I. Kvörtun og málavextir.
Í bréfum til mín, dags. 25. og 27. nóvember 1991, kvartaði hlutafélagið A yfir úthlutun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðiheimildum fyrir bátinn X, 9,65 brl. að stærð, sem fyrirtækið hafði smíðað. Hafði smíði báts þessa hafist vorið 1988 og verið haldið áfram það ár. Verkið féll niður árið 1989, en í marsmánuði 1990 var tekið til við smíðina á ný.
Með lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988-1990, höfðu verið settar skorður við fjölgun fiskiskipa 6 brl. og stærri. Gilti sú meginregla um ný skip, að þeim mætti því aðeins veita veiðileyfi, að annað sambærilegt skip hyrfi úr rekstri í þess stað. Slík regla hafði áður gilt um skip 10 brl. og stærri. Í G-lið 10. gr. fyrrnefndra laga var þó undantekning gerð um báta minni en 10 brl., hefði bindandi smíðasamningur verið gerður fyrir gildistöku laganna og nánar tilgreind skilyrði verið uppfyllt þ. á m. um afhendingu fyrir 1. júlí 1988.
Svo bar við í janúarmánuði 1988, að starfsmenn veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins fóru í skipasmíðastöðvar og skráðu báta þá, sem hafin var smíði á. Samkvæmt könnun þessari var þá í smíðum í stöð A einn bátur af L-gerð, 7,86 brl. að stærð. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 13. október 1988, til A, staðfesti ráðuneytið, að bátur sá, sem hafin hefði verið smíði á fyrir síðustu áramót "mun fá leyfi til botnfiskveiða þá er hann verður fullgerður í samræmi við ákvæði laga um veiðiheimildir báta undir 10 brl."
Í júlímánuði 1989 gerði A sölusamning um bátinn af L-gerð með þeim skilmálum meðal annars, að hann fengi veiðiheimildir í samræmi við ákvæði laga um báta undir 10 brl. og að ekki þyrfti að "úrelda" bát í staðinn. Kaup þessi gengu til baka. Vegna sölu á bátnum X, er í smíðum var, fór A þess á leit við sjávarútvegsráðuneytið, að "smíðaréttur" fyrrnefnds báts af L-gerð yrði færður yfir á X, sbr. bréf A, dags. 21. ágúst 1989. Í bréfinu var vísað til heimildar ráðuneytisins vegna bátsins af L-gerð og þess getið, að fyrirtækið hefði kaupanda að nýsmíði, sem lítillega væri hafin (báturinn X) en kaup á fyrrnefnda bátnum hefðu gengið til baka. Með bréfi, dags. 25. ágúst 1989, féllst sjávarútvegsráðuneytið á, að smíðaréttur vegna bátsins af L-gerð yrði fluttur yfir á nýsmíði 9,6 brl. fiskibáts, er fengi sömu veiðiheimildir og báturinn af L-gerð hefði fengið. Tók ráðuneytið fram, að smíðaréttur á síðarnefnda bátnum félli niður nema til kæmi úrelding, sem uppfyllti skilyrði gildandi reglna um endurnýjun. Ráðuneytið áréttaði þetta með bréfi, dags. 14. mars 1990, en um þær mundir tók A til við smíði X á ný. Hljóðaði bréfið svo: "Með vísan til bréfa ráðuneytisins 13. október 1988 og 25. ágúst 1989, staðfestir ráðuneytið að [X] muni fá leyfi til botnfiskveiða í samræmi við ákvæði laga um veiðiheimildir báta undir 10 brl."
A stefndi að því að ljúka smíði á X það snemma, að báturinn fengi haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990 og að hann yrði fullbúinn fyrir sjávarútvegssýningu, er hófst 19. september 1990, þar sem sýna átti bátinn. Þetta brást, þar sem rafverktaki lauk ekki verki sínu í tæka tíð. Haffærisskírteini fékk báturinn ekki, fyrr en 18. október 1990 og þá aðeins til eins mánaðar.
Fyrirsvarsmaður A gat þess, að haustið 1990 hefði munnlega verið eftir því leitað við sjávarútvegsráðuneytið, að X yrði veitt veiðileyfi, en þá hafi verið búið að ganga frá kaupsamningi um bátinn. Með því að þau tilmæli hafi ekki borið árangur hafi skriflegt erindi verið sent ráðuneytinu 20. nóvember 1990. Ráðuneytið hafi sett það skilyrði með vísan til laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, að sambærilegur bátur yrði "úreltur" í staðinn. Á fundi með ráðuneytisstjóra og þingmanni einum um miðjan mars 1991 hafi komið fram, að báturinn X fengi aflaheimild í kringum 80 tonn með því skilyrði, að annar bátur yrði "úreltur" í staðinn.
Kom fram af hálfu fyrirsvarsmanna A, að sjávarútvegsráðuneytið hefði veitt bátnum veiðileyfi með bréfi, dags. 23. apríl 1991, eftir að A hefði útvegað sér bát til að fullnægja skilyrðinu um úreldingu. Bréf þetta er svohljóðandi:
"Með vísan til bréfs yðar dags. 25. mars 1991 og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða fellst ráðuneytið á að veita mb. [X] leyfi til veiða í atvinnuskyni.
Heimild þessi er bundin því skilyrði að m.b. [Y] hafi verið tekinn af skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins og honum eytt.
Niður falli réttur til endurnýjunar hans.
Að uppfylltum ofangreindum skilyrðum og fyrir liggur útstrikunarvottorð útgefið af Siglingamálastofnun, sem staðfestir úreldingu m.b. [Y] mun ráðuneytið gefa nýja bátnum út leyfisbréf til veiða með aflamarki."
A sætti sig ekki við þessa ákvörðun ráðuneytisins og ritaði því bréf af því tilefni, dags. 24. september 1991. Vísaði A til skriflegra staðfestinga ráðuneytisins á því, að ekki þyrfti að úrelda á móti bátnum X og að báturinn fengi veiðiheimild í samræmi við ákvæði laga um veiðiheimildir báta undir 10 brl. Af hálfu A var lýst verkframvindu við smíði bátsins og töfum í því sambandi. Það hefði verið keppikefli fyrirtækisins, að báturinn fengi haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990. Það hefði ekki tekist og greindi A frá ástæðum þess. Úr því að svo fór hefði ráðuneytið ekki tekið í mál að gefa út veiðiheimild fyrir bátinn. Þeir bátar, sem skírteini hefðu fengið fyrir þetta tímamark, hefðu refjalaust fengið 110 tonna aflaheimild til áramóta. Greint var í bréfi A frá fundi fyrirsvarsmanns fyrirtækisins með ráðuneytisstjóra og alþingismanni um miðjan mars 1991, þar sem fyrirsvarsmanninum hefði munnlega verið greint frá því, að báturinn X fengi aflaheimild í kringum 80 tonn og það skilyrði sett, að annar bátur yrði úreltur í staðinn. Í apríllok 1991 hefði tekist að útvega fjármagn til öflunar báts í úreldingu. Báturinn X hefði þá fengið veiðiheimild fyrir 47,6 tonnum til 31. ágúst 1991. Fyrir veiðitímabilið, sem væri að hefjast, hefði báturinn fengið úthlutað 50 tonnum.
Gerð var grein fyrir því í bréfi þessu, að báturinn X hefði legið við bryggju í heilt ár. Hann hefði verið byggður fyrir lánsfé eingöngu, enda hefði fjárfesting í bátnum verið talin örugg, þar sem bréf sjávarútvegsráðuneytisins hefði legið fyrir. Kaupendur hefðu verið að bátnum haustið 1990, en kaupsamningar hefðu verið gerðir með fyrirvara um, að kvóti fengist á bátinn. Í maí 1991 að fenginni veiðiheimild hefði verið langt liðið á vertíð og deyfð til fjárfestingar í kvótalitlum bát. Ákveðið hefði því verið að selja aflaheimildina til 31. ágúst 1991 og athuga með sölu á nýju fiskveiðiári. Það væri þó vonlaust dæmi með 50 tonna aflaheimild fyrir bát, sem kostaði 25-30 milljónir króna.
Sjávarútvegsráðuneytið svaraði ofangreindu bréfi A með bréfi 1. október 1991. Það er svohljóðandi:
"Ráðuneytið vísar til erindis yðar dags. 24. september sl. vegna aflaheimilda m/b [X].
Með lögum nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990, voru settar skorður við fjölgun fiskiskipa 6 brl. og stærri. Var sú regla lögfest að einungis yrði heimilt að veita nýju skipi 6 brl. og stærri veiðileyfi er annað sambærilegt hyrfi úr rekstri í þess stað. Sama regla hafði gilt allt frá árinu 1984 fyrir fiskiskip 10 brl. og stærri. Í G lið 10. gr. laganna var að finna ákvæði um báta sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laganna en þar segir:
"Bátar sem bindandi samningur hefur verið gerður um smíði á fyrir gildistöku laga þessara eiga kost á veiðileyfi samkvæmt reglum hér að framan enda sé smíði þeirra sannanlega hafin fyrir sömu tímamörk eða a.m.k. þriðjungur umsamins kaupverðs sannanlega greiddur fyrir 31. desember 1987 og afhending fari fram fyrir 1. júlí 1988."
Í janúar 1988 fóru starfsmenn veiðieftirlits ráðuneytisins í allar bátasmíðastöðvar landsins og skráðu þá báta sem smíði var hafin á. Samkvæmt þeirri úttekt var hafin smíði á einum bát af gerðinni [L] hjá fyrirtækinu [A]. Samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins var hér um að ræða 7,86 brl. bát.
Samkvæmt ströngustu skilgreiningu laganna hefðu því þeir bátar sem voru 6 brl. eða stærri ekki átt að fá veiðileyfi nema þeir hefðu verið afhentir fyrir þann 1. júlí 1988. Vegna ónákvæmni í texta laganna reis upp spurning um hvað teldist afhending eða hvaða kröfur mætti gera til frágangs báts við slíka afhendingu. Var sú ákvörðun tekin í ráðuneytinu að túlka vafann í hag þeim sem voru með báta í smíðum og heimila lengri frest til að fullgera þá báta sem fullnægðu að öðru leyti ákvæðum tilvitnaðra lagaákvæða. Með hliðsjón af þessari ákvörðun staðfesti ráðuneytið með bréfi dags. 13. október 1988 að báturinn fengi veiðileyfi þrátt fyrir að smíði væri ólokið.
Þann 21. ágúst 1989 sendi fyrirtækið ráðuneytinu erindi þar sem óskað var eftir að smíðaréttur bátsins verði yfirfærður á stærri bát sem fyrirtækið hafði hafið smíði á þar sem samningur um sölu á bátnum af gerðinni [L] hafði gengið til baka. Með bréfi ráðuneytisins dags. 25. ágúst 1989 er fallist á þessa beiðni enda yrðu aflaheimildir stærri bátsins þær sömu og þær aflaheimildir sem báturinn [L] hefði fengið. Ráðuneytið staðfestir þessa ákvörðun enn á ný með bréfi dags. 14. mars 1990.
Þann 18. maí 1990 tóku gildi lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða en eins og kunnugt er var gildistími laga nr. 3/1988 bundin við árin 1988-1990. Með þeim lögum sem nú gilda var stigið lokaskrefið varðandi stöðvun við fjölgun allra fiskiskipa og var sú regla lögfest að ekkert nýtt fiskiskip gæti fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni án þess að sambærilegt fiskiskip hyrfi úr rekstri. Í 5. gr. laganna er að finna ákvæði um veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni. Þau ákvæði er lúta að útgáfu veiðileyfa til nýrra báta sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laganna eru skýr og ótvíræð. Var það skilyrði sett fyrir útgáfu veiðileyfis að smíði hefði hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma eða þann 18. ágúst 1990. Í framhaldi af þessari lagasetningu var sú ákvörðun tekin í sjávarútvegsráðuneytinu að sett skyldu sömu tímamörk um smíðalok þeirra báta 6 brl. og stærri sem fengið höfðu sérstök smíðanúmer við gildistöku laga nr. 3/1988. Var þessi ákvörðun byggð á því að ekki væri með nokkru móti verjandi að veita þeim aðilum sem höfðu hafið smíði á bátum um áramótin 1987/1988 lengri frest til að fullgera báta sína en þeim sem höfðu hafið smíði á bátum minni en 6 brl. e.t.v. skömmu fyrir gildistöku laga nr. 38/1990. Ekki tókst að ljúka smíði m/b [X] fyrir þann 18. ágúst 1990 og eru í bréfi fyrirtækisins dags. 20. nóvember 1990 raktar ýmsar ástæður fyrir þeirri seinkun sem átti sér stað. Ráðuneytið gat hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum tekið tillit til þeirra atriða sem nefnd voru í bréfinu. Því var sú krafa gerð að sambærilegur bátur yrði úreltur í stað m/b [X]. Um veiðiheimildir bátsins á árinu 1990 giltu því ákvæði 10. gr. laga nr. 3/1988 en eins og áður var rakið féllu þau lög úr gildi um síðustu áramót.
Eins og áður var rakið rann út frestur til að gera þá báta haffæra sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laga nr. 38/1990, þann 18. ágúst 1990. Í framhaldi af því óskaði ráðuneytið eftir yfirliti frá Siglingamálastofnun ríkisins um ástand allra þeirra báta sem smíði var hafin á en ekki tókst að ljúka við á tilsettum tíma. Alls voru á þessu yfirliti 10 bátar sem smíði var ólokið á en þó var smíði þeirra það langt komin að henni lauk á næstu vikum þar á eftir. Var m/b [X] meðal þessara báta. Sérstök samstarfsnefnd um úthlutun aflahlutdeildar til báta minni en 10 brl. gerði tillögur til ráðuneytisins um aflahlutdeild þessara báta. Tillögur nefndarinnar voru þær að aflahlutdeild þessara báta skyldi verða sú sama og hún hefði orðið ef smíði bátanna hefði verið lokið fyrir þann 18. maí. Ráðuneytið féllst á þessar tillögur nefndarinnar og var aflahlutdeild m/b [X] ákvörðuð sú sama og aflahlutdeild þeirra báta sem komu nýir eftir 31. janúar 1989 án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri, sbr. 5. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 38/1990. Þar sem fyrirtækið hafði smíðaleyfi fyrir 9,6 brl. bát og m/b [X] mældist stærri en 9 brl. var bátnum ákvörðuð meðalaflahlutdeild báta á stærðarbilinu 9-10 brl. sbr. 10. gr. rgl. nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni. Aflahlutdeild m/b [X] er því sú sama og sú aflahlutdeild sem báturinn hefði fengið ef smíði hans hefði lokið fyrir 18. ágúst 1990.
Ráðuneytið vill að lokum mótmæla þeirri fullyrðingu að fyrirtækið hafi hlotið óréttláta meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins. Þvert á móti sýna þær bréfaskriftir sem fram hafa farið að ráðuneytið hefur eftir fremsta megni reynt að koma til móts við óskir fyrirtækisins. Vandi fyrirtækisins virðist fyrst og fremst stafa af þeim drætti sem varð á smíði bátsins og að samningar um sölu bátsins gengu til baka. Þetta eru hins vegar aðstæður sem ráðuneytið getur engu um breytt."
II. Athugun umboðsmanns Alþingis.
Með bréfi 29. nóvember 1991 óskaði ég eftir því við sjávarútvegsráðuneytið í tilefni af kvörtun A, að ráðuneytið léti mér í té þær upplýsingar og skýringar, sem það teldi ástæðu til að bæta við það, sem fram kæmi í fyrrgreindu bréfi þess frá 1. október 1991 til A, en bréf þetta er rakið í II. kafla hér að framan. Ráðuneytið svaraði með svofelldu bréfi 27. desember 1991:
"Vísað er til bréfs yðar dags. 29. nóvember 1991 varðandi kvörtun fyrirtækisins [A] út af úthlutun veiðiheimilda til m/b [X]. Samkvæmt bréfum fyrirtækisins til Umboðsmanns er ráðuneytinu ekki ljóst að hvaða atriðum í framkvæmd þess við úthlutun veiðiheimilda til m/b [X] kvörtunin beinist. Í bréfi ráðuneytisins til fyrirtækisins dags. 1. október er gerð ítarleg grein fyrir útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni til bátsins og eins fyrir úthlutun aflaheimilda. Á þessu stigi hefur ráðuneytið engu við það bréf að bæta. Hins vegar er ráðuneytið reiðubúið til veita allar frekari upplýsingar um einstök atriði málsins verði eftir því leitað."
Ég gaf fyrirsvarsmanni A kost á því að koma á framfæri athugasemdum við ofangreint bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 27. desember 1991. Athugasemdir hans bárust mér í bréfi 6. janúar 1992. Þar kom meðal annars fram, að X hefði átt að fá veiðiheimild strax haustið 1990 án þess að um úreldingu yrði að ræða. Bátar af þessari stærð hefðu fengið 110 tonna aflaheimild til áramóta. Leyfið hefði hins vegar ekki fengist fyrr en 23. apríl 1991 þrátt fyrir eftirgangsmuni og þá með skilyrði um úreldingu. Þá vék A að loforðum um veiðiheimild vegna smíðaverkefnis, er varð að X, og vísaði til bréfa ráðuneytisins, dags. 25. ágúst 1989 og 14. mars 1990. Vitnaði A sérstaklega í síðara bréfið, þar sem staðfest væri, að báturinn fengi leyfi til botnfiskveiða í samræmi við ákvæði laga um veiðiheimildir báta undir 10 brl. Taldi A ráðuneytið bundið af þessari yfirlýsingu. A tók fram, að í lögum nr. 38/1990 væri ekkert tekið fram um áður útgefin leyfi. Af hálfu A var gerð grein fyrir töfum á smíði bátsins, er meðal annars hefðu stafað af því, að kappkostnað hefði verið að gera hann sem best úr garði vegna sýningar á bátnum, en um nýjung hefði verið að ræða. Gerð var grein fyrir því, að lánafyrirgreiðsla hefði fengist vegna bréfs ráðuneytisins um veiðiheimild. Þá var af hálfu A gerð grein fyrir tjóni því, sem fyrirtækið hefði orðið fyrir og sagði svo um það í bréfi A:
"[A] hefir orðið fyrir miklu tjóni af þessum sökum. Haustið 1990 eða þegar báturinn var tilbúinn lá fyrir samningur um sölu hans er hljóðaði uppá 23,5 millj. en var bundinn því skilyrði, að aflaheimild yrði veitt, sem aldrei fékkst, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fyrr en með bréfi 23. apríl 1991 og þá með því skilyrði að um úreldingu yrði að ræða sem greiða varð stórfé fyrir. Og til þess nú að kóróna allt saman fékkst bara 47 tonna kvóti af 80 tonna kvóta, sem svona bátar fengu "... vegna þess að svo mjög var liðið á fiskveiðiárið....""
III.
Við athugun mína á málavöxtum kom fram, að ekki lágu fyrir skýrar upplýsingar um, hvort og þá hvenær sjávarútvegsráðuneytið hefði sett A frest til að ljúka smíði X, þannig að báturinn fengi veiðileyfi og veiðiheimildir, án þess að fullnægja þyrfti fyrrgreindu lagaskilyrði, að sambærilegur bátur hyrfi varanlega út rekstri í staðinn, sbr. G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988. Þess vegna óskaði ég eftir því við sjávarútvegsráðuneytið 28. janúar 1992, að það gerði nánari grein fyrir þessu atriði. Skýringar ráðuneytisins bárust mér í bréfi 7. febrúar 1992. Þar sagði:
"Í framhaldi af kærumáli [A], fundi á skrifstofu Umboðsmanns, hinn 18. janúar s.l. og síðari símtöl, sendist hér með stutt samantekt varðandi samskipti ráðuneytisins við [A] og forsvarsmann fyrirtækisins [B]. Eingöngu er fjallað um þá þætti sem lúta að ákvörðun ráðuneytisins varðandi smíðalok smábáta og tilkynningar þar að lútandi. Þrátt fyrir leit finnst ekki í skjalasafni ráðuneytisins bréf, þar sem fyrirtækinu er tilkynnt þessi ákvörðun skriflega en slíkum skriflegum tilkynningum var beint til nokkurra aðila sem áttu báta í smíðum. Ráðuneytið telur hins vegar fullljóst að [B] hafi með fullnægjandi fyrirvara á sannanlegan hátt og ítrekað verið gerð grein fyrir því, að smíði umrædds báts yrði að ljúka fyrir 18. ágúst, ef hann ætti að eiga kost á veiðileyfi, skv. G-lið 10. gr. l. nr. 3/1988.
Snemma árs 1990, um það leyti sem frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða var lagt fram á Alþingi, fór fram umræða í Sjávarútvegsráðuneytinu um málefni þeirra báta milli 6 og 10 brl., sem smíði hafði hafist á í kringum áramótin 1988, en enn höfðu ekki verið afhentir, sbr. G-lið 10. gr. l. nr. 3/1988. Var niðurstaðan sú að útilokað væri að veita þessum bátum lengri frest en þann, sem veittur var til að ljúka smíði báta undir 6. brl., skv. 5. gr. frumvarpsins. Var ákveðið að hafa samband við alla þá, sem vitað var um að ættu slíka báta í smíðum, og var gengið kerfisbundið til verks í þeim efnum. Í fyrstu viku febrúar hafði [S] símasamband við alla þessa aðila og tjáði þeim ákvörðun ráðuneytisins og aflaði upplýsinga um stöðu verka við báta í smíðum. Í framhaldi af símtali sínu við [B] í áðurnefndri viku ritaði [S] svofellda minnispunkta:
[A], s. [...]:
9,6 tonn hálfsmíðaður - enginn kaupandi. Óljóst fyrir hvaða aðila á [...]. Segist hafa bréf upp á leyfið. Næstum tilbúinn með minni báta. "Lítið um að vera. Enginn spyr um bát í dag."
Snemmsumars 1990 heimsótti [G], veiðieftirlitsmaður bátasmiðjur á [..-]landi til þess að kanna stöðu þeirra báta, sem í byggingu voru, og að ýta á eftir að smíði þeirra lyki fyrir 18. ágúst. [G] heimsótti m.a. [A] 31. maí 1990. Ekki hefur náðst í [G] á þeim stutta tíma sem er til stefnu til að staðfesta hvað þeim [B] fór á milli, þar eð [G] er að heiman, en hjálögð er vinnuskýrsla hans ásamt ljósmyndum, sem teknar voru af umræddum bát hjá [A] hinn 31. maí 1990. Síðari hluta júnímánaðar 1990 kom [B] í ráðuneytið og ræddi við [J] og [S]. Við þetta tækifæri andmælti [B] því að honum bæri að ljúka við bátinn fyrir 18. ágúst. Sagðist hann stefna að því að ljúka við bátinn fyrir alþjóðlega sjávarútvegssýningu, sem halda átti í Reykjavík í septemberlok. Fram kom að enginn kaupandi var enn að bátnum en að samningur hafi verið gerður við skipasmíðastöðina [N] um smíði innréttinga og [R] um að ganga frá rafmagni. Í þessum samningum sé miðað við verklok fyrir sýningu og þeim verði ekki breytt. Var [B] við þetta tækifæri rækilega gerð grein fyrir því, að fyrri ákvörðun stæði óbreytt og lokafrestur væri til 18. ágúst 1990, þar sem lögin hefðu öðlast gildi 18. maí. Sumarið og haustið 1990 kom [B] ítrekað í ráðuneytið. Átti hann viðtöl við ýmsa starfsmenn þess, m.a. [J]. Ítrekaði [J] við þessi tækifæri hvað eftir annað nauðsyn þess að hann lyki bátnum fyrir 18. ágúst.
Framangreind samantekt ber þess nokkur merki að hún er unnin í flýti. Nánari lýsingu á samtölum og e.t.v. nákvæmari dagsetningar er eflaust hægt að grafa upp ef til þess vinnst tími."
Með bréfi 7. febrúar 1992 óskaði ég eftir athugasemdum A við ofangreindar skýringar sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdirnar bárust mér í bréfi daginn eftir. Þar sagði meðal annars:
"Ráðuneytisstjórinn vitnar í minnisblað [S]. Það sem þar kemur fram er að mestu leyti rétt, svo langt sem það nær og miðað er við að þetta er bara minnisblað. Báturinn var nokkuð á veg kominn og til þess að þau verðmæti færu ekki í súginn var umræða um að heimamenn keyptu hann, en úr því varð ekki. Voru þá aðrar leiðir kannaðar m.a. leitað til ráðuneytisins til þess að fá staðfestingu á fyrri loforðum um að báturinn fengi veiðikvóta. Á því var engin fyrirstaða og rétt er að það komi fram að samskipti við ráðuneytið voru með ágætum á þessum tíma. Með bréfið frá 14. mars í höndunum tókst fyrirtækinu að fá bankafyrirgreiðslu og nokkrir aðilar lánuðu tæki og búnað í bátinn að því tilskyldu að hann yrði sýndur á sjávarútvegssýningunni, en hún átti að byrja 19. september.
Á þetta bréf minnist ráðuneytisstjórinn ekki, sem þó var skrifað eftir könnun [S] og frumvarpið komið eða að koma fram á Alþingi. Eins og eg hefi bent á, átti þetta að nægja til þess að báturinn fengi kvóta. En þó að þeir ráðuneytismenn hafi efast um að þeirra bréf beri að setja á bekk með öðrum leyfum eða samþykktum veittum af stjórnvöldum, þá skiptir það ekki máli í þessu tilviki, vegna þess að ráðuneytið ákvað eftir tillögu nefndar, sem sérstaklega var til þess skipuð, að þeir bátar, 10 að tölu, sem ekki voru með haffærisskírteini þann 18. ág. skyldu fá kvóta eins og þeim hefði verið lokið fyrir þann tíma. Vitna eg þar til bréfs ráðuneytisins dags. 1. okt. 1990.
Samkvæmt þessu átti [X] að fá 110 tonna kvóta haustið 1990 fram að áramótum og hefði báturinn fengið hann, lá fyrir undirritaður samningur um sölu hans fyrir 23,5 millj. Svona einfalt er málið.
Þetta eru staðreyndir málsins. Engin nánari athugun í ráðuneytinu getur breytt þeim. Eg fer vinsamlegast fram á að máli þessu verði hraðað eftir því sem hægt er. Fyrirtækið hefir mjög veika fjárhagsstöðu enda munar um minna en vera með skuldbindingar hátt í 30 millj., sem hlaða á sig vanskilavöxtum.
Eg mun að sjálfsögðu útvega öll þau gögn, sem óskað verður eftir og áskil mér rétt til þess að leggja fram ný gögn og vitnisburði í hugsanlegu skaðabótamáli við ráðuneytið."
Með bréfi 11. febrúar 1992 óskaði ég eftir skýrari upplýsingum frá A um það meðal annars, hvort fyrirsvarsmönnum félagsins hefði verið gerð grein fyrir því, að ljúka þyrfti smíði umrædds báts fyrir 18. ágúst 1990 og ef svo hefði verið, þá hvenær og með hvaða hætti það hefði verið gert. Í svarbréfi A 13. febrúar 1992 sagði meðal annars:
"Ráðuneytið lét kanna stöðu þeirra báta, sem voru á byggingarstigi, snemma árs 1990. Það vissi því nákvæmlega hvernig staða bátsins, sem síðar varð [X], var. Þrátt fyrir það rituðu starfsmenn þess bréfið, sem dags. var 14. mars og [A] vitnaði í og sýndi viðsemjendum sínum, bæði til þess að fá bankafyrirgreiðslu og lánaðar vélar og tæki í bátinn. Bátasmíði tekur sinn tíma og skipuleggja þarf verkið fram í tímann. Það var gert með tilliti til þess, að hægt væri að sýna bátinn á sjávarútvegssýningunni. Þessu var ekki hægt að breyta. Og ekki fékkst maður norður til þess að taka bátinn út. Enda bréf frá ráðuneytinu um að báturinn fengi kvóta. Því miður eru engin bréf til, sem farið hafa á milli [A] og ráðuneytisins um þetta mál. Hvort ráðuneytismenn hafi hvatt framkvæmdastjórann, [B], að reyna að ljúka bátnum fyrir 18. ágúst getur vel verið, en hann var bundinn af fyrirfram gerðum samningu og átti því ekki hægt um vik."
V. Niðurstaða.
Niðurstaða álits míns, dags. 19. febrúar 1992, var svohljóðandi:
"Umrædd kvörtun A gefur að mínum dómi tilefni til athugunar á tveimur álitamálum. Í fyrsta lagi þarf að leysa úr því, hvort sjávarútvegsráðuneytinu hafi borið samkvæmt lögum nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1989-1990 að úthluta X veiðiheimildum fyrir árið 1990 án skilyrða um að annað skip hyrfi úr rekstri í þess stað. Ef óheimilt var að setja slíkt skilyrði fyrir úthlutun veiðiheimilda fyrir árið 1990, verður að telja, að slíkt skilyrði hafi ekki heldur staðist fyrir úthlutun veiðiheimilda eftir 1. janúar 1991. Í öðru lagi þarf að fjalla um, hvaða veiðiheimildum sjávarútvegsráðuneytið beri og hafi borið að úthluta bátnum eftir 1. janúar 1991.
1.
Svo sem fram kemur í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. október 1991 til A, en bréfið er rakið í II. kafla hér að framan, ákvað ráðuneytið á árinu 1988 að halda ekki fast við þau tímamörk, sem sett höfðu verið í G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 til að ljúka smíði báta, þannig að þeir fengju veiðileyfi, án þess að fullnægja því skilyrði, að sambærilegt skip hefði í staðinn horfið varanlega úr rekstri. Þegar ráðuneytið tók þessa ákvörðun á árinu 1988, setti það ekki um leið, að því er séð verður afmarkaðan frest til að ljúka smíði þessara báta. Ráðuneytið skýrir hins vegar svo frá, að síðar, eða í febrúarbyrjun 1990, hafi þeim aðilum, sem höfðu átt báta í smíðum í upphafi árs 1988 og gátu notið undanþágu samkvæmt G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988, verið tilkynnt, að frestur til að ljúka smíðinni, þannig að þeir nytu nefndrar undanþágu, rynni út 18. ágúst 1990.
Að mínum dómi verður ekki litið svo á, að sjávarútvegsráðuneytið hafi endanlega fallið frá þeim kröfum, sem uppfylla þurfti til að njóta umræddrar undanþágu skv. G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988, þegar ráðuneytið á árinu 1988 ákvað að framfylgja ekki stranglega skilyrðum þessa ákvæðis. Tel ég, að ráðuneytinu hafi verið heimilt að setja þeim, sem hlut áttu að máli, hæfilegan frest í þessu skyni, svo sem ráðuneytið segist samkvæmt framansögðu hafa gert snemma árs 1990. Með hliðsjón af fyrirmælum G-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988 eru ekki rök til að telja þann frest, sem ráðuneytið segist hafa sett, of skamman, og er þá miðað við að slík ákvörðun hafi verið birt hlutaðeigandi með fullnægjandi hætti.
Það er álit mitt, að fyrrgreind bréf sjávarútvegsráðuneytisins til A, dags. 13. október 1988 og 25. ágúst 1989, hafi ekki falið í sér, að fortakslaust væri fallið frá umræddum skilyrðum G-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988. Eins og rakið hefur verið í IV. kafla hér að framan, er því haldið fram af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins, að starfsmenn þess hafi gert fyrirsvarsmönnum A grein fyrir því á sama hátt og öðrum aðilum, sem báta áttu í smíðum, að lokafrestur til að ljúka smíði bátanna rynni út 18. ágúst 1990. Ekki liggur fyrir nein skrifleg tilkynning um þennan frest frá ráðuneytinu til A og ekki var neitt tekið fram um frestinn í áðurröktu bréfi ráðuneytisins frá 14. mars 1990 til félagsins. Af hálfu A hefur því verið lýst yfir, sbr. fyrrnefnt bréf frá 13. febrúar 1992, að vel geti verið að ráðuneytismenn "hafi hvatt" framkvæmdastjóra félagsins til að reyna að ljúka bátnum fyrir 18. ágúst 1990.
Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir skýr afstaða A til frásagnar sjávarútvegsráðuneytisins í bréfi þess frá 7. febrúar 1992 af tilkynningum ráðuneytisins til A um frest til að ljúka smíði X. Það er því skoðun mín, að ekki sé nægilega ljóst, hvað fór nákvæmlega milli þessara aðila um nefndan frest, en á því veltur í fyrsta lagi niðurstaða um, hvort ráðuneytið hafi með skýrum og afdráttarlausum hætti sett A hæfilegan frest til að fullnægja umræddum skilyrðum G-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988, og í öðru lagi, hvaða skilning fyrirsvarsmönnum A var rétt að leggja í fyrrgreint bréf ráðuneytisins frá 14. mars 1990. Til að leysa úr þessari spurningu um samskipti sjávarútvegsráðuneytisins og A þarf að taka skýrslur af þeim starfsmönnum beggja aðila, sem í hlut eiga, og leggja síðan mat á sönnunargildi slíkra framburða og eftir atvikum annarra tiltækra gagna. Það er skoðun mín, að slíkt eigi ekki að vera viðfangsefni umboðsmanns Alþingis. Tel ég mig því ekki geta lagt dóm á það, hvort sjávarútvegsráðuneytið hafi með nægilega skýrum hætti sett A hæfilegan frest til að uppfylla skilyrði G-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur upplýst, að 18. ágúst 1990 hafi enn verið ólokið smíði á níu bátum af þeim bátum, sem frest höfðu til þess dags til að ljúka smíðinni. Þeirra á meðal var X. Athugun mín hefur ekki leitt í ljós, að sá áskilnaður ráðuneytisins fyrir veiðileyfi til bátsins, að annar bátur hyrfi varanlega úr rekstri í staðinn, hafi falið í sér mismunun miðað við sambærilega báta, sem smíði var ekki lokið á 18. ágúst 1990, og er þá gengið út frá því að ráðuneytið hafi með réttum hætti sett A frest til að uppfylla þau skilyrði laga nr. 3/1988, sem að framan greinir.
2.
Um aflamark til X tímabilin 1. janúar til 31. ágúst 1991 og 1. september 1991 til 31. ágúst 1992 liggja fyrir ákvarðanir ráðuneytisins í bréfum til A, dags. 19. febrúar 1991 og 12. september 1991. Ef X hefði fengið úthlutað aflaheimildum fyrir árið 1990 án skilyrðis um að sambærilegur bátur hyrfi varanlega úr rekstri í hennar stað, hefði um aflahlutdeild hennar eftir 1. janúar 1991 farið eftir 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990. Hefði aflahlutdeild bátsins þess vegna miðast við meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er þetta sama aflahlutdeild og X hefur í raun verið úthlutað fyrir tímabilin 1. janúar til 31. ágúst 1991 og 1. september 1991 til 31. ágúst 1992, sbr. fyrrgreind bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 19. febrúar 1991 og 12. september 1991.
Það er því skoðun mín, að samkvæmt lögum nr. 38/1990 eigi X ekki rétt á rýmri aflaheimildum eftir 1. janúar 1991 en báturinn hefur fengið úthlutað.
3.
Í samræmi við það, sem að framan hefur verið rakið, er niðurstaða mín sú, að ekki sé grundvöllur fyrir því að ég fjalli frekar um mál þetta."