A kvartaði í fyrsta lagi yfir því, að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefði ekki efnt samning við hann frá 14. mars 1990 um leigu á fullvirðisrétti jarðarinnar G til framleiðslu á kindakjöti. Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að stjórn viðkomandi búnaðarsambands hafi ákveðið að 20 ærgildi, sem G hefðu verið ákveðin á árinu 1987, skyldu falla niður.
Í bréfi mínu til A frá 15. desember 1992 sagði:
"Samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála, er lögin taka til. Það er skoðun mín, að ágreiningi þeim, sem kann að vera út af efndum Framleiðnisjóðs á umræddum samningi, verði skotið til landbúnaðarráðherra til úrskurðar. Að því er varðar síðari lið kvörtunar yðar bendi ég á, að samkvæmt ákvæðum 30. gr. laga nr. 46/1985 er landbúnaðarráðherra heimilt með reglugerð að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn búnaðarsambands að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda. Í 31. gr. sömu laga er síðan gert ráð fyrir því, að sérstök nefnd, er landbúnaðarráðherra skipar, skuli úrskurða um rétt einstakra framleiðenda samkvæmt ákvæðum b- og c-liðar 30. gr. laganna. Slíkum úrskurði verður síðan skotið til landbúnaðarráðherra innan 30 daga frá því að nefndin kvað upp úrskurð sinn. Ég tek þetta fram vegna þess, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki hægt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu."
Niðurstaða mín samkvæmt framansögðu varð því sú, að skilyrði brysti til þess, að ég gæti tekið kvörtun A til frekari athugunar að svo stöddu. Jafnframt tjáði ég A, að hún gæti leitað til mín á ný, að fengnum úrskurði landbúnaðarráðherra, teldi hún sig þá enn órétti beitta.