A kvartaði yfir málsmeðferð Persónuverndar við athugun á því hvort myndavél hefði verið komið fyrir í bifreið sem lagt var í bílastæði í eigu hennar í bílageymslu í fjölbýlishúsi. Persónuvernd felldi málið niður vegna sönnunarskorts.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í tilefni af þeirri athugasemd A að Persónuvernd hefði ekki útskýrt eða rökstutt aðkomu sína að málinu með vísan til lagaákvæða um valdsvið og valdheimildir stofnunarinnar benti umboðsmaður á að í bréfi til A hefði stofnunin vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 bæri henni að taka til umfjöllunar þær kvartanir sem bærust og að ekki væri unnt að taka afstöðu til þess hvort kvörtunin á hendur henni væri tilhæfulaus nema með því að kanna það fyrst. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við að Persónuvernd hefði hafið athugun á því, á grundvelli kvörtunar sem barst stofnuninni frá öðrum íbúum fjölbýlishússins, hvort umrædd vöktun færi fram.
Þá varð ekki annað ráðið af gögnum málsins en að Persónuvernd hefði, í tilefni af athugasemdum A, kannað hvort þeir einstaklingar sem stóðu að kvörtuninni hefðu fullnægjandi umboð húsfélagsins í fjölbýlishúsinu til að leggja fram kvörtun á hendur henni í nafni félagsins. Í ljósi þess að málinu lauk ekki með efnislegri niðurstöðu Persónuverndar heldur niðurfellingu þess á grundvelli sönnunarskorts taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það að stofnunin virtist ekki hafa tekið endanlega afstöðu til þess hvort kvörtunin stafaði réttilega frá húsfélaginu eða hvort líta yrði svo á að hún stafaði frá einstaklingunum sjálfum.
Umboðsmaður taldi ekki heldur tilefni til að gera við það athugasemdir að í því skyni að sinna rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði Persónuvernd óskað upplýsinga um málið frá A, enda beindist kvörtunin að henni, eða að málinu hefði ekki verið vísað frá á þeim grundvelli að engin sönnunargögn hefðu fylgt kvörtuninni á hendur henni. Þá tók hann fram að hann fengi ekki séð að sú staðhæfing A að Persónuvernd hefði heitið einstaklingunum sem stóðu að kvörtuninni trúnaði ætti sér stoð í gögnum málsins.
Hvað varðaði athugasemdir við að A hefði verið veittur skammur frestur til svara og að svarfresturinn hafi verið stuttu eftir jólahátíðina tók umboðsmaður fram að af stöðluðu bréfi, stíluðu á húsfélagið, þar sem móttaka kvörtunarinnar var staðfest yrði ekki annað ráðið en að lengd svarfrestsins hefði verið í samræmi við almenna framkvæmd hjá stofnuninni. Þá lægi fyrir að fallist hefði verið á beiðni A um frekari frest til svara. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þetta atriði í stjórnsýslu Persónuverndar.
Jafnframt taldi umboðsmaður að þrátt fyrir að Persónuvernd hefði getað vandað betur til orðalags í bréfum sínum til A og annarra gæti hann ekki fullyrt að þau hefði almennt mátt skilja sem svo að stofnunin hefði tekið þá efnislegu afstöðu að myndvél væri í bílageymslunni á vegum A eða að sönnunarbyrði um það hefði verið lögð á hana.
Af þeim gögnum málsins sem umboðsmaður fékk afhent frá Persónuvernd og samanburði þeirra við þau gögn sem fylgdu erindi A taldi umboðsmaður sig enn fremur ekki hafa forsendur til að fullyrða að A hefði ekki fengið öll gögn málsins afhent. Þá taldi hann ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna tafa sem urðu á að afhenda A afrit af kvörtuninni á hendur henni og leit þá til þess að hún fékk afritið afhent um síðir og var beðin velvirðingar á töfunum.
Í ljósi þess að Persónuvernd felldi athugun sína á máli A niður rúmum þremur vikum eftir að stofnuninni barst tölvupóstur hennar þar sem farið var fram á að það yrði gert í tæka tíð fyrir aðalfund húsfélags í fjölbýlishúsinu taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þess að tölvubréfinu hefði ekki verið svarað sérstaklega að öðru leyti eða vegna þess tíma sem leið frá því að erindið var sent þar til málið hlaut endanlegar lyktir.
Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugsemdir við að Persónuvernd hefði afhent tilteknum lögmanni gögn málsins enda hafði hann umboð tveggja af þeim þremur einstaklingum sem stóðu að kvörtuninni á hendur A. Vegna þeirrar athugasemdar A að Persónuvernd hefði ekki upplýst um það hvernig lögmaðurinn gerði grein fyrir aðkomu sinni að málinu benti umboðsmaður á að gerð væri grein fyrir því í bréfi Persónuverndar til A tilgreindan dag. Í ljósi leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga og andmælareglu 13. gr. sömu laga taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við að Persónuvernd hefði leiðbeint einstaklingunum sem lögðu kvörtunina fram um að málið yrði fellt niður ef ekki yrðu lögð fram frekari gögn sem renndu stoð undir málatilbúnað þeirra.
Þar sem sú afstaða A að einsýnt væri að umfjöllun fjölmiðla um málið stafaði frá stofnuninni sjálfri var ekki studd gögnum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka það atriði til sérstakrar athugunar en benti A hins vegar á að hún gæti aflað upplýsinga hjá Persónuvernd um hvort fjölmiðlum hefðu verið veittar upplýsingar um málið umfram það sem fram kæmi á heimasíðu stofnunarinnar þar sem að jafnaði væru birtar upplýsingar um afgreiðslu mála hjá stofnuninni.
Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og þær athugasemdir sem A gerði við hæfi stjórnarformanns Persónuverndar taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu stofnunarinnar að hæfisskilyrðum stjórnsýslulaga hefði verið gætt með fullnægjandi hætti í málinu. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að draga það í efa að tiltekinn starfsmaður Persónuverndar kannaðist ekki við aðila málsins.
Að lokum tók umboðsmaður fram að önnur atriði í kvörtun A gæfu sér ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar að öðru leyti en því að hann hefði hefði ritað Persónuvernd bréf vegna vettvangsathugunar stofnunarinnar í bílageymslu fjölbýlishússins. Í bréfinu benti umboðsmaður Persónuvernd á að í skýringum stofnunarinnar til sín hefði ekki komið fram hvers vegna starfsmenn Persónuverndar gerðu ekki tilraun til að gera A viðvart um athugun sína þegar á vettvanginn var komið og eftir atvikum leita eftir afstöðu hennar til athugunarinnar eða veittu henni eða umboðsmanni hennar kost á að vera viðstöddum. Umboðsmaður benti stofnuninni því á að huga framvegis betur að þessu við meðferð sambærilegra mála.