fjallar fyrst og fremst um handtöku, sem er liður í rannsókn refsimála, en frelsi og réttaröryggi almennt nýtur þar ekki verndar. 66. gr. verndar ekki einkalíf manna yfirleitt, heldur takmarkast við ákveðna þætti þess.
Ég vísa einnig til þess, að Ísland er aðili þýðingarmikilla alþjóðasamninga um mannréttindi. Ég nefni hér Evrópuráðssamninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis (Mannréttindasáttmála Evrópu) frá 4. nóvember 1950 ásamt síðari viðaukum, alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna) frá 16. desember 1966, Félagsmálasáttmála Evrópu frá 18. október 1961 og alþjóðasamning (Sameinuðu þjóðanna) um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 16. desember 1966. Aðstaðan er hér sú, að íslensk lög ganga a.m.k. að ýmsu leyti skemmra í vernd mannréttinda en þessir sáttmálar. Getur þetta valdið vanda í lagaframkvæmd hér á landi og jafnframt orðið til þess, að íslenska ríkið verði dregið til ábyrgðar fyrir þeim alþjóðastofnunum, sem ætlað er að framfylgja nefndum mannréttindasamningum.
Úrbætur í ofangreindu efni virðast mér einkum geta orðið með tvennum hætti. Fyrst er að nefna endurskoðun mannréttindaákvæða íslensku stjórnarskrárinnar. Legg ég áherslu á, að endurskoðun stjórnarskrárinnar er brýn einnig af öðrum ástæðum, sem ég rek ekki frekar að
þessu sinni. Skoðun mín er sú, að setning nýrrar stjórnarskrár hafi dregist úr hófi, að frátöldum breytingum, er varða kosningar til Alþingis.
Ég tel einnig, að mjög kæmi til greina, að umræddir mannréttindasáttmálar eða hlutar þeirra verði teknir í íslensk lög. Þar rísa að vísu ýmis álitamál, er að sumu leyti tengjast annarri víðtækari spurningu um það, hvernig háttað sé tengslum íslensks réttar og alþjóðasamninga, sem Ísland er aðili að, og hvaða stefnu beri að móta á því sviði. Vísa ég um það nánar til meðfylgjandi greinargerðar Stefáns Más Stefánssonar prófessors, sem hann hefur samið á vegum embættis míns.
Á árinu 1989 verður víða minnst merks áfanga í sögu mannréttinda. Að mínum dómi ætti vel við, að ríkisstjórn og Alþingi mörkuðu á því ári þáttaskil, að því er varðar vernd mannréttinda hér á landi.“
1) Tilvitnuð greinargerð Stefáns Más Stefánssonar prófessors: Um þörf á lögfestingu þjóðréttarsamninga, fylgir með skýrslunni sem fylgiskjal.
Fram hefur komið, að málið er til athugunar hjá stjórnarskrárnefnd. Að beiðni Matthíasar Bjarnasonar, formanns nefndarinnar, fór ég yfir drög að mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá, sem legið hafa fyrir stjórnarskrárnefnd. Var þar um að ræða uppkast að mannréttindaákvæðum samið eftir umræður í nefndinni. Í bréfi til formanns stjórnarskrárnefndar, dags. 14. janúar 1990, gerði ég grein fyrir meginsjónarmiðum varðandi nefnd drög og breytingar á þeim.