B leitaði til umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd dóttur sinnar A, og kvartaði yfir meðferð á máli sem varðaði forsjárdeilu, þ. á m. synjunum innanríkisráðuneytisins á beiðnum A um gjafsókn til að krefjast fyrir héraðsdómi ógildingar á aðfarargerð sem fór fram á heimili hennar og kæra úrskurð héraðsdóms í málinu til Hæstaréttar. Athugun umboðsmanns beindist að úrlausn og framsetningu synjana innanríkisráðuneytisins og umsagna gjafsóknarnefndar í málunum. Umboðsmaður lauk athugun sinni á öðrum þáttum kvörtunarinnar með bréfi til A.
Innanríkisráðuneytið byggði synjanir sínar á umsögnum gjafsóknarnefndar. Umsagnirnar voru þannig settar fram að umboðsmaður taldi niðurstöður nefndarinnar hafa verið reistar á því að gjafsóknarreglur XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, tækju ekki til mála er vörðuðu ágreining í kjölfar fullnustugerðar sem hefði farið fram á grundvelli aðfararhæfs dóms. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns var því aftur á móti lýst að ágreiningur á grundvelli laga nr. 90/1989, um aðför, gæti fullnægt skilyrðum gjafsóknar en ráðuneytið hefði talið umsagnirnar byggðar á því að málið gæti ekki fengið efnislega umfjöllun fyrir dómstólum þar sem aðfararmálinu er ágreiningurinn stóð um var lokið. Umboðsmaður tók fram að þessar forsendur fyrir umsögnum gjafsóknarnefndar yrðu ekki ráðnar af orðalagi þeirra. Hann lagði áherslu á að þótt umsagnir gjafsóknarnefndar væru bindandi væri það verkefni innanríkisráðherra að taka endanlega afstöðu til gjafsóknarbeiðna. Hefði það verið afstaða ráðuneytisins að gjafsóknarreglur laga um meðferð einkamála næðu til þessarar tegundar mála og fjalla bæri efnislega um beiðnirnar hefði ráðuneytinu borið, í ljósi skýrra forsendna og niðurstaðna umsagna gjafsóknarnefndar í aðra veru, að leggja fyrir nefndina að fjalla um málið á ný og taka efnislega afstöðu til beiðnanna. Það hefði aftur á móti ekki verið gert heldur hefði ráðuneytið reist synjanir sínar á umsögnunum. Það væri verulega gagnrýnivert.
Niðurstaða umboðsmanns var sú að synjanir innanríkisráðuneytisins hefðu ekki verið í samræmi við XX. kafla laga nr. 91/1991. Hann mæltist til þess að ráðuneytið tæki mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr þeim í samræmi við þau sjónarmið sem gerð væri grein fyrir álitinu. Jafnframt mæltist hann til þess að ráðuneytið gætti framvegis betur að þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu í störfum sínum.