I.
Hinn 14. janúar 1994 leitaði til mín A, fangi á Litla-Hrauni. Kvörtun A lýtur að ýmsum þáttum vegna vistunar hans að Litla-Hrauni, en einkum fjórum atriðum. Í fyrsta lagi kvartar A yfir því, að hann hafi verið vistaður í tæpa 13 mánuði á "lokuðum gangi". Kveður hann vistun þessa hafa spillt andlegri og líkamlegri heilsu sinni, auk þess sem hann hafi af þessum sökum eigi getað stundað vinnu eða nám eins og aðrir fangar, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist. Í öðru lagi kvartar A yfir ófullnægjandi læknis- eða sálfræðiþjónustu í fangelsinu. Þá kvartar hann yfir því, að hann eigi þess ekki kost að stunda líkamsþjálfum í fangelsinu, sbr. 15. gr. laga nr. 48/1988, og loks yfir því, að hafa eigi fengið heimild til þess að fá heimsóknir, sbr. 17. gr. laga nr. 48/1988. Eftir athugun á kvörtun A ákvað ég, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að takmarka nánari athugun mína við tvö fyrstnefndu atriðin í kvörtun hans.
II.
Ég ritaði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf 31. janúar 1994 og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 30. mars 1994. Með bréfi ráðuneytisins fylgdi, ásamt gögnum málsins, ítarleg greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 25. mars 1994. Þá fylgdu einnig með bréfinu bréf G, forstöðumanns Litla-Hrauns, dags. 3. mars 1994, umsögn H, fangelsislæknis, dags. 7. mars 1994, umsögn I, fangelsislæknis, dags. 21. mars 1994, og greinargerð J, sálfræðings, dags. 25. mars 1994. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir, að bréf fangelsismálastofnunar, svo og þau gögn, er fylgi bréfi ráðuneytisins, varpi skýru ljósi á aðbúnað A í refsivistinni og á þá meðferð, er hann hafi sætt. Að dómi ráðuneytisins hafi hann eigi sætt lakari meðferð en aðrir fangar, sem svipað sé ástatt um.
Í greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 25. mars 1994, er gerð grein fyrir sakaferli A, þeim dómum, er hann hefur hlotið, hvernig gæsluvarðhaldsvist og afplánunarvist hans hefur verið háttað og loks hvaða heimsóknir hefðu verið leyfðar til hans. Í greinargerðinni segir meðal annars:
"Hvað snertir vistun [A] á B-gangi vesturálmu fangelsisins Litla-Hrauni skal upplýst, að hann telst til þeirra fanga sem hvað mest hætta stafar af bæði varðandi strok úr refsivist, öryggi og góða reglu í fangelsi og einnig sjónarmið er lúta að öryggi almennings. Um strok hans úr fangelsi vísast til héraðsdóms Suðurlands frá 18. mars 1994 og bréfs fangans til undirritaðs, dags. 20. nóvember 1993, þar sem fram koma upplýsingar um stöðugar hugleiðingar fangans um að strjúka úr fangelsi og af landi brott. Ennfremur vísast til framburðar árásarþola um flóttaáform [A] úr landi, sbr. D-lið hér að framan. Þeir fangar sem til ofangreinds hóps teljast eru vistaðir á A- gangi eða B-gangi vesturálmu. Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar í tengslum við aukið öryggi álmunnar og eftirlit með þeim föngum sem þar eru vistaðir. Enn má vísa til framangreindrar umsagnar til umboðsmanns Alþingis bæði hvað varðar breytingar á öryggismálum fangelsanna og aðstöðu þeirra fanga sem í vesturálmu fangelsisins að Litla-Hrauni vistast og aðgerðir fangelsisyfirvalda til að koma í veg fyrir uppþot og strok fanga.
Hvað lýtur að fullyrðingum [A] um heilsufar, vinnu, nám og líkamsþjálfun skal vísað til títtnefndrar umsagnar til umboðsmanns Alþingis [dags. 21. janúar 1994, vegna kvörtunar nr. 985/1994] og meðfylgjandi umsagna sem fangelsismálastofnun hefur aflað í tilefni kvörtunarinnar. [...]
Þann 3. september 1993 ákvað forstöðumaður fangelsa á höfuðborgarsvæðinu að banna tilgreindum einstaklingum að heimsækja [A] vegna rökstudds gruns lögreglu um aðild þeirra að stroki hans og samfanga hans. Það var gert af öryggisástæðum og byggðist ákvörðunin á rannsóknargögnum lögreglunnar í Reykjavík [...] [A] skaut ákvörðuninni tvívegis til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti hana í bæði skiptin, þ.e. 16. september 1993 og 11. október 1993. Hann skaut ákvörðuninni einnig til héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti hana jafnframt með úrskurði 1. nóvember 1993. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar 2. nóvember, en rétturinn vísaði málinu frá sér með dómi uppkveðnum 11. nóvember 1993. Þann 5. nóvember 1993 tók yfirfangavörður fangelsisins Síðumúla 28 í umboði forstöðumanns nýja ákvörðun um áframhaldandi heimsóknarbann varðandi sömu aðila. Fyrri ákvörðun forstöðumanns var byggð á 3. mgr. 41. gr. reglugerðar nr. 179/1992, um gæsluvarðhaldsvist, en sú síðari á 2. mgr. 17. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist og 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 119/1990, um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga. [B], þá 18 ára gömul, var á meðal þeirra 9 aðila sem heimsóknarbannið náði til. Með héraðsdómi Suðurlands, uppkveðnum 18. mars 1994, var einn þessara aðila, [C], dæmdur í 30 daga varðhald fyrir að aðstoða fangana við að strjúka. Samkvæmt dóminum var ekki gefin út ákæra á hendur stúlku þessari. Henni var heimilað að heimsækja [A] í fangelsið Litla-Hraun þann 27. febrúar 1994 og 13. og 20. mars 1994 eða skömmu eftir að strokmálið var dómtekið. Þann 26. desember 1993 og 9. janúar 1994 fékk [A] hins vegar heimsóknir frá [D], 18 ára gamalli.
Það er meginregla fangelsislöggjafarinnar, að fangi hafi rétt til að þiggja heimsóknir af nánustu vandamönnum sínum. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur forstöðumaður bannað þeim heimsóknir. Heimsóknarbann það sem hér um ræðir byggðist á rannsóknargögnum lögreglu og ríkum ástæðum til að tryggja öryggi og góða reglu í fangelsi og til að koma í veg fyrir frekara strok, bæði [A] og annarra fanga... Bannið beindist að öllum þeim 9 einstaklingum sem tengdust stroki [A] og samfanga hans, samkvæmt fyrrgreindum rannsóknargögnum, en ekki aðeins að [B] einni. Þá ber að geta þess, að hún verður ekki talin til nánustu vandamanna í skilningi laganna eða aðrir þeir sem á listanum voru. Jafnvel þótt svo hefði verið þá eru lagaheimildir um bann forstöðumanns ótvíræðar. Reyndar er það svo, að ákvarðanir forstöðumanna fangelsanna um að leyfa frekari heimsóknir, eins og fram kemur hér að framan, eru umfram það sem fanginn á rétt á lögum samkvæmt. Þarflaust er að fjalla ítarlegar um heimsóknarbann þetta og látið við það sitja að vísa til staðfestingar dómsmálaráðuneytis og dómstóla á því.
[...]
Fullyrt skal, að fangelsisvist [A] hefur verið lögum samkvæm og eins og aðstæður í fangelsum landsins leyfa. Hann hefur ekki sætt illri eða ómannúðlegri meðferð, hvað þá ofsóknum og óþarfa refsingum. Fangelsisvist hans hefur verið eins og afbrot og hegðun í fangelsi hafa gefið tilefni til og allar ákvarðanir fangelsisyfirvalda óhjákvæmilegar og ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn hefur borið til. Fanginn hefur hvað síst fengið verri meðhöndlun en aðrir fangar sem svipað er ástatt um. Reyndar má halda því fram að hann hafi notið ríkrar aðstoðar starfsmanna fangelsiskerfisins. Að öllu ofangreindu virtu og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að kvartanir fangans eigi við rök að styðjast."
Í bréfi forstöðumanns Litla-Hrauns til fangelsismálastofnunar, dags. 3. mars 1994, segir meðal annars:
"Fanginn kom til afplánunar að Litla-Hrauni hinn 7. desember 1993 og hefur frá þeim tíma verið vistaður á B-gangi fangelsisins ásamt fimm öðrum föngum.
Fram til 16. febrúar s.l. höfðu fangar á B-gangi aðeins útivist í lokuðum garði, án samgangs við fanga í öðrum deildum, og var útivistartími þá lítt takmarkaður.
[...]
Föngum á B-ganginum hefur þann tíma sem þeir höfðu ekki samgang við aðra fanga, verið gefinn kostur á utanskólanámi við Fjölbrautaskóla Suðurlands, undir leiðsögn kennara. Lítilsháttar vinnu hafa þeir haft við þrif.
Frá og með 16. febrúar hafa fangar á B-gangi átt þess kost að stunda vinnu, nám og útivist meðal annarra fanga, á tímabilinu frá kl. 9.00 til kl. 11.30 á virkum dögum. Frjáls valkostur er um nám eða vinnu.
Fanginn [A] sækir skólann tvo daga í viku, en stundar auk þess utanskólanám í þremur greinum sem ekki eru kenndar við skólann á Litla Hrauni."
Í greinargerð frá sálfræðingi fangelsismálastofnunar til stofnunarinnar, dags. 25. mars 1995, segir meðal annars:
"[A] bað um viðtal við undirritaðan þann 10. nóvember 1992, daginn sem hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjavíkur (til 25. nóvember). Þeirri beiðni var sinnt 13. nóvember 1992. Í því viðtali var útskýrt fyrir honum að viðtöl í náinni framtíð yrðu stopul vegna anna undirritaðs, þ.e. hann var settur á biðlista eins og flestir nýkomnir í fangelsi. Annað viðtal við hann var svo 9. desember 1992. Eftir það og fram í október 1993 hitti ég hann sex sinnum í Síðumúlafangelsinu... eða samtals átta sinnum á 13 mánaða tímabili. Eftir að hann var fluttur í fangelsið á Litla-Hrauni í desember síðastliðnum hefur undirritaður hitt hann sex sinnum, í viðtölum... í öll skiptin eftir að hann var vistaður á B-ganginum.
Auk einstaklingsviðtala hefur [A] sótt námskeið, sem undirritaður hefur haldið á Litla-Hrauni. Þar hafa auk hans níu aðrir fangar verið. Námskeiðið er ætlað þeim föngum sem vilja takast á við nýtt lífsmunstur, t.d. að hætta áfengis- eða vímuefnaneyslu. Á námskeiðinu er fjallað um það hvernig hægt er að vera viðbúinn aðstæðum, sem geta sett mann út af laginu og hvernig unnt er að bregðast við slíkum aðstæðum.
Öll samskipti mín við [A] hafa verið með ágætum. Hann hefur fyrst og fremst beðið mig um aðstoð vegna þess að hann á erfitt með að hafa stjórn á reiði sinni og áfengis- og vímuefnaneyslu. Ekki er ástæða til að lýsa samskiptum okkar frekar af þessu tilefni. Ástæðan fyrir því að [A] hefur ekki notið þjónustu undirritaðs frá því að hann var hnepptur í gæsluvarðhald í nóvember 1992 í sama mæli og áður er sú að ég anna ekki eftirspurn, þ.e. hann hefur fram til þessa verið á "biðlista".
Á Litla-Hrauni hafa allt að 45% fanga verið á lista hjá sálfræðingi stofnunarinnar, þ.e. rúmlega 20 fangar hverju sinni af þeim 51 fanga, sem eru vistaðir á Litla-Hrauni. Undirritaður hefur tök á að sinna fimm til sjö föngum í hvert skipti á Litla-Hrauni, hverjum í að meðaltali klukkutíma í senn. Hvað varðar þjónustu við önnur fangelsi þá er þeim venjulega sinnt eftir einstökum beiðnum. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi eru þó oftast heimsótt vikulega. Í þessum tveimur fangelsum hefur undirritaður að staðaldri fjóra til sex skjólstæðinga. Í u.þ.b. tvö og hálft ár hef ég auk þess hitt alla fanga er koma í fyrsta skipti til afplánunar. Þess má einnig geta að skjólstæðingar undirritaðs er koma til viðtals á skrifstofu stofnunarinnar eru að staðaldri fjórir til sex talsins.
Ferðir í fangelsi úti á landi á tímabilinu október 1993 til febrúar 1994 voru 15 talsins. Tólf ferðir á Litla-Hraun, eða um 2-1/2 ferð á mánuði og þrjár ferðir á Kvíabryggju eða u.þ.b. einu sinni á tveggja mánaða fresti. [...]
[A] hefur fengið a.m.k. jafnmikla aðstoð undirritaðs og aðrir fangar, ef ekki ívið meiri. Sjálfsagt er að bæta sálfræðiþjónustu stofnunarinnar og á það hefur undirritaður oft bent, en fjárveiting ekki fengist."
Með bréfi, dags. 6. apríl 1994, gaf ég [A] kost á að gera athugasemdir við bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. mars 1994, og greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 25. mars 1994. Athugasemdir A og fimm annarra fanga á Litla-Hrauni bárust mér með bréfi, dags. 13. apríl 1994. Í framhaldi af þeim athugasemdum fór ég hinn 25. maí 1994 í heimsókn á Litla-Hraun og kannaði aðstæður. Átti ég þar meðal annars viðtal við A.
Hinn 23. júní 1994 ritaði ég forstöðumanni fangelsisins á Litla-Hrauni bréf. Vísaði ég þar til heimsóknar minnar í fangelsið, en þá hefði meðal annars komið fram, að fangar á svonefndum B-gangi hefðu um nokkurt skeið ekki átt kost á vinnu eftir hádegi. Með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 óskaði ég eftir því, að forstöðumaðurinn léti mér í té upplýsingar um, hvort teknar hefðu verið nýjar ákvarðanir um vinnu þessara fanga á B-gangi. Með bréfi, dags. 25. júlí 1994, upplýsti forstöðumaðurinn, að svo væri ekki. Í bréfi til fangelsismálastofnunar, dags. 8. ágúst 1994, óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að stofnunin léti mér í té upplýsingar um ástæður þess, að fangar á B-gangi hefðu um nokkurt skeið ekki átt kost á vinnu eftir hádegi. Sama dag ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf sama efnis, og óskaði þar jafnframt þess, að ráðuneyti hans léti mér í té upplýsingar um, hvort breytinga væri að vænta á þessu fyrirkomulagi um vinnu fanga á B-gangi Litla-Hrauns. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 30. september 1994. Kemur þar meðal annars eftirfarandi fram:
"Fór ráðuneytið þess á leit við Fangelsismálastofnun ríkisins að afla hinna umbeðnu upplýsinga. Með bréfi, dags. 28. þ.m. sendir hún ráðuneytinu bréf forstöðumanns fangelsisins að Litla-Hrauni, dags. 13. þ.m., þar sem fram koma skýringar á því hvers vegna [A] og aðrir á svonefndum B-gangi hefðu ekki átt kost á sömu vinnu og aðrir fangar, og að honum hafi frá 18. ágúst sl. gefist tækifæri til að vinna allan þann tíma sem vinna fanga stendur almennt yfir.
[...]
Að lokum vill ráðuneytið árétta að vegna hegðunar [A] var af öryggisástæðum talið nauðsynlegt á sínum tíma að viðhafa sérstakar öryggisráðstafanir gagnvart honum sem og nokkrum öðrum föngum."
Í tilvitnuðu bréfi forstöðumanns fangelsisins að Litla-Hrauni, dags. 14. september 1994, segir meðal annars:
"Vegna ákvörðunar um sérstaka gæslu fanga á A- og B-göngum fangelsisins m.a. með tilliti til undangenginna stroka og annarra agabrota, var ákveðið að takmarka nokkuð útivist þeirra fyrst í stað og þar með aðgang að vinnu. Vegna takmarkaðra verkefna og af öryggisástæðum þótti skynsamlegt að þeir ynnu til að byrja með aðeins fyrir hádegi. Vegna þokkalegrar hegðunar fanganna var í byrjun ágústmánaðar ákveðið að þeir ættu einnig kost á vinnu eftir hádegi svo framarlega að verkefni leyfðu. Nokkrir fangar sem höfðu farið fram á að fá að vinna virtust þó ekki hafa áhuga þegar til kom. Hvað varðar fangann [A] sérstaklega, þá hefur honum frá 18. ágúst s.l. gefist tækifæri til, vegna nýs verkefnis í hellusteypu, að vinna allan þann tíma sem vinna fanga almennt stendur yfir. [A] hefur síðan stundað vinnu með ágætum.
Allir fangar sem vistaðir eru á A- og B-göngum hafa nú sömu möguleika og aðrir fangar til náms og vinnu."
Með bréfi, dags. 4. október 1994, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. september 1994, bréf fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1994, og bréf forstjóra fangelsisins á Litla-Hrauni, dags. 14. september 1994. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 29. nóvember 1994.
Hinn 3. janúar 1995 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og fangelsismálastofnun samhljóða bréf. Vísaði ég þar til þess, að A hefði meðal annars kvartað yfir ófullnægjandi sálfræðiþjónustu að Litla-Hrauni, en vegna andlegs ástands síns teldi hann sig þurfa á mun meiri sálfræðiaðstoð að halda en í boði væri. Í gögnum málsins kæmu fram þær upplýsingar, að einn sálfræðingur starfaði hjá fangelsismálastofnun og annaði hann ekki eftirspurn. Þannig væru fangar á Litla-Hrauni, sem óskuðu sálfræðiaðstoðar, á biðlista jafnvel svo vikum skipti. Þá hefði komið fram í gögnum málsins, að næg verkefni væru fyrir annan sálfræðing til starfa hjá fangelsismálastofnun. Hefði starfandi sálfræðingur stofnunarinnar oft bent á þá þörf. Með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, óskaði ég þess, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fangelsismálastofnun skýrðu viðhorf sitt til þessa þáttar í kvörtun A, og létu mér í té upplýsingar um, hvort breytinga væri að vænta á þessu fyrirkomulagi um sálfræðiaðstoð við fanga á Litla-Hrauni, þar á meðal A. Svar fangelsismálastofnunar barst mér með bréfi, dags. 25. janúar 1995. Segir þar meðal annars:
"Fanginn hefur notið allrar þeirrar þjónustu og aðstoðar sem fyrir hendi er og mögulegt hefur verið að veita honum, bæði af hálfu sálfræðings fangelsismálastofnunar, geðlæknis réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi og annars heilsugæslustarfsfólks starfandi hjá fangelsunum. Þá var fanganum raðað í þann forgangshóp fanga sem nýtur hvað mestrar aðstoðar sálfræðings og geðlæknis. [...]
Að sjálfsögðu þarf enn að efla starfsemi og uppbyggingu fangelsismála eftir þeirri fangelsismálastefnu sem mótuð var árið 1992 með áliti fangelsismálanefndar til dómsmálaráðherra. Til þeirra verkefna þarf Alþingi að veita mun meira fjármagni og er athygli umboðsmanns Alþingis vakin á því."
Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 25. apríl 1995, og segir þar meðal annars:
"Ráðuneytinu er ljóst að einn sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins kemst ekki yfir að sinna þeim mörgu föngum er þarfnast sálfræðilegrar þjónustu, og mun því leggja áherslu á að afla heimildar hjá fjárveitingavaldinu til þess að ráða sálfræðing í fullt starf við fangelsið á Litla-Hrauni á fjárlögum ársins 1996. Er þannig vonast til þess að þessi þjónusta verði bætt á viðunandi hátt."
Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fylgdi meðal annars bréf fangelsismálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 12. apríl 1995. Segir þar meðal annars, að fangelsismálastofnun hefði í fjárlagatillögum ársins 1996 gert ráð fyrir, að ráðinn yrði sálfræðingur í fullt starf við Fangelsið á Litla-Hrauni. Næði sú tillaga fram að ganga, mundu tveir sálfræðingar starfa á þessu sviði frá og með því ári.
III.
Í áliti mínu, dags. 17. ágúst 1995, sagði svo um kvörtunarefni A:
"1.
Eins og fyrr greinir ákvað ég, eftir að hafa aflað gagna og upplýsinga frá stjórnvöldum vegna málsins, að afmarka athugun mína á kvörtun A við tvö atriði, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Annars vegar tók ég til athugunar þann þátt, að fangar á svonefndum B-gangi Litla-Hrauns ættu þess ekki kost að stunda vinnu eftir hádegi svo sem aðrir fangar. Hins vegar tók ég fyrir það kvörtunarefni A, að hann ætti þess ekki kost, að fá þá sálfræðiaðstoð, sem hann hefði óskað eftir og teldi sig þarfnast. Hvað snertir þann þátt kvörtunarinnar, er lýtur að ófullnægjandi geðlæknaþjónustu, hef ég ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að taka þann þátt til athugunar í sérstöku frumkvæðismáli.
Að því er varðar aðgang A, sem og annarra fanga á B-gangi Litla Hrauns, að vinnu eftir hádegi hefur komið fram í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. september 1994, sbr. einnig greinargerð forstöðumanns Litla-Hrauns, dags. 14. september 1994, að A hafi frá 18. ágúst 1994 gefist tækifæri á að vinna allan þann tíma, sem vinna fanga stendur almennt yfir. Jafnframt að allir fangar, sem vistaðir eru á A- og B-göngum fangelsisins, hafi nú sömu möguleika og aðrir fangar til náms og vinnu. Með hliðsjón af þessum breytingum og þeim skýringum og gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, tel ég að svo komnu eigi tilefni til athugasemda við þennan þátt kvörtunar A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.
2.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er hlutverk fangelsismálastofnunar í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar fer stofnunin með daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa og fullnustu refsidóma, en hins vegar með skilorðseftirlit og félagslega þjónustu við fanga og þá, sem eru undir eftirliti. Samkvæmt 5. tölulið 2. gr. laga nr. 48/1988 skal fangelsismálastofnun sjá til þess, að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, prestsþjónusta, o.s.frv. Enda þótt sálfræðiþjónusta sé ekki tilgreind sérstaklega í 5. tölul. 2. gr., verður að telja, að hún falli undir "sérhæfða þjónustu" samkvæmt ákvæðinu.
Ég tel ástæðu til að árétta mikilvægi þess, að fangar fái notið sálfræðiþjónustu, ekki aðeins í bráðnauðsynlegustu tilvikum, heldur einnig í því markmiði að aðstoða þá við að takast á við vandamál sín. Verður að telja það óviðunandi, ef fangar, sem eiga við sálræn vandamál að stríða, eiga þess ekki kost að fá nauðsynlega aðstoð að þessu leyti. Í gögnum þessa máls og skýringum stjórnvalda kemur fram, að mikil eftirspurn er eftir aðstoð sálfræðinga meðal fanga, mun meiri en sá eini sálfræðingur, sem nú starfar hjá fangelsismálastofnun, getur með góðu móti sinnt. Að því er snertir þá kvörtun, sem hér er til umfjöllunar, skal bent á, að A hefur ítrekað lýst því yfir, að hann óski eftir aðstoð, meðal annars sálfræðinga, við það að snúa til betri vegar, enda telji hann sér það erfitt án slíkrar hjálpar. Ég tel samkvæmt framansögðu að A hafi átt að njóta meiri sálfræðiaðstoðar en raun ber vitni.
Af hálfu fangelsismálastofnunar hefur komið fram, að stofnunin hafi í fjárlagatillögum sínum fyrir árið 1996 gert ráð fyrir, að ráðinn verði sálfræðingur í fullt starf að Litla-Hrauni. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 25. apríl 1995, kemur einnig fram, að ráðuneytinu sé ljóst, að einn sálfræðingur hjá fangelsismálastofnun komist ekki yfir að sinna þeim mörgu föngum, sem þarfnist sálfræðiþjónustu, og muni því leggja áherslu á að afla heimildar hjá fjárveitingavaldinu til þess að ráða sálfræðing í fullt starf við fangelsið á Litla-Hrauni á fjárlögum fyrir árið 1996. Ekki verður hér lagt mat á það, hvort sú ráðstöfun sé fullnægjandi, miðað við þær þarfir sem fyrir liggja í fangelsum landsins. Á hinn bóginn lít ég svo á, að ráðning sálfræðings í fullt starf að Litla-Hrauni komi til móts við kvörtun A að þessu leyti. Það eru því tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að það fylgi þeim áætlunum sínum eftir við fjárveitingarvaldið, að sálfræðiaðstoð við fanga verði bætt. Af þessu tilefni tel ég einnig rétt að senda Alþingi álit þetta til upplýsingar.
IV.
Svo sem mál hafa skipast samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, tel ég ekki tilefni til annarra athugasemda af minni hálfu en tilmæla um, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fylgi eftir, svo sem kostur er, þeim áformum, að sálfræðiaðstoð við fanga verði bætt."
V.
Með bréfi, dags. 4. júní 1996, óskaði ég eftir því við dóms- og kirkjumálaráðherra, að upplýst yrði, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af fyrrgreindu áliti mínu. Í svari dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 11. júní 1996, segir meðal annars:
"Til upplýsingar skal þess getið að fangelsismálastofnun hefur undanfarin misseri gefið þessari auknu þörf fyrir sálfræðiaðstoð sérstakar gætur, og í tengslum við skipulagsbreytingar, [...] þar sem ákveðið er að [...] sálfræðingur hjá stofnuninni, veiti fræðsludeild stofnunarinnar forstöðu, var ákveðið að ráða sálfræðing til starfa í fullt starf til viðbótar því starfi sem [sálfræðingurinn] mun áfram gegna við sálfræðiþjónustu.
Að tillögu fangelsismálastofnunar ríkisins samþykkti ráðuneytið ráðningu [...], sálfræðings, í maí sl., en honum er einkum ætlað að veita sálfræðilega ráðgjöf og þjónustu við fanga í fangelsinu á Litla-Hrauni. Honum er þó einnig ætlað að sinna öðrum föngum og vera fangelsismálstofnun og öðrum fangelsum til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að sérþekkingu hans. [Hann] hefur þegar tekið til starfa sem starfsmaður fangelsismálastofnunar undir faglegri stjórn [...] yfirsálfræðings, en laun hans verða greidd af rekstrarfé fangelsisins á Litla-Hrauni...."