A kvartaði yfir ýmsum atriðum sem lutu að strandveiðum. A hafði sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu erindi með tólf tölusettum spurningum sem hann taldi snúast um réttlæti og mannréttindi í strandveiðikerfinu og brotum á jafnræðisreglu, samkeppnislögum og mannréttindalögum. Í svörum ráðuneytisins til A kom m.a. fram að mælt væri fyrir um í 6. gr. a. í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, hvernig strandveiðar skyldu fara fram og að um skýringar á því hvers vegna reglurnar væru þess efnis yrði að vísa til meðhöndlunar Alþingis. Þá kom fram að athugasemdir A gætu komið til umfjöllunar ráðuneytisins ef ákveðið yrði að breyta fyrirkomulagi strandveiða í framtíðinni.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. október 2012.
Í bréfi sínu til A gerði umboðsmaður grein fyrir ákvæðum 6. gr. a. í lögum nr. 116/2006, og tók fram að með vísan til a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 hefði hann ekki forsendur til að gera athugasemd við efni laganna nr. 116/2006, og að erindið gæfi sér ekki tilefni til að taka til athugunar hvort meinbugir væru á lögunum. Þar sem erindi A var sett fram sem almenn fyrirspurn til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera sérstakar athugasemdir við svar ráðuneytisins til hans. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu. Þar sem almennar fyrirspurnir kalla á önnur viðbrögð en stjórnsýslukærur benti umboðsmaður A þó á að samkvæmt lögum nr. 116/2006 færi Fiskistofa með það hlutverk að veita leyfi til strandveiða og hafa eftirlit með veiðunum. Sama gilti varðandi makrílveiðar, sbr. reglugerð nr. 329/2012. Teldi A að Fiskistofa hefði brotið á rétti hans með tilteknum ákvörðunum eða athöfnum er vörðuðu hann sérstaklega gæti hann freistað þess að bera fram sérstaka stjórnsýslukæru við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem bæri þá að úrskurða í málinu, eftir atvikum eftir að A hefði leitað til Fiskistofu.