A kvartaði út af ákvörðun samgönguráðuneytisins frá 11. apríl 1990 um að heimila B, er bjó á X, eignarnám lands samkvæmt 38. gr. vegalaga nr. 6/1977 til lagningar einkavegar frá Y og út á X með tilteknum skilyrðum.
Í bréfi mínu til A, dags. 5. apríl 1991, sagði m.a. svo:
"Ákvæði 38. gr. vegalaga nr. 6/1977 eru svohljóðandi:
"Ráðherra getur, að fengnum tillögum vegamálastjóra, heimilað eignarnám lands til lagningar tiltekinna einkavega, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur skulu ákveðnar samkvæmt reglum X. kafla.
Ráðherra getur bundið eignarnámsheimild fyrir einkavegi samkv. 1. mgr. vissum skilyrðum, svo sem um gerð og frágang vegarins, umferðarrétt um hann, viðhald og tengingar við opinbera vegi."
Samkvæmt 37. gr. vegalaga eru einkavegir þeir vegir, sem ekki teljast þjóðvegir, sýsluvegir eða fjallvegir, liggja utan skipulagsskyldra svæða og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum. Kemur hér til úrlausnar, hvort vegur sá, sem ofangreind eignarnámsheimild samgönguráðuneytisins laut að, hafi getað talist einkavegur í umræddum skilningi 37. gr. og þá einnig samkvæmt 38. gr.
Enginn vafi er á því, að umræddur vegur frá [Y] út á [X] fullnægir því skilyrði 37. gr. vegalaga að teljast hvorki þjóðvegur, sýsluvegur né fjallvegur. Það er hins vegar ennfremur skilyrði, að vegur liggi utan skipulagsskyldra svæða.
Ákvæði um einkavegi og um heimild til eignarnáms í þágu þeirra voru upphaflega tekin í VI. kafla vegalaga nr. 71/1963. Í greinargerð með frumv. til þeirra laga sagði m.a. (Alþt. 1963, A-deild, bls. 412):
"Til þess að vegur teljist í flokki einkavega samkvæmt skilgreiningu þessarar greinar og njóti réttinda samkvæmt VI. kafla, eru þessi skilyrði:
1) Að vegurinn sé ekki í öðrum vegaflokki, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
2) Að vegurinn liggi utan skipulagsskyldra svæða, þ.e. sé ekki gata í kaupstað eða kauptúni.
3) Að vegurinn sé kostaður af einstaklingi, fyrirtæki eða opinberum aðila.
Samkvæmt þessu myndi falla hér undir allir heimreiðarkaflar að bæjum, sem ekki komast í tölu sýsluvega eða þjóðvega, svo og vegir að verksmiðjum, iðjuverum og raforkuverum, og nýbýlavegum, meðan þeir hafa ekki verið teknir í tölu sýsluvega eða þjóðvega. Sama er um reiðvegi að segja."
Um þau atriði, er hér skipta máli, hafa ofangreind ákvæði laga nr. 71/1963 verið tekin óbreytt í VI. kafla vegalaga nr. 6/1977. Samkvæmt þessum aðdraganda og sjónarmiðum að baki 37. og 38. gr. núgildandi vegalaga tel ég, að skýra beri ákvæði síðastnefndra greina svo, að vegir utan þéttrar og samfelldrar byggðar teljist utan skipulagðra svæða í skilningi 38. gr. Samkvæmt því er ég þeirrar skoðunar, að samgönguráðuneytið hafi haft viðhlítandi lagaheimild til að veita umrædda eignarnámsheimild, þar sem ekki er annað komið fram en að vegi þeim, sem um var að ræða, hafi verið ætlað að liggja utan slíkra svæða. Skiptir ekki máli í því sambandi, þótt skipulagsskylda taki nú til allra sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 31/1978 um breytingu á skipulagslögum nr. 19/1964. Athugun mín á gögnum málsins hefur heldur ekki leitt í ljós, að þessari ákvörðun eða undirbúningi hennar hafi að öðru leyti verið áfátt að lögum eða miðað við vandaða stjórnsýsluhætti."
Ég tjáði því A að niðurstaða mín væri sú, að ekki væri af minni hálfu tilefni til frekari afskipta af máli því, sem kvörtun hennar lyti að.